Rós ‘Guðbjörg’ – Rosa ‘Guðbjörg’
Harðgerð, lágvaxin – meðahá runnarós (1,5 m). Laufið dökkgrænt, stakfjaðrað. Rauðir blaðstilkar. Rauð brum. Blómin tvöfölld, dökkrauðfjólublá með ljósari æðum. Ilma. Rauðar nýpur þroskast að hausti. Skriðullt rótarkerfi. Sólelsk. Hentar í runnaþykkni, brekkur (til að binda jarðveg), villigarða og sumarhúsalóðir. Yrkið er upprunið frá Jóhanni Pálssyni fyrrverandi garðyrkjustjóra Reykjavíkur. ‘Guðbjörg’ er samkvæmt Jóhanni afkvæmi ígulrósarinnar ‘Logafold’ og R. x kamtschatica.
Vörunr.
ca5b3e74bb33
Vöruflokkur: Rósir
Tengdar plöntur
Fjallarós ‘Lina’ – Rosa pendulina ‘Lina’
Harðgerður, meðalhár, þéttur runni. Hæð og breidd um 2 m. Dreifir sér eitthvað með rótarskotum. Sprotar eru grænir eða rauðbrúnir og nánast þyrnalausir. Greinar í fyrstu uppréttar en síðan með tímanum útsveigðar. Axlarblöð kirtilhærð á jöðrunum. Laufið fjaðrað og matt. Smáblöðin eru 5 - 11 talsins, oddbaugótt, tvísagtennt og 2 - 6 sm á lengd hvert og eitt. Smáblöðin eru dúnhærð. Blómin einföld, fremur smá, rauðbleik/fjólubleik og ilmandi. Krónublöð ljósari nær miðju. Með fyrstu rósum að byrja að blómstra á sumrin. Fyrstu blómin sjást gjarnan í júní. Blómgast annars í júlí. Ef sumarið er vætusamt og kalt blómstrar hún fram í ágúst eins og gerðist sumarið 2024. Rauðar, smáar, aflangar nýpur þroskast á haustin. Gulir - rauðgulir haustlitir.
Sólelsk en þolir vel hálfskugga. All vind- og saltþolin. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Blandið moltu eða stöðnu hrossataði saman við jarðveginn þar sem gróðursetja á fjallarós.
Fjallarós 'Lina' hentar sérlega vel í raðir /limgerði og þyrpingar. Einnig falleg stakstæð. Hentar í sumarhúsalóðir og villigarða þar sem hún þolir vel samkeppni við t.d. lúpínu. Þolir vel hóflega klippingu. Millibil um eða yfir 1 m. Í limgerði er 50 sm millibil hæfilegt. Þar sem fjallarós blómstrar á eldri greinar er heppilegt að klippa fjallarósalimgerði strax eftir blómgun í júlí eða ágústbyrjun. Fái hún að vaxa meira og minna frjálst felst snyrting aðallega í því að klippa í burt gamlar greinar alveg niður við jörð.
'Lina' er norskt úrvalsyrki frá Harstad sem m.a. þrífst í Finnmörku, N-Noregi. Annars eru náttúruleg heimkynni fjallarósar í fjöllum Mið- og S-Evrópu. Rósaætt (Rosaceae).
Rós ‘John Cabot’ – Rosa ‘John Cabot’
Sæmilega harðger runnarós. Hæð: Allt að 2 m. Laufin eru stökfjöðruð og gljáandi. Blómin meðalstór, skærbleik, hálffyllt og með meðalsterkum ilm. Þau sitja nokkur saman á stöngulendum. Blómstrar síðsumar og fram á haust.
Þrífst best í frjóum, vel framræstum jarðvegi. 'John Cabot' er seld ágrædd. Gróðursetjið rósina þannig að ágræðslan fari 10 sm undir jarðvegsyfirborðið. 'John Cabot' þarf sólríkan og þokkalega skjólgóðan vaxtarstað til að þrífast. Hægt er að gróðuretja 'John Cabot' við grind upp við vegg og rækta sem klifurrós.
Úr smiðju Dr. Felicitas Svejda, Kanada frá árinu 1969. Markaðssett í Kanada árið 1978. Fjölbastarður (R. x kordesii) x (R. 'Masquerade' x R. laxa). 'John Cabot' er úr svokallaðri "Explorer rósa seríu". Rósir í þessari vörulínu voru ræktaðar fram af Svejda í "Central Experimental Farm" í Ottawa, Ontario með það í huga að þola kalda vetur og stutt sumur á meginlandi Kanada. Rósir þessar voru skírðar í höfuðið á landkönnuðum sem komu við sögu í sögu Kanada. John Cabot (1450 - 1500) var ítalskur stýrimaður sem fyrstur kannaði Norðvesturleiðina svokölluðu. Rósaætt (Rosaceae).
