Hengibjörk / Vörtubirki – Betula pendula
All stórvaxið, sumargrænt tré. Smágreinar yfirleitt meira og minna slútandi. Börkur á eldri trjám áberandi hvítur með svörtum skellum við greinafestingar. Sólelsk. Þrífst best í sæmilega frjóum, vel framræstum, steinefna-ríkum jarðvegi. Hengibjörk hefur talsvert mikið verið reynd hérlendis enda með fegurstu trjám sem völ er á. Þrífst almennt illa. Kelur yfirleitt mikið og drepst að því er virðist upp úr þurru. Aftur á móti þrífst hengibjörk víða vel inn til landsins sérstaklega austur á Héraði og inn í Eyjafirði. Eigum til eitthvað af hengibjörk af finnskum uppruna. Heimkynni hengibjarkar eru í Evrópu og austur eftir Asíu. Þó ekki nyrst og syðst.
Vöruflokkur: Skógarplöntu-bakkar
Tengdar plöntur
Loðvíðir ‘Laugabrekka’ – Salix lanata ‘Laugabrekka’
Mjög harðgerður, íslenskur runni. Upprétt yrki. Hæð: 1 - 2 m. Laufið grágrænt og loðið. Kvenkyns yrki. Sólelskur. Loðvíðir 'Laugabrekka' laufgast ekki fyrr en um miðjan júní. En fyrir vikið sækja pöddur ekki í þetta yrki ólíkt öðrum loðvíði. Þrífst í alls konar jarðvegi. Vind- og saltþolinn. Hefur lengi verið framleiddur í Þöll og reynst vel. Hentar í raðir, þyrpingar, lágvaxin limgerði, brekkur, opin svæði og sumarhúsalóðir. Millibil 50 - 80 sm. Einnig nefndur grávíðir.
Rjúpuvíðir ‘Þórhalla’ – Salix glauca ‘Þórhalla’
Mjög harðgerður, meðalstór runni. Lauf og sprotar gráloðin. Gulir haustlitir. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Minnir á loðvíði (S. lanata) en laufið á rjúpuvíði er að jafnaði smærra. Engin axlarblöð eru á rjúpuvíði eins og eru á loðvíði. Rjúpuvíðir 'Þórhalla' sómir sér vel í blönduðum beðum með öðrum gróðri en einnig í röðum og þyrpingum. Þolir vel klippingu. Yrkið er kennt við Þórhall Jónsson kaupmann en hann var m.a. mikilvirkur í Dalíuklúbbnum. Rjúpuvíðir 'Þórhalla' mun upphaflega hafa komið hingað til lands frá Grænlandi en þar vex rjúpuvíðir villtur.
Reyniviður / Ilmreynir / Reynir – Sorbus aucuparia
Harðgert, íslenskt, lágvaxið - meðalhátt tré (5 - 12 m). Stundum runni. Ýmist ein- eða margstofna. Laufið stakfjaðrað. Brumin hærð. Gulir - rauðir haustlitir. Blómin hvít, ilmandi í sveipum fyrri part sumars. Reyniberin sem þroskast að hausti eru rauð / rauðgul í stórum klösum. Vex víða villtur í íslenskri náttúru. Mjög algengt og vinsælt garðtré. Fer vel stakstæður eða fleiri saman í röðum eða þyrpingum. Lágmarks-millibil á milli trjáa 3 m. Mjög breytileg tegund. Talsvert skuggþolinn sérstaklega í æsku. Reyniáta getur verið vandamál. Klippið og snyrtið reyni á sumrin til að forðast smit af reyniátu. Þrífst í öllum sæmileg frjóum, framræstum jarðvegi. Sáir sér víða út, sérstaklega í kjarr- og skóglendi, í hraunum og giljum. Vinsæl beitarplanta og hverfur yfirleitt þar sem er sauðfjárbeit. Sama á við um svæði þar sem eru kanínur. Forðist að gras vaxa upp að ungum plöntum. Heimkynni: Stór hluti Evrópu og þar með talið Ísland og N-Asía. Lang útbreiddasta reynitegundin í heiminum.
Ryðelri / Ryðölur – Alnus rubra
Harðgert, hraðvaxta, einstofna, meðalstór - stórvaxið tré (10 m). Lágvaxnara og runnkendara við erfið skilyrði. Laufin eru egglaga, 7 - 15 sm á lengd, sagtennt og langydd. Blaðjaðarinn verpist aðeins niður á við. Ung lauf gjarnan rauðmenguð. Haustlitur brúnn eða frýs grænn. Rauðleitir karlreklar vaxa fram snemma vors (mars / apríl). Kvenreklar brúnir fullþroska. Minna á litla köngla. Börkur grár með ljósum þverrákum. Gjarnan ber á uppblásnum trjákvoðu-bólum á berki. Sólelskt en gerir litlar kröfur til jarðvegs. Vex eins og annað elri í sambýli við niturbindandi bakteríur. Rótarskot engin eða lítið áberandi. Ryðelri hentar stakstætt, í raðir / þyrpingar með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Hentar einnig til skógræktar. Nýlegur í ræktun en lofar mjög góðu. Hugsanlega hentugt sem götutré. Ryðölurinn okkar er allur vaxinn upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá Alaska suður til Kaliforníu.
