Hrossakastanía – Aesculus hippocastanum
Fremur viðkvæmt tré. Laufblöðin eru sérlega stór, samsett. Brum stór. Blómin eru hvít í uppréttum klösum. Aldinið þyrnótt kúla með stórri „hnetu“ innan í. Hrossakastanía er tiltölulega sjaldgæf hérlendis. Í Reykjavík er til yfir 10 m hátt eintak. Hrossakastanía hefur blómstrað hérlendis en ekki þroskað aldin svo vitað sé.
Hrossakastanía þrífs eingöngu á hlýjum og skjólgóðum stöðum í djúpum og frjóum jarðvegi. Ættuð úr fjalllendi á Balkanskaga en algeng í ræktun í Evrópu og víðar.
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Sumareik – Quercus robur
Sumargrænt tré. Óvíst er hversu há sumareikin getur orðið hérlendis en sjálfsagt mun hún vaxa upp fyrir 12 m hæð með tímanum á góðum vaxtarstöðum. Gulir haustlitir. Visin lauf sitja gjarnan á ungum trjám fram á vor. Þarf nokkurt skjól í uppvextinum. Þolir hálfskugga. Þrífst best í þokkalega frjóum jarðvegi. Má vera grýttur. Gott er að stýra vexti með klippingu annars vilja sumar eikur verða runnavaxnar. Almennt talið harðgerðasta eikin hérlendis og sú sem mesta hefur verið gróðursett. Samt er sumareik ennþá fremur sjaldgæf í ræktun. Sumareik hentar helst stakstæð í grónum görðum og í rjóður í skógarreitum og sumarhúsalóðum. Þrífst ekki á köldum og vindasömum stöðum. Sumareik laufgast seint eða ekki fyrr en um miðjan júní.
Kínareynir ‘Bjartur’ – Sorbus vilmorinii ‘Bjartur’
Lítið tré eða stór runni (3 - 5 m). Virðist harðgerður. Vaxinn upp af fræi sem Ólafur Njálsson í Nátthaga, Ölfusi safnaði af reynirunna í N-Wales haustið 1989. 'Bjartur' var valinn til áframhaldandi ræktunar af þeim 5 plöntum sem komu upp. Virðist fræekta (apomixis). Hvítir blómsveipir birtast snemmsumars. Bleik ber þroskast á haustin. Rauðir haustlitir. Berin hanga á trjánum fram á vetur þar sem fuglar eru ekki sólgnir í þau. Þolir hálfskugga. Óvíst er hvort að um ekta kínareyni sé að ræða. 'Bjartur' hentar sem garðtré í t.d. litla garða. Þrífst í venjulegri, vel framræstri garðmold sem gjarnan má vera sand- og/eða malarborin.
Heggur ‘Laila’ – Prunus padus ssp. borealis ‘Laila’
Harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð 5 - 8 m. Blómin hvít, ilmandi í uppréttum klösum fyrri part sumars. Stundum sjást svört steinaldin/ber á haustin. Gulir haustlitir. Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Heggur 'Laila' hentar stakstæður, í trjá- og runnaþyrpingar og í sumarhúsalóðina. Millibil: 2 - 3 m. 'Laila' er sænskt, blómsælt úrvalsyrki ættað frá Kukkola við Torne-ánna í N-Svíþjóð.
Hjartatré – Cercidiphyllum japonicum
Fremur lítið tré hérlendis (3 - 6 m). Stundum runni. Þarf skjólgóðan og sólríkan stað til að þrífast. Þrífst í venjulegri garðmold. Laufið hjartalaga og rauðleitt fyrst á vorin og á vaxandi sprotum. Haustlitir bleikir. Karamelluilm leggur af laufinu á haustin. Blóm ekki áberandi og sjást sjaldan hérlendis. Sérbýlt. Þolir hálfskugga. Heppilegt og fallegt garðtré í skjólgóðum hverfum. Hætt við haustkali. Heimkynni: Kína og Japan.
Súlueik – Quercus robur ‘Fastigiata’
Fremur viðkvæmt tré hérlendis. Krónan mjóslegin. Laufgast upp úr miðjum júní. Frýs yfirleitt græn en stundum sjást gulir/gulbrúnir haustlitir. Fremur hægvaxta. Þrífst eingöngu í grónum görðum þar sem er skjólsælt. Sólelsk en þolir hálfskugga. Jarðvegurinn þarf að vera frjór og rakaheldinn. Óvíst er hversu hávaxin súleikin getur orðið hérlendis en reikna má með 6 - 7 m á allra bestu stöðum á löngum tíma.
Lensuvíðir ‘Ljómi’ – Salix lasiandra ‘Ljómi’
All harðgerður stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 5 m). Laufið áberandi glansandi. Gulir haustlitir. Reklarnir eru ekki sérstaklega áberandi. Minnir í útliti nokkuð á bambus. Sólelskur. Hentar stakstæður, í raðir, þyrpingar, í bland með öðrum gróðri og í klippt limgerði. Fremur hraðvaxta. Karlkyns yrki valið úr efnivið úr Alaska-leiðangi Óla Vals Hanssonar og félaga árið 1985.
Heggur – Prunus padus
Harðgert, lágvaxið - meðalhátt tré (5 - 10 m). Ein- eða margstofna. Stundum runni. Blómin hvít, ilmandi í klösum í maí - júní. Stundum þroskast svört ber (steinaldin)í gisnum klösum að hausti. Gulir - rauðgulir haustlitir. Heggur þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Heggur sómir sér vel stakur eða fleiri saman í þyrpingum og röðum. Tilvalinn í sumarhúsalandið. Þolir vel hálfskugga. Lágmarks-millibil: 2 m. Þolir vel klippingu en blómgast þá minna. Heggurinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Norður og M-Evrópu, Norður og NA-Asía.
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.