Hreiðurgreni / Sátugreni – Picea abies ‘Nidiformis’
Lágvaxinn, flatvaxinn, sígrænn, þéttur runni. Hæð um 50 sm. Breidd allt að 100 sm. Hægvaxta. Myndar engan topp. Barrið smágert, ljósgrænt – gulgrænt. Skjólþurfi og skuggþolið. Hentar í beð með sígrænum gróðri, sem undirgróður, ker í skjóli og hleðslur. Þrífst í allri venjulegri garðmold.
Vörunr.
7435c083ea67
Vöruflokkar: Sígrænir runnar og sígræn smátré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Bersarunni – Viburnum edule
Harðgerður, meðalhár, sumargrænn runni (1,5 - 2,5 m). Laufin sitja gagnstætt á greinunum og eru gjarnan þrí-sepótt. Óreglulega tennt. Brum áberandi rauð. Rauðir og bleikir haustlitir. Blómin hvít - bleik í litlum sveipum. Rauðgul, æt ber (steinaldin) þroskast að hausti. Hægvaxta eða í meðallagi hraðvaxta.
Skuggþolinn en fallegastir haustlitir og mest berjauppskera í fullri sól. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Bersarunni fer vel í blönduðum runnabeðum, röðum og þyrpingum. Millibil um 80 sm. Berin má nýta í sultur og þess háttar. Þau eru sögð rík af andoxunarefnum. Okkar bersarunnar eru allir vaxnir upp af fræi sem tínt er hérlendis. Íslenski efniviðurinn af bersarunna er trúlega allur frá Alaska. Heimkynni: Norðanverð N-Ameríka. Desjurtaætt (Adoxaceae).
Alaskaepli – Malus fusca
Harðgert, fremur hægvaxta, lágvaxið tré eða runni (3 - 6 m). Laufin eru 5 - 8 sm á lengd egglaga eða sporöskjulaga. Óreglulega flipótt og sagtennt. Blómin hvít, ilmandi í sveipum fyrri part sumars. Aldinið lítið gulgrænt - rauðleitt, ætt epli á stærð við vínber. Þroskar yfirleitt aldin á hverju ári. Rauðir haustlitir. Þolir vel klippingu. Stundum ber á rótarskotum. Þrífst í allri venjulegri, rakaheldinni garðmold. Blandið moltu eða gömlum búfjáráburði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Alaskaepli fer vel stakstætt eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Alaskaepli hentar vel í klippt limgerði. Í limgerði er hæfilegt millibil um 70 sm. Greinar alaskaeplis eru harðar/stífar og dvergsprotar áberandi hvassir. Alaskaepli er harðgerðasta skrauteplið fyrir íslenskar aðstæður sem völ er á. Við framleiðum eingöngu alaskaepli af íslensku fræi. Aldin alaskaeplis má nýta í sultu- og hlaupgerð en þau eru rík af pektíni. Ekki er ósennilegt að alaskaepli nýtist sem frjógjafi fyrir matarepli (M. domestica) en erlendis er það þekkt að þar sem þessar tegundir vaxa saman mynda þær stundum blendinga (M. x dawsoniana). Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex það gjarnan í deiglendi og nálægt ströndinni.
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.
Birkikvistur – Spiraea betulifolia
Mjög harðgerður, fremur lágvaxinn (1 m), þéttur runni. Blómin hvít í sveipum miðsumars. Rauðir haustlitir. Þolir hálfskugga. Vind- og saltþolinn. Hentar í potta, raðir og þyrpingar. Þolir vel klippingu. Klipptir birkikvistar blómstra minna en ella. Bil milli plantna ætti ekki að vera minna en 60 sm. Mjög algengur og vinsæll hérlendis. Þetta yrki gengur undir heitunum 'Birkikvistur', 'Ísland' og 'Island' og er fáanlegt víða í Evrópu.