Alaskavíðir – Salix alaxensis – ‘Gústa’, ‘Oddur Guli’, ‘Töggur’ o.fl. yrki
Mjög harðgerður, vind- og saltþolinn, hraðvaxta, hávaxinn runni/lágvaxið tré (3-7 m). Greinar í fyrstu uppréttar en síðar útvaxnar og jafnvel drjúpandi. Sérbýll. Blómgast í apríl en silfurgráir reklar birtast gjarnan í mars. Humlur sækja í reklana á vorin. Laufblöð áberandi hvítloðin að neðanverðu. 'Gústa' sem einnig gengur undir nafninu "tröllavíðir" og "brúnn alaskavíðir" hefur dökkbrúna sprota, hvíthærða í endana. 'Oddur Guli' hefur gulgræna sprota og 'Töggur' skærgræna. Greinar 'Sunnu' eru óvenju mikið slútandi. Alaskavíðir er aðallega gróðursettur í skjólbelti og limgerði. Gróðursettar eru 2-3 plöntur/m. Þarf frjóan, steinefnaríkan og rakaheldinn jarðveg til að þrífast. Sólelskur. Klippið reglulega til að halda í góðu formi. Gulir haustlitir í október. Laus við asparglittu og ryð. Gamall (25 - 30 ára) óklipptur alaskavíðir fellur gjarnan um koll en stofnskot vaxa jafn harðan upp aftur. Sáir sér út í raskað land þar sem aðstæður leyfa. Heimkynni: Alaska og NV-Kanada.
Sitkagreni – Picea sitchensis
Mjög harðgert, stórvaxið, langlíft, sígrænt barrtré. Hraðvaxta. Vind- og saltþolið. Þolir vel klippingu. Þrífst best í brekkum þar sem er að finna ferskan jarðraka og jarðvegur er nokkuð frjór. Nálar dökkgrænar að ofanverðu en ljós-bláleitar að neðanverðu. Mjög stingandi. Könglar í fyrstu rauðleitir, seinna ljósbrúnir, pappírskenndir og meðalstórir. Þroskar köngla á nokkurra ára fresti eftir að 30 - 40 ára aldri er náð. Sum tré mynda þó köngla fyrr á æviskeiðinu. Börkur er fremur þunnur og er því sitkagreni ekki sérlega eldþolið tré. Viðurinn er léttur og hlutfallslega sterkur. Hann er m.a. notaður í hljóðfæri, flugvélar og báta. Útsprungin brum ná nota í greni-bjór og sýróp. Forðist að planta í frostpolla. Sumt af því sem kallað er sitkagreni kann að vera sitkabastarður / hvítsitkagreni (Picea x lutzii). Sitkagreni / sitkabastarður er lang algengasta grenið hérlendis. Sitkagreni er glæsilegt stakstætt, fer vel í röðum og þyrpingum. Einnig kjörið í skjólbelti og jafnvel klippt limgerði. Þó eru ekki öll sveitarfélög sem leyfa gróðursetningu sitkagrenis á lóðarmörkum (sjá byggingareglugerð) enda verður sitkagreni mjög stórvaxið með tímanum. Eitt mest notaða tré í skógrækt hérlendis enda harðgert og gott timburtré. Stundum nýtt sem jólatré enda ágætlega barrheldið. Lang besta sígræna tréið til ræktunar við sjávarsíðuna eins og t.d. á Reykjanesi. Sitkagreni gerir kröfur um frjósemi jarðvegs svo setjið vel af moltu eða búfjáráburði við gróðursetningu. Þegar skógarplöntur eru gróðursettar skal setja nokkur korn af tilbúnum áburði með. Hæstu tré hérlendis eru sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri, um 30 m á hæð (2022). Millibil við gróðursetningu að lágmarki 3 m. Stundum 2 m í skógrækt. Til frambúðar að lágmarki 4 - 5 m. Við framleiðum eingöngu sitkagreni af íslensku fræi. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Vex yfirleitt ekki langt frá ströndinni í heimkynnum sínum.
Lækjarvíðir ‘Blika’ – Salix arbusculoides ‘Blika’
Harðgerður, hávaxinn runni. Laufið lensulaga, fínlegt og gljándi. Haustlitur gulur. Sprotar dökkrauðbrúnir og gljáandi. Sólelskur. Þolir vel klippingu. Laus við asparglyttu. Lækjavíðir 'Blika' hentar vel í klippt limgerði. Einnig fer hann vel í þyrpingar og við læki og tjarnir. 2 - 3 stk/m henta í limgerði. Meira bil þarf að gefa þegar lækjarvíðir er gróðursettur í þyrpingar eða stakur eða um 1,5 m. 'Blika' er úrvalsyrki valin úr efniviði úr Alaskaferð Óla Vals og félaga árið 1985.
Myrtuvíðir ‘Vala’ – Salix myrsinites ‘Vala’
Mjög harðgerður, þéttur, lágvaxinn (60 - 100 sm stundum hærri) runni. Laufið, smágert, dökkgrænt og gljáandi. Gulir haustlitir. Gullinbrúnt, visið laufið hangir á greinunum fram á vor. Reklar með vínrauðum frævum birtast á vorin. Sólelskur en annars nægjusamur. Vind- og saltþolinn. Myrtuvíðir hentar sérstaklega vel í þyrpingar, raðir, til klæða brekkur og þess háttar. Fer sérlega vel með loðvíði (S. lanata). Asparglitta sækir nokkuð í myrtuvíði. Asparglitta er síður vandamál á vindasömum stöðum. Vinsæll og útbreiddur hérlendis. Yrkið er kennt við Óla Val Hansson garðyrkjuráðanaut sem kom með umræddan myrtuvíði hingað til lands frá Noregi. Heimkynni: N-Evrópa.