Rós ‘Lísa’ – Rosa rugosa ‘Lísa’
Harðgerð, í meðallagi hávaxin runnarós (1 – 1,5 m). Blómin stór, hálffyllt – fyllt, bleik og ilmandi. Þroskar rauðar nýpur á haustin. Gulir – rauðgulir haustlitir. Skríður út með rótarskotum. ‘Lísa’ er íslenskt yrki valið úr efniviði sem hingað barst úr Alaska-leiðangrinum árið 1985. ‘Lísa’ ber þess öll merki að vera ígulrós (R. rugosa) eða ígulrósablendingur. Þrífst og blómstrar mest á sólríkum stað í vel framræstum, ekki of frjóum jarðvegi sem gjarnan má vera blandaður sandi og möl. Vind- og saltþolin. Hentar í raðir og þyrpingar, til að binda jarðveg í brekkum, villigarða og sumarbústaða-lönd. Millibil 80 – 100 sm.
Vörunr.
b5de51a96675
Vöruflokkar: Rósir, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Bergfura – Pinus uncinata
Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Könglar eru tvílitir, dekkri á jöðrum köngulhreisturs og minna á köngla fjallafuru en eru enn ljósari (sjá mynd). Bergfurukönglar eru kúptir að neðan en ekki sléttir eins og könglar fjallafuru. Könglar stafafuru eru aftur á móti einlitir, kanelbrúnir. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta. Heimkynni: Pýreneafjöll og V-Alparnir. Háfjallategund sem vex þar aðallega í 1000 - 2300 m.h.y.s. Finnst einnig lægra í frostpollum og barnamosamýrum. Þar sem útbreiðslusvæði berg- og fjallafuru skarast myndast gjarnan blendingar (Pinus x rotundata). Þessi blendingur virðist algengur hérlendis sem lýsir sér í fremur lágvöxnum, margstofna trjám eða stórum runnum upp á 4 - 7 m. Bergfura er stundum skilgreind sem undirtegund fjallafuru, Pinus mugo subsp. uncinata.
Bjarmasýrena ‘Valkyrja’ – Syringa wolfii ‘Valkyrja’
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Blómin lillableik, ilmandi í klösum. Lágvaxnari en aðrar sýrenur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Nýtur sín vel stakstæð eða fleiri saman í þyrpingu með um 120 sm millibili. Hentar einnig í stóra potta. Kettir sækja talsvert í Bjarmasýrenu 'Valkyrju' og geta eyðilagt hana meðan hún er ung. Því borgar sig að setja girðingu/net utan um nýgróðursettar plöntur og hafa það í kring fyrstu árin þar sem mikið er um ketti. 'Valkyrja' er úrval úr Grasagarði Reykjavíkur.
Kanadalífviður ‘Brabant’ – Thuja occidentalis ‘Brabant’
Sæmilega harðgert, hægvaxta, þétt, upprétt, sígrænt tré. Hæð 3 - 4 m eftir 15 ár. Getur sjálfsagt náð 5 - 7 m hæð á bestu stöðum með tímanum. Breidd 1 - 1,5 m fyrstu 15 árin. Barrið hreisturkennt, grænt en gjarnan brúnleitara sérstaklega á greinaendum á veturna. Barrið ilmar sé það klippt eða nuddað. Könglar smáir, aflangir. Börkur rauðbrúnn og flagnar með tímanum af í strimlum.
'Brabant' er talið eitt harðgerðasta yrkið af lífvið til ræktunar hérlendis. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Hentar í gróna, skjólgóða garða. Kanadalífviður 'Brabant' hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig fyrir innan skjólgirðingar og þess háttar. Hentar í ker/potta þar sem er gott skjól annars sviðnar barrið illa og plantan veslast upp.
Erlendis er 'Brabant' hvað mest gróðursettur í limgerði. Þrífst í allri sæmilega frjórri, vel framræstri garðmold. Hollenskt yrki frá níunda áratug síðustu aldar. 'Brabant' er af sumum talinn vera blendingur kanada- og risalífviðar (T. plicata).
