Hengigullregn ‘Pendula’ – Laburnum alpinum ‘Pendula’
Ágrætt, lágvaxið skrautré. Hæð um 2 m. Gulir blómklasar miðsumars. Greinum fjölgar með tímanum sem allar vaxa niður á við og niður á jörð. Gjarnan eru greinar snyrtar þegar þær eru komnar niður að jörð. Klippið einungis að sumri til. Ef greinar vaxa upp eða út frá stofni neðan við ágræðsluna sem er efst þarf að klippa þær í burt annars er hætt við að þær taki yfir og hengiútlitið hverfi. Sólelskt. Gerir litlar kröfur til jarðvegs en hentar ekki í blautan jarðveg. Niturbindandi. Hengigullregn fer vel stakstætt, innan um lægri gróður, framan við hús og í ker.
Vörunr.
3dd8b54eb027
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Fjallareynir – Sorbus commixta
Harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré (3 - 6 m). Laufin stakfjöðruð. Smáblöðin 11 - 17 talsins, hvassydd. Áberandi eldrauðir haustlitir. Brum rauð og hárlaus. Hvítir blómsveipir fyrri part sumars. Rauðgul, fremur smá reyniber í klösum þroskast að hausti. Fjallareynir er glæsilegur stakur eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Kjörinn í sumarhúsalóðir. Fjallareynir er talsvert breytilegur enda fjölgar hann sér með kynæxlun og getur t.d. myndað kynblendinga með ilmreyni (S. aucuparia). Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst einnig vel í lúpínubreiðum. Allur fjallareynirinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Japan, Kína, Kórea og Sakalín.
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.
Blóðheggur ‘Colorata’ – Prunus padus ‘Colorata’
Lágvaxið, fremur harðgert tré (4 - 8 m). Stundum runni. Laufið purpurarautt / vínrautt á vorin og fyrri part sumars. Eldra lauf grænna þegar líður á sumarið. Laufgast strax og fer að hlýna í maí. Ljósrauðir - gulir haustlitir í september. Blómin bleik í klösum í lok maí - júní. Einstaka sinnum þroskast svört ber (steinaldin) á haustin. Oftast aflagast þó aldinin af völdum heggvendils (Taphrina padi). Sprotar nær svartir. Ljóselskur en þolir hálfskugga. Í skugga verður blóðheggur grænni en ella. Blóðheggur þrífst í öllum sæmilega frjóum og framræstum jarðvegi. Laufið getur farið illa af völdum lirfa og blaðlúsar í júní en blóðheggurinn laufgast þá upp á nýtt ef því er að skipta. Hentar stakstæður eða í bland með öðrum gróðri. 'Colorata' er sænskt yrki. Fundið í Smálöndum árið 1953. Fremur algengur í ræktun hérlendis.
Stafafura – Pinus contorta
Mjög harðgert, hraðvaxta, meðalstórt - stórvaxið sígrænt tré. Hæð 7 - 15 m. Getur orðið enn hærri á góðum stöðum. Sérstaklega á það við um undirtegundina P. contorta ssp. latifolia (meginlandsundirtegundin). Stafafura getur orðið talsvert breið hafi hún nóg pláss. Börkurinn er fremur þunnur og grábrúnn á litinn. Brumin eru rauðbrún og frekar mjó samanborið við berg- (P. uncinata) og fjallafuru (P. mugo). Nálarnar eru fagurgrænar, venjulega tvær saman í knippi. Þær eru 4 - 8 sm á lengd og 0,9 - 2 mm á breidd. Þroskar 3 - sm langa, kanelbrúna köngla strax á unga aldri. Könglarnir eru á annað ár að ná fullum þroska. Karlblómin birtast á vorin eða fyrri part sumars. Þau raða sér þétt á sprotana og eru í fyrst rauðbleik en síðan ryðbrún og falla síðan af þegar líður á sumarið.
