Hjallalyngrós – Rhododendron hirsutum
Lágvaxinn, sígrænn runni, fínlegur runni. Hæð um 50 sm. Stundum hávaxnari. Laufin fremur smá, 1 – 3 sm á lengd og allt að 1,5 sm á breidd, oddbaugótt – öfugegglaga með áberandi hærðum jöðrum. Blöð heilrennd eða smátennt. Efra borð blaða hárlaust, gljáandi ljósgrænt. Blómin bleik, ilmandi, nokkur saman í endastæðum klösum. Hvert og eitt blóm klukkulaga – trektlaga um 1,5 sm á lengd og breidd. Blómgast seinni part júní en aðallega í júlí.
Vex ólíkt flestum lyngrósum í kalkríkum jarðvegi í sínum heimkynnum. Þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi í sæmilegu skjóli. Hérlendis þrífst hún vel í mómold. Varist að gróðursetja of djúpt. Farið valega í áburðargjöf. Nóg er að bera á sem nemur einni slétt fullri teskeið af blákorni eða álíka áburði í maí í kringum hverja plöntu. Smá lag af hrossataði eða moltu ofan á beðið gæti komið í staðin. Þolir vel hálfskugga. Hjallalyngrós fer vel í hleðslum, steinhæðum og fremst í runna- og fjölæringabeðum. Ein allra harðgerðasta lyngrósin sem völ er á. Eins og aðrar lyngrósir er hún eitruð sé hennar neytt.
Hjallalyngrós líkist urðalyngrós (R. ferrugineum) sem einnig vex í Alpafjöllunum en ólíkt hjallalyngrósinni vex á súru bergi. Helsta einkennið sem greinir þær í sundur er að neðra borða blaða á urðalyngrós er ryðbrúnt. Hjalla- og urðalyngrós mynda blendinga, R. x intermedium, í náttúrunni þar sem þær mætast. Blendingar eru í útliti og kröfum til sýrustigs jarðvegs mitt á milli foreldrategundanna.
Heimkynni: Aðallega í austanverðum Alpafjöllunum á kalkbergsvæðum. Vex þar í 600 – 2.500 m.h.y.s. Finnst einnig í Karpatafjöllum. Lyngætt (Ericaceae).