Hnjúkarifs / Jöklarifs- Ribes glaciale
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni. Sprotar og blaðstilkar áberandi rauðir. Haustlitur rauðgulur. Minnir annars á fjallarifs (Ribes alpinum). Börkur flagnar af í rauðbrúnum næfrum. Hentar í limgerði, klippt eða óklippt. Þolir vel hálfskugga.
Vörunr. 39bd27fcb8c9
Vöruflokkar: Plöntur í limgerði/hekk, Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Svartyllir – Sambucus nigra
All harðgerður runni. Hæð: 2 - 4 m. Grófgreinóttur. Brum gagnstæð. Blöðin stakfjöðruð, græn. Blómin hvít, mörg saman í stórum sveipum síðsumars (ágúst). Berin svört fullþroskuð en svartyllir dregur nafn sitt af liti berjanna. Svartyllir nær ekki að þroska ber utandyra hérlendis. Blómin má nýta í svaladrykk. Skuggþolinn en blómgast betur í sól. Þrífst vel í venjulegri, ekki of þurri garðmold. Þrífst vel í grónum görðum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Millibil: 1 m eða meir. Í seinni tíð hafa komið fram yrki af svartylli með rauðbrúnum/purpurarauðum laufum og bleikum blómum eins og 'Black Lace' og 'Black Tower'. Okkur í Þöll hefur tekist að láta íslenskt fræ spíra þrátt fyrir að berin séu ekki fullþroska. Fræið er að runnum við íþróttahúsið Strandgötu, Hfj og úr garði á Flötunum, Gbæ. Tvö yrki hafa verið valin úr fræplöntunum. Annað er 'Amma Dóra' og hitt 'Afi Tóti'. Yrkin eru kennd við hjónin Halldóru Halldórsdóttur og Þórólf Halldórsson sem eru fædd árið 1928 og hafa verið dyggir styrktaraðilar Skógræktarfélags Hfj í gegnum tíðina ásamt því að vera foreldrar Árna, Gunnars og Halldórs sem allir hafa unnið mikið fyrir félagið og Þöll.
Hafþyrnir – Hippophae rhamnoides
Harðgerður, lágvaxinn - hávaxinn runni (1 - 3 m). Laufið grásilfrað. Blómin smá og lítið árberandi. Sérbýll. Kvenplöntur þroska æt ber séu karlplöntur í nágrenninu. Berin hanga á runnunum langt fram á vetur þar sem fuglar virðast lítið sækja í þau. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur sem gerir honum kleift að vaxa í rýrum jarðvegi. Hafþyrnir hefur mjög skriðullt og kröftugt rótarkerfi. Berin eru nýtt í sultur og þess háttar og eru sögð mjög holl. Hentar sérlega vel við sjávarsíðuna, til að binda sendinn og malarborinn jarðveg og þess háttar. Rótarskot geta verið til ama t.d. nálægt gangstéttum og þess háttar. Fer jafnvel í gegnum malbik!
Svartyllir ‘Black Lace’ – Sambucus nigra ‘Black Lace’
Frekar viðkvæmur runni. Hæð: 1,5 - 3,0 m. Laufið tvífjaðrað, dökk-purpurarautt. Blómin ljósbleik í sveip síðsumars. Þroskar ekki aldin hérlendis. Þrífst best í sól en þolir hálfskugga. Verður yfirleitt fyrir haustkali. Þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Hentar aftarlega í blönduð beð innan um ljósari gróður. Einnig sem stakstæður. Millibil um 1 m eða meir.
Bjarkeyjarkvistur – Spiraea chamaedryfolia
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 m). Laufið matt, óreglulega tennt. greinar ljósbrúnar, áberandi hlykkjóttar. Blómin hvít í sveip. Fræflar skaga upp fyrir krónublöðin. Blómgast miðsumars eða fyrir mitt sumar í lok júní og fram í júlí. Gulir og rauðir haustlitir. Bjarkeyjarkvistur hefur aðeins skriðullt rótarkerfi. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í runnaþyrpingar, raðir og undir stórum trjám. Millibil um 80 sm.
Skógarkvistur / Kóreukvistur ‘Finndís’ – Spiraea miyabei ‘Finndís’
Harðgerður, fremur lágvaxinn (0,5 - 0,8), þéttur runni. Stórir bleikir blómsveipir birtast síðsumars (ágúst - september). Rauðgulir haustlitir. Líkist japanskvist (Spiraea japonica). Skógarkvistur 'Finndís' hentar í ker, blönduð beð, raðir og þyrpingar. Blómgast á árssprotann. Best fer á því að klippa skógarkvistinn niður um alla vega helming seinni part vetrar. Kenndur við Finndísi, Dilksnesi, Höfn.
Bogsýrena – S. komarowii ssp. reflexa ‘Hólmfríður’
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 4 m). Blómin fyrst lillableik en síðan bleik í drjúpandi klösum, ilmandi. Blómgast miðsumars (júlí). Móðurtréið stendur í garðinum að Skúlaskeiði 32, Hafnarfirði þar sem Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson bjuggu lengst af. Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar ehf.