Jörfavíðir – Salix hookeriana ‘Katla’, ‘Gáski’, ‘Taða’ og ‘Sandi’
Mjög harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré. Hæð: 2,5 – 4,5 m. Laufið heilrennt, yfirleitt sporöskjulaga og gljándi að ofan. Í fyrstu er laufið áberandi hært en síðan nær hárlaust. Sprotar ljósbrún-hærðir. Blómgast fyrir laufgun í apríl. Gulir haustlitir. Frýs stundum grænn. Sérbýll. Sólelskur.
Jörfavíðir er almennt heilbrigður og laus við asparglyttu og ryð. Fallegir karlreklar skreyta ‘Gáska’ og ‘Sanda’ á vorin. Þeir henta því vel afskornir í vorskreytingar. Jörfavíðir er sérlega hentugur í limgerði og skjólbelti á vindasömum stöðum og þar sem gætir saltákomu af hafi og vegum. 1-3 plöntur eru gróðursettar á hvern m. Jörfavíðir hentar almennt best í lágsveitum. Getur orðið fyrir haustkali inn til landsins. Klippið jörfavíði-limgerði/skjólbelti seinni part vetrar til að halda þeim í formi. Einnig getur þurft að klippa að sumri.
‘Katla’ er grófust og mest upprétt. ‘Taða’ er eins og nafnið gefur til kynna hálfkúlulaga hvað vaxtarlag varðar. ‘Töðu’ þarf ekki að klippa þar sem pláss er nægt til að halda henni þéttri niður við jörðu. Jörfavíðir þrífst best í sæmilega frjósömum og rakaheldnum jarðvegi. Má vera sendinn og malarborinn. Annars nægjusamur. Jörfavíðir er kenndur við breska grasafræðinginn Sir William Jackson Hooker (1785 – 1865). Heimkynni: Strandhéröð á vesturströnd N-Ameríku. Allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Íslensku yrkin eru öll ættuð frá Alaska. Víðisætt (Salicaceae).