Japanskvistur ‘Goldmound’ – Spiraea japonica ‘Goldmound’
All harðgerður, lágvaxinn, þéttur runni (60 – 80 sm). Vaxtarlagið hálfkúlulaga. Laufið skær gulgrænt. Rauðgulir haustlitir. Fjólubleikir blómsveipir síðsumars. Sólelskur en þolir hálfskugga. Hentar vel í potta, ker, í blönduð beð, raðir og þyrpingar. Best fer á því að klippa japanskvist niður í um 25 sm hæð seinni part vetrar. Það kemur ekki niður á blómguninni þar sem hann blómgast á árssprotann. ‘Goldmound’ líkist mjög ‘Golden Princess’. Nýja laufið er þó meira rautt á ‘Goldmound’. Hefur verið hér í ræktun í um 30 ár og reynst vel. Var t.d. plantað framan við Blómaval í Sigtúni á móti norðaustri upp úr 1990 og þreifst vel.
Vörunr.
3dab865a2084
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Sýrena ‘Villa Nova’ – Syringa ‘Villa Nova’
Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Blómin fjólubleik, mörg saman í stórum klasa, ilmandi. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Ein allra besta sýrenan. Fer vel stakstæð, aftarlega í blönduðum runna- og blómabeðum eða fleiri saman í þyrpingum eða röðum. Millibil 2 m. Ekki er nákvæmlega vitað um uppruna þessa yrkis. Sýrenan mun vera kennd við Vilhjálm Sigtryggsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Loðvíðir – Salix lanata – jarðlægur
Mjög harðgerður, íslenskur, lágvaxinn/jarðlægur runni. Lauf og sprotar eru gráloðin. Karlreklar eru fallega gulir og birtast í apríl - maí. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Vex villtur um land allt. Loðvíðir hentar í hleðslur, kanta, steinhæðir, ker og þess háttar. Jarðlægi loðvíðirinn okkar er karlkyns og seldur í stykkjatali í pottum.
Svartyllir – Sambucus nigra
All harðgerður runni. Hæð: 2 - 4 m. Grófgreinóttur. Brum gagnstæð. Blöðin stakfjöðruð, græn. Blómin hvít, mörg saman í stórum sveipum síðsumars (ágúst). Berin svört fullþroskuð en svartyllir dregur nafn sitt af liti berjanna. Svartyllir nær ekki að þroska ber utandyra hérlendis. Blómin má nýta í svaladrykk. Skuggþolinn en blómgast betur í sól. Þrífst vel í venjulegri, ekki of þurri garðmold. Þrífst vel í grónum görðum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Millibil: 1 m eða meir. Í seinni tíð hafa komið fram yrki af svartylli með rauðbrúnum/purpurarauðum laufum og bleikum blómum eins og 'Black Lace' og 'Black Tower'. Okkur í Þöll hefur tekist að láta íslenskt fræ spíra þrátt fyrir að berin séu ekki fullþroska. Fræið er að runnum við íþróttahúsið Strandgötu, Hfj og úr garði á Flötunum, Gbæ. Tvö yrki hafa verið valin úr fræplöntunum. Annað er 'Amma Dóra' og hitt 'Afi Tóti'. Yrkin eru kennd við hjónin Halldóru Halldórsdóttur og Þórólf Þorgrímsson sem eru fædd árið 1928 og hafa verið dyggir styrktaraðilar Skógræktarfélags Hfj í gegnum tíðina ásamt því að vera foreldrar Árna, Gunnars og Halldórs sem allir hafa unnið mikið fyrir félagið og Þöll. Heimkynni svartyllis eru í Evrópu þó ekki allra nyrst.
Demantsvíðir ‘Flesja’ – S. pulchra ‘Flesja’
Harðgerður, alveg jarðlægur runni. Litlir gráloðnir reklar birtast seinni part vetrar. Laufið ljósgrænt, heilrennt og gljáandi. Axlablöð áberandi. Gulir haustlitir í september - október. Visin lauf sitja gjarnan á greinunum fram á vetur.
Hentar í hleðslur, kanta, ker o.þ.h. Sólelskur. Hentar því ekki sem undirgróður. Nægjusamur hvað varðar jarðveg. Úrvalsyrki úr Alaskaferð Óla Vals og félaga 1985.
Heimkynni tegundarinnar eru auk Alaska í Kanada og Rússlandi. Víðisætt (Salicaceae).
Sólbroddur ‘Laugardalur’ – Berberis thunbergii ‘Laugardalur’
Fremur harðgerður, þéttur, þyrnóttur, meðalstór runni. Hæð: 1,5 - 2,5 m. Nýtt lauf rauðleitt. Annars grænt - gulgrænt með rauðum jöðrum. Smá gul blóm, nokkur saman fyrri part sumars. Sólelskur. Þolir vel klippingu. Skærrauðir haustlitir í október - nóvember. Þrífst best í venjulegri garðmold. Hentar í raðir, þyrpingar, í limgerði og stakstæður. Í limgerði er hæfilegt millibil 60 - 70 sm. Annars 1 m. Yrkið er fræplanta af B. thunbergii 'Golden Ring' að talið er sem sáð var til í Grasagarði Reykjavíkur, Laugardal. Vegna þess hve sólbroddur 'Laugardalur' heldur laufinu lengi fram eftir hausti hefur hann stundum ranglega verið talinn sígrænn. Einn allra útbreiddasti broddurinn (Berberis spp.) hérlendis. Heimkynni tegundarinnar eru A-Asía þar á meðal Japan.
Þorrarunni ‘Dawn’ – Viburnum x bodnantense ‘Dawn’
Sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Ung lauf bronslituð. Þorrarunni blómgast að vetri til eða réttara sagt hann getur blómgast frá hausti og fram á vor. Blómin eru rauð í knúpp en bleik útsprungin mörg saman í sveip, ilmandi. Þolir vel hálfskugga. Þorrarunni er glæsilegur stakstæður en einnig fleiri saman í þyrpingu með um 1 m millibili. Þorrarunni virðist harðgerður á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fremur sjaldgæfur í ræktun enn sem komið er.