Hlíðaramall / Hunangsviður – Amelanchier alnifolia
Harðgerður lágvaxinn – meðalstór runni (1 – 2 m). Laufið blágrænt. Haustlitur gulur – rauðgulur. Blómin hvít í klösum snemmsumars. Berin fyrst græn, svo fjólublá og loks svarblá fullþroska. Æt og bragðgóð hrá eða í sultur, bökur, þurrkuð og s.frv. Fuglar sækja mjög í berin. Fremur hægvaxta. Hlíðaramall þrífst í allri venjulegri garðmold. Þolir hálfskugga en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Hentar í raðir, þyrpingar og blönduð beð með öðrum runnum og blómjurtum. Millibil um 1 m. Hentar einnig í villigarða og sumarhúsalóðir. Stundum ber á rótarskotum. Hlíðaramallinn okkar er allur af íslensku fræi. Ein móðurplantan er af fræi frá Skagway, Alaska. Heimkynni: N-Ameríka, vestanverð.
Vörunr.
d79394c72df0
Vöruflokkar: Ávaxtatré og berjarunnar, Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Svartyllir ‘Black Lace’ – Sambucus nigra ‘Black Lace’
Frekar viðkvæmur runni. Hæð: 1,5 - 3,0 m. Laufið tvífjaðrað, dökk-purpurarautt. Blómin ljósbleik í sveip síðsumars. Þroskar ekki aldin hérlendis. Þrífst best í sól en þolir hálfskugga. Verður yfirleitt fyrir haustkali. Þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Hentar aftarlega í blönduð beð innan um ljósari gróður. Einnig sem stakstæður. Millibil um 1 m eða meir.
Skógarkvistur / Kóreukvistur ‘Finndís’ – Spiraea miyabei ‘Finndís’
Harðgerður, fremur lágvaxinn (0,5 - 0,8), þéttur runni. Stórir bleikir blómsveipir birtast síðsumars (ágúst - september) 'Finndís' blómstrar á enda árssprotans. Rauðgulir haustlitir. Þrífst vel í sæmilega frjórri, ekki of blautri garðmold. Skógarkvistur 'Finndís' hentar í ker, blönduð beð, raðir og þyrpingar. Millibil um 80 sm. Sólelskur en þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa skógarkvistinn niður um alla vega helming seinni part vetrar. Kenndur við Finndísi, Dilksnesi, Höfn. Ekki er óhugsandi að hér sé í raun um yrki af japanskvist (Spiraea japonica) að ræða. Vinsæll og talsvert útbreiddur skrautrunni hérlendis.
Demantsvíðir ‘Flesja’ – S. pulchra ‘Flesja’
Harðgerður, alveg jarðlægur runni. Litlir gráloðnir reklar birtast seinni part vetrar. Laufið ljósgrænt, heilrennt og gljáandi. Axlablöð áberandi. Gulir haustlitir í september - október. Visin lauf sitja gjarnan á greinunum fram á vetur.
Hentar í hleðslur, kanta, ker o.þ.h. Sólelskur. Hentar því ekki sem undirgróður. Nægjusamur hvað varðar jarðveg. Úrvalsyrki úr Alaskaferð Óla Vals og félaga 1985.
Heimkynni tegundarinnar eru auk Alaska í Kanada og Rússlandi. Víðisætt (Salicaceae).
Mánaklungur – Rubus parviflorus
All harðgerður, meðalhár runni (1 - 2 m). Blöðin stór, flipótt. Blómin hvít, með 5 krónublöðum og gulum fræflum. Aldinið rautt, ætt ber, ekki ósvipað hindberi um 1 sm í þvermál.
Þolir vel hálfskugga. Þrífst í venjulegri garðmold. Dreifir sér með rótarskotum. Hentar sem þekjandi planta undir trjám og þess háttar. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka.
Garðakvistill ‘Luteus’ – Physocarpus opulifolius ‘Luteus’
Meðalstór, þokkalega harðgerður runni. Hæð um 1,5 m. Laufið áberandi gulgrænt. Nývöxtur koparlitur. Rauðbleikir haustlitir. Hvítir blómsveipir upp úr miðju sumri. Fræbelgir, uppblásnir, rauðleitir í fyrstu. Þolir hálfskugga. Þrífst í venjulegri garðmold. Börkur flagnar með tímanum af í strimlum. Kelur stundum mikið. Hentar í blönduð beð með runnum og fjölæringum í þokkalegu skjóli. Millibil um 80 - 90 sm.
Sýrena ‘Villa Nova’ – Syringa ‘Villa Nova’
Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Blómin fjólubleik, mörg saman í stórum klasa, ilmandi. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Ein allra besta sýrenan. Fer vel stakstæð, aftarlega í blönduðum runna- og blómabeðum eða fleiri saman í þyrpingum eða röðum. Millibil 2 m. Ekki er nákvæmlega vitað um uppruna þessa yrkis. Sýrenan mun vera kennd við Vilhjálm Sigtryggsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Hélurifs ‘Lukka’ – Ribes laxiflorum ‘Lukka’
Harðgerður, lágvaxinn (30 - 50 sm), jarðlægur runni. Laufið handflipótt. Laufgast í apríl. Rauðir haustlitir birtast strax í ágúst. Rauðbrún blóm í klasa í maí. Blá, héluð, , hærð, æt ber þroskast í lok júlí eða í ágúst. Má nýta í sultu og fleira.
Hélurifs 'Lukka' þrífst í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Skuggþolið en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Hentar sem undirgróður undir trjám, í kanta, jaðra og þess háttar. Nóg er að planta 1 - 2 plöntum á fermetra. 'Lukka' er úrvalsyrki úr Lystigarði Akureyrar. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).