Hurdalsrós – Rosa ‘Hurdalsrose’
Meðalstór til stórvaxinn runni, 1,5 - 2,5 m á hæð. All harðgerð. Blómin fagurbleik, meðalstór, hálffyllt. Ilma lítið sem ekkert. Rauðgular, þyrnóttar nýpur. Rauðgulir haustlitir. Fer vel stakstæð, í blönduð beð og upp við vegg, jafnvel á grind sem klifurrós. Skríður ekki út með rótarskotum. Getur sýkst af ryðsvepp.
Ígulrós ‘Logafold’ – Rosa rugosa ‘Logafold’
Rósin 'Logafold' er afrakstur rósakynbóta Jóhanns Pálssonar fyrrverandi garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar. 'Logafold' er harðgerð og þétt runnarós. Vind- og saltþolin enda af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin eru stór, léttfyllt, fallega skálformuð, rauðfjólublá - bleik og ilmandi. Langur blómgunartími. Rauðar nýpur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Hæð um 1,5 m. Framleidd og seld í Þöll á eigin rót. Hentar í blönduð beð, raðir og þyrpingar með um 80 sm millibili. Getur einnig vaxið "villt" í sumarhúsalöndum og þess háttar. 'Logafold' er úr smiðju Jóhanns Pálssonar grasafræðings. Hún er afkomandi R. 'Charles Albanel x ?.
Rós ‘Ristinummi’ (járnbrautarrósin) – Rosa ‘Ristinummi’
Harðgerður, þéttur, meðalstór runni. Laufið stakfjaðrað. Blómin stór, einföld, fölbleik, daufur ilmur. Krónublöðin eru gulleit neðst. Blómgast í júlí og ágúst. Rauðar nýpur. Rauðgulir haustlitir. Vaxtarlagið hvelft. Sólelsk. Blómgast mest í sæmilega frjóum vel framræstum, aðeins sendnum eða grýttum jarðvegi í fullri sól. Járnbrautarrósin sómir sér vel í blönduðum runnabeðum, röðum og þyrpingum með tæplega 1 m millibili. Hentar í villigarða og sumarhúsalóðir. Talin vind- og saltþolin. Skríður ekki mikið út með rótarskotum. 'Ristinummi' er að öllum líkindum blendingur ígulrósar (R. rugosa) og þyrnirósar (R. pimpinellifolia). Kennd við bæinn Ristinummi í Finnlandi þar sem Peter Joy fann hana við járnbrautarstöðina í bænum í kringum árið 1996.
Rós ‘Örträsk’ – Rosa ‘Örträsk’ / ‘Örtelius’
Harðgerð, meðalhá runnarós (1,5 - 2,0 m). Talin blendingur ígulrósar (R. rugosa) og kanelrósar (R. majalis). Dreifir sér nokkuð út með rótarskotum. Blómin stór, hálffyllt, bleik og ilmandi. Blómgast frá miðju sumri og fram í frost. Þroskar rauðar nýpur sem má nýta til manneldis.
Sólelsk en þolir vel hálfskugga. Millibil 1 m. Hentar stakstæð, í blönduð beð, raðir og þyrpingar. Ættuð frá Lapplandi. Rósaætt (Rosaceae).
Meyjarós / Hæðarós ‘Highdownensis’ – Rosa moyesii ‘Highdownensis’
Fremur harðgerð, hávaxin runnarós. Hæð: 3 - 4 m. Greinar fyrst uppréttar. Síðan útsveigðar. Laufin stakfjöðruð. 9 - 11 smáblöð. Dökkgræn og mött á efra borði. Blaðstilkar þyrnóttir. Greinar og sprotar þyrnótt. Blómin all stór, einföld, rauðbleik. Daufur ilmur. Blómgast í júlí - ágúst. Krónublöðin ljósari neðst. Gulir fræflar. Þroskar rauðgular, flöskulaga nýpur á haustin sem standa fram á vetur. Sólelsk.
Meyjarós 'Highdownensis' fer vel stakstæð eða aftarlega í runna- og blómabeðum. Plássfrek. Mætti nota sem klifurrós á vegg. Getur einnig prílað upp tré. Þrífst í sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Má gjarna vera sand- og malarborinn.
'Highdownensis' er ættuð frá F.C. Stern frá árinu 1928 og kennd við garð hans, Highdownensis, Sussex, Englandi. 'Highdownensis' er ýmist talin vera meyjarós eða meyjarósarblendingur (R. x highdownensis) þar sem hitt foreldrið er óþekkt. Náttúruleg heimkynni meyjarrósar eru í V-Kína. Rósaætt (Rosaceae).