Ígulrós ‘Jóhanna’ – Rosa rugosa ‘Jóhanna’
Mjög harðgerð, fremur hraðvaxta, all stórvaxin runnarós. Hæð um 2 m. Greinar brúnar, talsvert þyrnóttar og gjarnan útsveigðar í endann á kröftugum sprotum. Laufin stakfjöðruð. Gulir haustlitir. Blómin einföld, all stór, rauðfjólublá og ilmandi með gulum fræflum. Blómgast í júlí – september. Rauðar, flathnöttóttar nýpur þroskast á haustin sem nýta má til manneldis. Vind- og saltþolin. Skríður út með rótarskotum.
Þrífst og blómstrar mest á sólríkum stað í sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi sem gjarnan má vera blandaður sandi og möl. ‘Jóhanna’ hentar í raðir og þyrpingar með um 1 m millibili. Hentar í brekkur, umferðareyjar, opin svæði, í jaðar skjólbelta og villigarða. Hentar eingöngu saman með öðrum gróðri sem þolir vel samkeppni eins og t.d. aðrar skriðular rósir og saman með skriðulum kvistum og hávöxnum fjölæringum. ‘Jóhanna’ mun vera kennd við Jóhann Pálsson grasafræðing og rósakynbótamann. Rósaætt (Rosaceae).