Þrífst víðast hvar á landinu. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelsk. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Algengasta furan hérlendis. Vinsælasta íslenska jólatréið. Myndar svepprót með furusvepp (Suillus luteus) sem er ágætis matsveppur.
Stafafura hentar stakstæð en einnig í raðir, þyrpingar og til skógræktar sérstaklega á rýru landi. Varpar ekki eins miklum skugga og greni. Millibil ekki minna en 3 m. Gjarnan 2 m í skógrækt til að forðast miklar hliðargreinar. Tré sem hafa rými verða gjarnan mjög greinamikil og breið. Skýlið alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög berangurslegum stöðum. Barr roðnar gjarnan eftir mikla saltákomu af hafi.
Öll stafafuran okkar er vaxin upp af íslensku fræi. Við framleiðum aðallega stafafuru af Skagway (Alaska) uppruna. Sú fura er fagurgræn allan veturinn en gulnar ekki eins og stafafura af meginlandsundirtegundinni, latifolia, gerir gjarnan. Stafafura er ágætis timburtré. Talsvert nýtt sem eldiviður og í kurl í stíga og beð. Stafafura er vinsælasta íslenska jólatréið. Einnig eru greinar hennar nýttar til skreytinga enda er stafafura barrheldin og ilmar talsvert.
Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Þallarætt (Pinaceae).
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.
Broddhlynur rauður /“Purpurahlynur“ – Acer platanoides f. purpurea
Sæmilega harðgert tré. Hæð 5 - 6 m eða meira hérlendis. Hætt við haustkali. Blöðin eru dökkpurpurarauð og þunn. Laufgast í byrjun júní. Haustlitur skærrauður - rauðgulur. Blómgast stundum fyrri part sumars ljósgulum blómum í sveipum. Stundum myndast aldin sem eru vængjaðar hnotir tvær og tvær saman nánast í beinni línu en mynda ekki horn eins og aldin garðahlyns (A. pseudoplatanus). Þarf frjóan, vel framræstan, ekki súran jarðveg. Sólelskur en getur staðið í hálfskugga. Hentar í grónar lóðir þar sem vaxtartími er ekki of stuttur. Millibil alla vega 2 m. Broddhlynirnir okkar eru af fræi og því ekki sérstök yrki.
Bergfura – Pinus uncinata
Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Könglar eru tvílitir, dekkri á jöðrum köngulhreisturs og minna á köngla fjallafuru en eru enn ljósari (sjá mynd). Bergfurukönglar eru kúptir að neðan en ekki sléttir eins og könglar fjallafuru. Könglar stafafuru eru aftur á móti einlitir, kanelbrúnir. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta. Heimkynni: Pýreneafjöll og V-Alparnir. Háfjallategund sem vex þar aðallega í 1000 - 2300 m.h.y.s. Finnst einnig lægra í frostpollum og barnamosamýrum. Þar sem útbreiðslusvæði berg- og fjallafuru skarast myndast gjarnan blendingar (Pinus x rotundata). Þessi blendingur virðist algengur hérlendis sem lýsir sér í fremur lágvöxnum, margstofna trjám eða stórum runnum upp á 4 - 7 m. Bergfura er stundum skilgreind sem undirtegund fjallafuru, Pinus mugo subsp. uncinata.
Hjartatré – Cercidiphyllum japonicum
Fremur lítið tré hérlendis (3 - 6 m). Stundum runni. Þarf skjólgóðan og sólríkan stað til að þrífast. Þrífst í venjulegri garðmold. Laufið hjartalaga og rauðleitt fyrst á vorin og á vaxandi sprotum. Haustlitir bleikir. Karamelluilm leggur af laufinu á haustin. Blóm ekki áberandi og sjást sjaldan hérlendis. Sérbýlt. Þolir hálfskugga. Heppilegt og fallegt garðtré í skjólgóðum hverfum. Hætt við haustkali. Heimkynni: Kína og Japan.