Hengigullregn ‘Pendula’ – Laburnum alpinum ‘Pendula’
Ágrætt, lágvaxið skrautré. Hæð um 2 m. Gulir blómklasar miðsumars. Greinum fjölgar með tímanum sem allar vaxa niður á við og niður á jörð. Gjarnan eru greinar snyrtar þegar þær eru komnar niður að jörð. Klippið einungis að sumri til. Ef greinar vaxa upp eða út frá stofni neðan við ágræðsluna sem er efst þarf að klippa þær í burt annars er hætt við að þær taki yfir og hengiútlitið hverfi. Eins og annað gullregn er hengigullregn eitrað sé þess neytt.
Sólelskt. Gerir litlar kröfur til jarðvegs en hentar ekki í blautan jarðveg. Niturbindandi. Vissara er að binda upp hengigullregn eftir gróðursetningu. Eftir eitt til tvö ár má fjarlægja uppbindinguna. Annars er hengigullregn fremur harðgert en vissara er að velja því þokkalega skjólgóðan vaxtarstað. Hengigullregn fer vel stakstætt, innan um lægri gróður, framan við hús og í ker.
Yrki þetta er upprunið í Englandi. Ertublómaætt (Fabaceae).