Blárifs ‘Perla’ – Ribes bracteosum ‘Perla’
Fremur harðgerður lágvaxinn til meðalstór runni (1,5 - 2 m). Laufin fremur stór, handsepótt, gljáandi á löngum blaðstilk. Gulir haustlitir. Blómin brúnleit í útstæðum klösum. Berin bláhéluð í löngum útstæðum klösum. Henta í sultur og þess háttar en ekki sérstök til átu hrá. Blárifs 'Perla' er skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Þrífst betur við ströndina en inn til landsins. Hentar í raðir, þyrpingar, í berjagarðinn og sem undirgróður undir trjám. 'Perla' er úrvalsyrki valið af Ólafi S. Njálssyni úr Alaskasafni því er barst til landsins með Óla Val og félögum árið 1985.
Alaskayllir / Rauðyllir – Sambucus racemosa ssp. arborescens
Harðgerður, stórvaxinn, grófur runni. Hæð: 3-5 m. Blómin mörg saman í kremuðum klasa í maí - júní. Berin eldrauð í ágúst. Fuglar sækja mjög í berin. Brumin gagnstæð. Laufblöðin stór, stakfjöðruð. Laufgast snemma á vorin. Gulir - brúnir haustlitir. Hraðvaxta. Mjög skuggþolinn. Þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Góður til uppfyllingar í skuggsæl horn o.þ.h. Getur hæglega vaxið yfir aðrar plöntur og skyggt þær út. Virðist nokkuð saltþolinn. Þolir vel klippingu. Millibil 1,5 - 2,0 m. Berin má nýta í sultur, vín og fleira séu þau soðin og fræið, sem er eitrað, sigtað frá. Alaskayllir er sá yllir sem er algengastur hérlendis. Sú deilitegund (S. racemosa ssp. arborescens) eða afbrigði (S. racemosa var. racemosa) er ættað frá vestanverðri N-Ameríku.
Bergreynir – Sorbus x ambigua
Harðgert lítið tré eða all stór runni (2 - 5 m). Ýmist ein- eða margstofna. Lauf sporöskjulaga og sagtennt. Blómin eru rauðbleik í hálfsveip fyrri part sumars. Rauð ber í klösum í september. Rauðgulir haustlitir. Minnir mjög á úlfareyni (S. x hostii). Blöð bergreynis eru minna hærð og meira gljáandi samanborið við úlfareyni, einnig á neðra borði. Vindþolinn og trúlega saltþolinn einnig. Bergreyni sómir sér stakstæður, í beðum með öðrum gróðri, í raðir og þyrpingar. Mætti jafnvel nota í klippt limgerði. Tilvalinn í sumarhúsalóðina. Millibil 1,5 - 2 m. Í limgerði 50 - 100 sm. Byrjar ungur að blómgast og þroska ber, fyrr samanborið við úlfareyni. Bergreynir er náttúrulegur blendingur seljureynis (Sorbus aria) og blikreynis (S. chamaemespilus). Vex villtur í fjalllendi Mið - S-Evrópu. Íslenski stofninn er líklega allur kominn af tré/trjám í Grasagarði Rvk sem uxu upp af fræi frá Haute-Savoie í frönsku Ölpunum og sáð var til árið 1989.
Flosvíðir – Salix × dasyclados
Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Laufið lensulaga. Minnir á körfuvíði (Salix viminalis) en grófgerðari. Sprotar áberandi loðnir. Karlkynsklónn með fallegum silfurloðnum reklum strax í febrúar/mars með bleikum blæ. Gulir frjóhnappar birtast í mars / apríl. Þrífst best í frjóum, rökum jarðvegi t.d. við læki og tjarnir. Einnig góður í runnaþyrpingar og jafnvel skjólbelti. Fallegastur sé hann klipptur / sagaður niður reglulega.