Hrútaber / Hrútaberjaklungur – Rubus saxatilis
Harðgerð, lágvaxin, íslensk jurt. Hæð um 10 – 20 sm. Hrútaberjaklungur er skuggþolið. Lauf þrífingruð. Rauðir haustlitir. Blóm fimmdeild, hvít á lit. Berin (steinaldin) eru rauð í klösum og má nýta í sultur (hrútaberjahlaup) og fleira. Hrútaber fjölga sér kynlaust með löngum renglum sem mynda smáplöntur sem skjóta rótum. Þrífst í allri sæmilega frjórri, vel framræstri mold. Prýðis þekjuplanta t.d. undir trjám og runnum. Hentar einnig í brekkur og skriður. Í skugga þroskast minna eða ekkert af berjum.
Vöruflokkar: Ávaxtatré og berjarunnar, Fjölærar jurtir, Þekjuplöntur
Tengdar plöntur
Geitaskegg / Jötunjurt – Aruncus dioicus
Harðgerð, stórvaxinn fjölær jurt. Hæð um og yfir 1 m. Álíka breið. Blöðin stór, samsett. Sérbýllt. Karlplöntur eru aðallega ræktaðar. Stórar, keilulaga, kremhvítar blómskipanir. Myndar grjótharða, skífulaga rót. Þolir vel hálfskugga. Þrífst best í frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Millibil 80 - 100 sm.
Regnhlífarblóm / Skjaldsteinbrjótur – Darmera peltata
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 1,5 m. Blómgast fyrir laufgun í maí. Blómin eru ljósrauð í hvelfdum sveip á allt að 1,5 m háum blómstöngli. Blöðin eru fremur stór, gljáandi, skjaldlaga og birtast eftir blómgun í júní. Rauðir haustlitir. Þrífst best í rökum og frjóum jarðvegi t.d. við læki og tjarnir. Skuggþolið. Dreifir sér rólega út með neðanjarðarrenglum. Regnhlífarblóm er ættað frá Óregon og Kaliforníu. Fremur sjaldgæft hérlendis.
Postulínsblóm / Skuggasteinbrjótur – Saxifraga x urbium
Harðgerð, lágvaxin fjölær jurt. Hæð 15 - 30 sm. Laufblöðin sitja í jarðlægum hvirfingum sem smám saman bætist við. Blöðin leðurkennd, hálfsígræn, stilkuð, spaðalaga eða öfugegglaga og bogtennt. Blómin smá, stjörnulaga, fölbleik, mörg saman í uppréttum, gisnum klösum. Blómstilkar rauðleitir.
Postulínsblóm er skuggþolið. Hentar í hleðslur, steinhæðir og ker. Prýðis þekju- og kantplanta. Þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Þarf ekki djúpan jarðveg. Vinsælt og algengt í görðum hérlendis.
Yrkið 'Aureopunctata' hefur gulflekkótt laufblöð. Eigum það gjarnan til og er það ekki síður harðgert.
Postulínsblóm er talið vera garðablendingur á milli hins eiginlega skuggasteinbrjóts (Saxifraga umbrosa) og spaðasteinbrjóts (S. spathularis). Steinbrjótsætt (Saxifragaceae).
Fjallasveipur – Adenostyles alliariae
Harðgerð, stórvaxin jurt. Hæð í kringum 1,5 m. Blómin smá, lillablá, mörg saman í all stórum sveipum. Blómgast miðsumars (júlí og fram í ágúst). Þolir vel hálf skugga. Þrífst best í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Fjallasveipur hentar aftarlega í blómabeð. Þarf yfirleitt ekki uppbindingu. Millibil allt að 1 m. Heimkynni: Fjalllendi M-Evrópu.
Krosshnappur – Glechoma hederacea
Harðgerð, jarðlæg fjölær, sígræn, þekjandi jurt. Laufið gjarnan rauðbrúnleitt. Laufið er ætt. Blómin fjólublá miðsumars. Þolir hálfskugga. Ilmandi. Þrífst best í frjóum, niturríkum, sæmilega rökum jarðvegi. Hentar sem þekjuplanta t.d. undir trjám, í ker og potta og þess háttar. Dreifir sér með jarðstönglum. Heimkynni: Evrasía.
Kínalykill – Primula sikkimensis
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 40 - 50 sm. Laufblöðin sitja í jarðlægum hvirfingum. Blöðin eru öfugegglaga - oddbaugótt og bogadregin í oddinn. Mjókka að grunni. Blaðstöngull er styttri en blaðkan. Hrukkótt. Blómin sitja mörg saman í sveip á stöngulendum. Bikarblöð eru brúnleit. Blómin eru ljósgul, drjúpandi og ilma vel. Blómleggir grannir og mélugir. Króna allt að 3 x 3 sm. Blómgast í júní - júlí.
Kínalykill þrífst vel í allri sæmilega frjórri og rakaheldinni garðmold. Þolir vel hálfskugga. Hentar í blönduð beð með öðrum fjölæringum eða inn á milli runna.
Heimkynni: Himalajafjöll. Maríulykilsætt (Primulaceae).