Hindber – Rubus idaeus
Skriðull hálfrunni. Hæð 1 – 2 m. Greinar ná tveggja ára aldri. Fyrra árið vex grein upp frá jörðu í fulla hæð. Seinna árið blómgast hún og þroskar ber. Síðan er hún dauð. Klippið í burt dauðar greinar. Gróðursetjið í afmarkað rými til að forðast rótarskot um alla lóð. Tilvalið er að setja niður þil svona 40 sm niður í jarðveginn til að forðast dreifingu rótarskota. Einnig má rækta hindber í ílátum en þau þurfa frjóan og rakaheldinn jarðveg til að þroska ber. Setjið staðið hrossatað eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Villihindber henta til gróðursetningar í lúpínubreiður og skógarrjóður. Berin á villihindberjum eru smá en bragðgóð. Þau skríða mest út. Úrvalsyrki eins og ‘Borgund’ hafa stærri ber og skríða ekki eins mikið út. Hindberjarunnar þola hálfskugga en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Yrki með stærri berjum henta betur til ræktunar í heimilisgörðum samanborið við villihindber.