Hnjúkarifs / Jöklarifs- Ribes glaciale
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni. Sprotar og blaðstilkar áberandi rauðir. Haustlitur rauðgulur. Minnir annars á fjallarifs (Ribes alpinum). Börkur flagnar af í rauðbrúnum næfrum. Hentar í limgerði, klippt eða óklippt. Þolir vel hálfskugga.
Vörunr.
39bd27fcb8c9
Vöruflokkar: Plöntur í limgerði/hekk, Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Mánaklungur – Rubus parviflorus
All harðgerður, meðalhár runni (1 - 2 m). Blöðin stór, flipótt. Blómin hvít, með 5 krónublöðum og gulum fræflum. Aldinið rautt, ætt ber, ekki ósvipað hindberi um 1 sm í þvermál.
Þolir vel hálfskugga. Þrífst í venjulegri garðmold. Dreifir sér með rótarskotum. Hentar sem þekjandi planta undir trjám og þess háttar. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka.
Bogsýrena – S. komarowii ssp. reflexa ‘Hólmfríður’
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 4 m). Blómin fyrst lillableik en síðan bleik í drjúpandi klösum, ilmandi. Blómgast miðsumars (júlí). Móðurtréið stendur í garðinum að Skúlaskeiði 32, Hafnarfirði þar sem Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson bjuggu lengst af. Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar ehf.
Hafþyrnir – Hippophae rhamnoides
Harðgerður, þyrnóttur, lauffellandi, lágvaxinn - hávaxinn runni (1 - 3 m). Laufið lensulaga og grásilfrað. Blómin smá og lítið árberandi. Sérbýll. Kvenplöntur þroska rauðgul, æt ber séu karlplöntur í nágrenninu. Ein karlplanta dugar til að fræva nokkrar kvenplöntur. Vindfrævun. Berin hanga á runnunum langt fram á vetur þar sem fuglar virðast lítið sækja í þau. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur (Frankia) sem gerir honum kleift að vaxa í rýrum jarðvegi. Hafþyrnir hefur mjög skriðullt og kröftugt rótarkerfi.
Berin eru nýtt í sultur og þess háttar og eru sögð mjög holl og eru t.d. mjög C-vítamínrík. Laufið má nýta í te. Hentar sérlega vel við sjávarsíðuna, til að binda sendinn og malarborinn jarðveg og þess háttar. Þrífst í alls konar jarðvegi en þó ekki blautum. Hafþyrnir hentar í runnaþyrpingar og raðir t.d. á vindasömum stöðum og í villigarða og sumarhúsalóðir. Millibil við gróðursetningu um 1 m. Rótarskot geta verið til ama t.d. nálægt gangstéttum og þess háttar. Fer jafnvel í gegnum malbik!
Við höfum verið að prófa okkur áfram með mismunandi yrki og stofna. Finnsku yrkin 'Tytti' (kvk), 'Terhi' (kvk), 'Rudolf' (kk) og 'Tarmo' (kk), fást gjarnan hjá okkur og hafa reynst vel. Einnig eigum við stundum til kvk og kk yrki úr Hallargarðinum, Rvk. Höfum einnig framleitt og boðið upp á íslenskar fræplöntur af hafþyrni.
Heimkynni: Kaldtempruð svæði Evrasíu. Í heimkynnum sínum vex hafþyrnir aðallega með ströndum fram og til fjalla. Silfurblaðsætt (Elaeagnaceae)
Loðvíðir – Salix lanata – jarðlægur
Mjög harðgerður, íslenskur, lágvaxinn/jarðlægur runni. Lauf og sprotar eru gráloðin. Karlreklar eru fallega gulir og birtast í apríl - maí. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Vex villtur um land allt. Loðvíðir hentar í hleðslur, kanta, steinhæðir, ker og þess háttar. Jarðlægi loðvíðirinn okkar er karlkyns og seldur í stykkjatali í pottum.
Bjarkeyjarkvistur – Spiraea chamaedryfolia
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 m). Laufið matt, óreglulega tennt. greinar ljósbrúnar, áberandi hlykkjóttar. Blómin hvít í sveip. Fræflar skaga upp fyrir krónublöðin. Blómgast miðsumars eða fyrir mitt sumar í lok júní og fram í júlí. Gulir og rauðir haustlitir. Bjarkeyjarkvistur hefur aðeins skriðullt rótarkerfi. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í runnaþyrpingar, raðir og undir stórum trjám. Millibil um 80 sm.
Sýrena ‘Villa Nova’ – Syringa ‘Villa Nova’
Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Blómin fjólubleik, mörg saman í stórum klasa, ilmandi. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Ein allra besta sýrenan. Fer vel stakstæð, aftarlega í blönduðum runna- og blómabeðum eða fleiri saman í þyrpingum eða röðum. Millibil 2 m. Ekki er nákvæmlega vitað um uppruna þessa yrkis. Sýrenan mun vera kennd við Vilhjálm Sigtryggsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.