Ígulrós ‘Hadda’ – Rosa rugosa ‘Hadda’
Harðgerð runnarós. Vaxtarlagið útbreitt. Hefur því þekjandi eiginleika. Hæð: 1 – 1,5 m. Blómin stór, hálffyllt, rauðfjólublá og ilmandi. Er með fyrstu ígulrósum að byrja að blómstra á sumrin. Blómgast fram á haust. Rauðar, flathnöttóttar nýpur þroskast að hausti. Blaðstönglar og axlarblöð rauðleit. Gulbrúnir haustlitir. Sólelsk. Þrífst best í aðeins sendnum/grýttum og vel framræstum jarðvegi. Blandið lífrænu efni (búfjáráburði/moltu) saman við jarðveginn við gróðursetningu. ‘Hadda’ hentar í breiðuplantanir til að þekja yfirborð og sem jaðarplanta í trjábeðum. Einnig í blönduð runnabeð, brekkur og þess háttar. Rótarkerfið skríður lítið sem ekkert út. ‘Hadda’ er úr smiðju Jóhanns Pálssonar (1931 – 2023) og er blendingur R. rugosa ‘Rotes Meer’ x R. kamtschatica. Kennd við eiginkonu Jóhanns, Hrafnhildi Kristínu Jónsdóttur (1935 – 2023) sem gjarnan var kölluð Hadda.