Ígulrós f. alba – Rosa rugosa f. alba
Harðgerður, lágvaxinn – meðalhár runni (1,5 m). Mikið þyrnótt. Laufin stakfjöðruð og gljándi. Smáblöð 5 – 9 talsins. Oftast 7. Lengd smáblaða 3 – 4 sm. Smáblöðin eru sporöskjulaga með snubbóttum eða fleyglaga blaðgrunni, tennt, leðurkennd og með áberandi æðaneti. Gulir haustlitir. Blómin stór, hvít, einföld og ilmandi. Blómstrar venjulega í júlí og fram á haust. Stórar gular – rauðgular, flathnöttóttar, ætar nýpur þroskast á haustin. Íslenska heitið ígulrós er dregið af lögun nýpanna sem eru í laginu eins og ígulker.
Sólelsk. Heilbrigð. Gerir ekki miklar kröfur til jarðvegs. Þrífst t.d. vel í grýttu og sendnu landi. Hentar ekki á blauta staði. Blandið moltu eða gömlu taði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Dreifir sér út með rótarskotum. Hentar í raðir, þyrpingar, brekkur, villigarða og þess háttar. Millibil um 1 m. Hentar til ræktunar við sjávarsíðuna enda vind- og saltþolin.
Algengast er að ígulrós sé með rauðbleikum blómum. En formið alba er hvítblómstrandi eins og nafnið gefur til kynna. Stundum er rithátturinn eins og um yrki sé að ræða, ‘Alba’.
Náttúruleg heimkynni ígulrósar eru í A-Asíu. Vex þar fyrst og fremst í sendnu landi með ströndum fram. Útbreiddur slæðingur í Evrópu og N-Ameríku. Rósaætt (Rosaceae).