Hafþyrnir – Hippophae rhamnoides
Harðgerður, þyrnóttur, lauffellandi, lágvaxinn - hávaxinn runni (1 - 3 m). Laufið lensulaga og grásilfrað. Blómin smá og lítið árberandi. Sérbýll. Kvenplöntur þroska rauðgul, æt ber séu karlplöntur í nágrenninu. Ein karlplanta dugar til að fræva nokkrar kvenplöntur. Vindfrævun. Berin hanga á runnunum langt fram á vetur þar sem fuglar virðast lítið sækja í þau. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur (Frankia) sem gerir honum kleift að vaxa í rýrum jarðvegi. Hafþyrnir hefur mjög skriðullt og kröftugt rótarkerfi.
Berin eru nýtt í sultur og þess háttar og eru sögð mjög holl og eru t.d. mjög C-vítamínrík. Laufið má nýta í te. Hentar sérlega vel við sjávarsíðuna, til að binda sendinn og malarborinn jarðveg og þess háttar. Þrífst í alls konar jarðvegi en þó ekki blautum. Hafþyrnir hentar í runnaþyrpingar og raðir t.d. á vindasömum stöðum og í villigarða og sumarhúsalóðir. Millibil við gróðursetningu um 1 m. Rótarskot geta verið til ama t.d. nálægt gangstéttum og þess háttar. Fer jafnvel í gegnum malbik!
Við höfum verið að prófa okkur áfram með mismunandi yrki og stofna. Finnsku yrkin 'Tytti' (kvk), 'Terhi' (kvk), 'Rudolf' (kk) og 'Tarmo' (kk), fást gjarnan hjá okkur og hafa reynst vel. Einnig eigum við stundum til kvk og kk yrki úr Hallargarðinum, Rvk. Höfum einnig framleitt og boðið upp á íslenskar fræplöntur af hafþyrni.
Heimkynni: Kaldtempruð svæði Evrasíu. Í heimkynnum sínum vex hafþyrnir aðallega með ströndum fram og til fjalla. Silfurblaðsætt (Elaeagnaceae)
Blóðbeyki – Fagus sylvatica ‘Purpurea’
Sæmilega harðgert, þétt, fremur hægvaxta tré. Hæstu blóðbeyki hérlendis eru hátt í 9 m há. Getur sjálfsagt náð 12 m á hæð eða meir á bestu stöðum. Laufin áberandi purpurarauð/vínrauð. Dökkgræn/blágræn í skugga. Laufgast um mánaðarmótin maí/júní. Laufin sitja visin, ljósbrún á greinum yngri trjáa og á neðstu greinum á eldri trjám allan veturinn. Sólelskt. Almennt heilbrigt.
Blóðbeyki þarf sæmilega djúpan, frjóan og vel framræstan jarðveg. Hentar aðeins til ræktunar í sæmilega grónum hverfum og í skógarskjóla ekki of langt inn til landsins. Aðallega gróðursett stakstætt. Millibil 3 m eða meir. Blóðbeyki er stökkbreyting af venjulegu beyki (F. sylvatica) sem hefur óvenju mikið af "anthocyanin" litarefni. Blóðbeyki er fyrst talið hafa fundist í skógi við bæinn Sondershausen í Thuringia í Þýskalandi árið 1690. Talið er að stærstur hluti blóðbeykitrjáa í dag reki uppruna sinn til þessa trés. Beykiætt (Fagaceae).
Flosvíðir – Salix × dasyclados
Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Laufið lensulaga. Minnir á körfuvíði (Salix viminalis) en grófgerðari. Sprotar áberandi loðnir. Karlkynsklónn með fallegum silfurloðnum reklum strax í febrúar/mars með bleikum blæ. Gulir frjóhnappar birtast í mars / apríl. Þrífst best í frjóum, rökum jarðvegi t.d. við læki og tjarnir. Einnig góður í runnaþyrpingar og jafnvel skjólbelti. Fallegastur sé hann klipptur / sagaður niður reglulega.