Hrossakastanía – Aesculus hippocastanum
Fremur viðkvæmt tré. Laufblöðin eru sérlega stór, samsett. Brum stór. Blómin eru hvít í uppréttum klösum. Aldinið þyrnótt kúla með stórri „hnetu“ innan í. Hrossakastanía er tiltölulega sjaldgæf hérlendis. Í Reykjavík er til yfir 10 m hátt eintak. Hrossakastanía hefur blómstrað hérlendis en ekki þroskað aldin svo vitað sé.
Hrossakastanía þrífs eingöngu á hlýjum og skjólgóðum stöðum í djúpum og frjóum jarðvegi. Ættuð úr fjalllendi á Balkanskaga en algeng í ræktun í Evrópu og víðar.
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Sitkagreni – Picea sitchensis
Mjög harðgert, stórvaxið, langlíft, sígrænt barrtré. Hraðvaxta. Vind- og saltþolið. Þolir vel klippingu. Þrífst best í brekkum þar sem er að finna ferskan jarðraka og jarðvegur er nokkuð frjór. Nálar dökkgrænar að ofanverðu en ljós-bláleitar að neðanverðu. Mjög stingandi. Könglar í fyrstu rauðleitir, seinna ljósbrúnir, pappírskenndir og meðalstórir. Þroskar köngla á nokkurra ára fresti eftir að 30 - 40 ára aldri er náð. Sum tré mynda þó köngla fyrr á æviskeiðinu. Börkur er fremur þunnur og er því sitkagreni ekki sérlega eldþolið tré. Viðurinn er léttur og hlutfallslega sterkur. Hann er m.a. notaður í hljóðfæri, flugvélar og báta. Útsprungin brum ná nota í greni-bjór og sýróp. Forðist að planta í frostpolla. Sumt af því sem kallað er sitkagreni kann að vera sitkabastarður / hvítsitkagreni (Picea x lutzii). Sitkagreni / sitkabastarður er lang algengasta grenið hérlendis. Sitkagreni er glæsilegt stakstætt, fer vel í röðum og þyrpingum. Einnig kjörið í skjólbelti og jafnvel klippt limgerði. Þó eru ekki öll sveitarfélög sem leyfa gróðursetningu sitkagrenis á lóðarmörkum (sjá byggingareglugerð) enda verður sitkagreni mjög stórvaxið með tímanum. Eitt mest notaða tré í skógrækt hérlendis enda harðgert og gott timburtré. Stundum nýtt sem jólatré enda ágætlega barrheldið. Lang besta sígræna tréið til ræktunar við sjávarsíðuna eins og t.d. á Reykjanesi. Sitkagreni gerir kröfur um frjósemi jarðvegs svo setjið vel af moltu eða búfjáráburði við gróðursetningu. Þegar skógarplöntur eru gróðursettar skal setja nokkur korn af tilbúnum áburði með. Hæstu tré hérlendis eru sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri, um 30 m á hæð (2022). Millibil við gróðursetningu að lágmarki 3 m. Stundum 2 m í skógrækt. Til frambúðar að lágmarki 4 - 5 m. Við framleiðum eingöngu sitkagreni af íslensku fræi. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Vex yfirleitt ekki langt frá ströndinni í heimkynnum sínum.
Ulleungreynir / Pálmareynir ‘Dodong’ – Sorbus ulleungensis ‘Dodong’
All harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð 4 - 6 m hérlendis. Getur ef til vill orðið hærri á góðum stöðum. Laufin allt að 25 sm löng, stakfjöðruð. Smáblöð 15 - 17 talsins og hvassydd. Áberandi rauðir og rauðgulir haustlitir. Blómin hvít í sveipum fyrri part sumars. Berin sitja mörg saman í klösum, perulaga, rauðgul fullþroska.
Klippið og snyrtið 'Dodong' eingöngu yfir sumartímann til að forðast reyniátu. Yrkið 'Dodong' er vaxið upp af fræi sem safnað var í sænsk-dönskum leiðangri til kóreönsku eyjarinnar Ullungdo árið 1976. Yrkið er kennt við hafnarbæinn á umræddri eyju.
'Dodong' fer vel sem stakstæður í litlum sem stórum görðum. Einnig fellegur í röðum og þyrpingum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Heimkynni: Eyjan Ulleungdo, S-Kóreu. Rósaætt (Rosaceae).
Ryðelri / Ryðölur – Alnus rubra
Harðgert, hraðvaxta, einstofna, meðalstór - stórvaxið tré (10 m). Lágvaxnara og runnkendara við erfið skilyrði. Laufin eru egglaga, 7 - 15 sm á lengd, sagtennt og langydd. Blaðjaðarinn verpist aðeins niður á við. Ung lauf gjarnan rauðmenguð. Haustlitur brúnn eða frýs grænn. Rauðleitir karlreklar vaxa fram snemma vors (mars / apríl). Kvenreklar brúnir fullþroska. Minna á litla köngla. Börkur grár með ljósum þverrákum. Gjarnan ber á uppblásnum trjákvoðu-bólum á berki. Sólelskt en gerir litlar kröfur til jarðvegs. Vex eins og annað elri í sambýli við niturbindandi bakteríur. Rótarskot engin eða lítið áberandi. Ryðelri hentar stakstætt, í raðir / þyrpingar með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Hentar einnig til skógræktar. Nýlegur í ræktun en lofar mjög góðu. Hugsanlega hentugt sem götutré. Ryðölurinn okkar er allur vaxinn upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá Alaska suður til Kaliforníu.
