Ígulrós / skráprós – Rosa rugosa – Íslenskar fræplöntur
Harðgerður, lágvaxinn – meðalhár (1 – 1,5 m), heilbrigður, sumargrænn runni. Laufin eru stakfjöðruð, smáblöðin oftast sjö talsins, 8 – 15 sm löng. Smáblöðin sporöskjulaga, 3 – 4 sm á lengd og tennt. Gulir haustlitir. Greinar og blaðstilkar þyrnótt. Blómin stór, einföld, yfirleitt rauðfjólublá, ilmandi, venjulega samsett úr fimm krónublöðum. Byrjar að blómgast í júlí og blómstrar gjarnan fram á haust. Stórar rauðar, flathnöttóttar nýpur þroskast á haustin. Nýpurnar sitja gjarnan á greinunum fram á vetur sé þeim ekki safnað. Sólelsk. Vind- og saltþolin. Þrífst vel í sendnum og malarbornum jarðvegi. Skríður talsvert út með rótarskotum. Tilvalin til að binda jarðveg t.d. í brekkum, röskuðum svæðum og þess háttar. Hentar í runnaraðir/limgerði á vindasömum stöðum við sjávarsíðuna. Millibil 50 sm en meira ef rósin fær að vaxa óklippt. Ef hún er klippt mikið blómstrar hún minna en ella. Ígulrós hentar til framleiðslu á nýpum sem nota má í te, sultu, grauta og fleira. Einnig nefnd „garðarós“, „skráprós“ og jafnvel „hansarós“. Hansarós (R. rugosa ‘Hansa’) er vinsælt yrki af ígulrós með þéttfylltum, rauðfjólubláum blómum sem sjaldan þroskar nýpur. Við framleiðum og seljum nokkur yrki af ígulrós/ígulrósablendingum sem eru með hálffylltum og fylltum blómum eins og ‘Fönn’, ‘Hansa’, Logafold’, ‘Ritausma’ og fleiri sem fjallað er um sérstaklega hér á síðunni. Ígulrós vex aðallega með ströndum fram þar sem hún vex villt. Upprunanleg heimkynni ígulrósar eru í A-Asíu nánar tiltekið í NA-Kína, Japan, Kóreu og SA-Síberíu. Í dag vex ígulrós víða villt í Evrópu, N-Ameríku og S-Ameríku og er þar sums staðar talin ágeng. Hefur ekki sáð sér út hérlendis svo vitað sé. Þó hafa plöntur fundist utan garða hérlendis t.d. í Vík í Mýrdal. Það gæti allt eins verið gróðursettar plöntur eða vaxið upp þar sem garðaúrgangur hefur verið losaður.