Bergfura – Pinus uncinata
Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Könglar eru tvílitir, dekkri á jöðrum köngulhreisturs og minna á köngla fjallafuru en eru enn ljósari (sjá mynd). Bergfurukönglar eru kúptir að neðan en ekki sléttir eins og könglar fjallafuru. Könglar stafafuru eru aftur á móti einlitir, kanelbrúnir. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta. Heimkynni: Pýreneafjöll og V-Alparnir. Háfjallategund sem vex þar aðallega í 1000 - 2300 m.h.y.s. Finnst einnig lægra í frostpollum og barnamosamýrum. Þar sem útbreiðslusvæði berg- og fjallafuru skarast myndast gjarnan blendingar (Pinus x rotundata). Þessi blendingur virðist algengur hérlendis sem lýsir sér í fremur lágvöxnum, margstofna trjám eða stórum runnum upp á 4 - 7 m. Bergfura er stundum skilgreind sem undirtegund fjallafuru, Pinus mugo subsp. uncinata.
Hengigullregn ‘Pendula’ – Laburnum alpinum ‘Pendula’
Ágrætt, lágvaxið skrautré. Hæð um 2 m. Gulir blómklasar miðsumars. Greinum fjölgar með tímanum sem allar vaxa niður á við og niður á jörð. Gjarnan eru greinar snyrtar þegar þær eru komnar niður að jörð. Klippið einungis að sumri til. Ef greinar vaxa upp eða út frá stofni neðan við ágræðsluna sem er efst þarf að klippa þær í burt annars er hætt við að þær taki yfir og hengiútlitið hverfi. Sólelskt. Gerir litlar kröfur til jarðvegs en hentar ekki í blautan jarðveg. Niturbindandi. Hengigullregn fer vel stakstætt, innan um lægri gróður, framan við hús og í ker.
Rósareynir – Sorbus rosea
All harðgerður hávaxinn runni eða lágvaxið tré (2,5 - 5 m). Blöðin stakfjöðruð, mött. Rauðgulir haustlitir. Fölbleik blóm í sveipum birtast fyrri part sumars. Fremur stór, bleik/rósrauð reyniber í klösum þroskast á haustin. Þolir hálfskugga. Rósareynir sómir sér vel stakur eða í bland með öðrum runnum. Fremur nýlegur í ræktun hérlendis. Minnir í útliti á kasmírreyni (S. cashmiriana). Heimkynni: Karmír í Pakistan.
Risalífviður – Thuja plicata
Sígrænt, keilulaga, í meðallagi hraðvaxta tré. Óvíst er hversu hár risalífviður getur orðið hérlendis. Hefur þó náð afmarkað 12 m hæð við Jökullæk í Hallormsstaðaskógi. Barrið er hreisturkennt og ilmandi. Grænt að ofan en ljósara að neðanverðu. Ilmurinn minnir á ananas. Börkur rauðbrúnn. Þarf gott skjól í uppvextinum. Þolir talsverðan skugga. Könglarnir eru litlir og aflangir en ekki kringlóttir eins og á sýprus (Chamaecyparis spp. og Cupressus spp.). Risalífviður getur í heimkynnum sínum orðið mjög stórvaxinn og langlífur.
Risalífviður þrífst helst í skógarskjóli eða í grónum görðum í frjóum, rakaheldnum en framræstum jarðvegi. Barrið verður gjarnan brúnleitara á vetrum en grænkar svo aftur ef plantan er óskemmd. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu nema að skjólið sé þeim mun meira. Þolir vel klippingu og er m.a. notaður í klippt limgerði erlendis. Risalífviðirnir okkar eru afkomendur trjánna við Jökullæk. Þau tré eru af kvæminu, Kamloops, Bresku Kólumbíu, Kanada. Þykir gott timburtré en viður risalífviðar hefur náttúrulega fúavörn og er ilmandi. Heimkynni: Norðvestanverð N-Ameríka. Grátviðarætt (Cupressaceae).
Heggur – Prunus padus
Harðgert, lágvaxið - meðalhátt tré (5 - 10 m). Ein- eða margstofna. Stundum runni. Blómin hvít, ilmandi í klösum í maí - júní. Stundum þroskast svört ber (steinaldin)í gisnum klösum að hausti. Gulir - rauðgulir haustlitir. Heggur þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Heggur sómir sér vel stakur eða fleiri saman í þyrpingum og röðum. Tilvalinn í sumarhúsalandið. Þolir vel hálfskugga. Lágmarks-millibil: 2 m. Þolir vel klippingu en blómgast þá minna. Heggurinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Norður og M-Evrópu, Norður og NA-Asía.