Jörfavíðir – Salix hookeriana ‘Katla’, ‘Gáski’, ‘Taða’
Mjög harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré. Laufið heilrennt og gljándi að ofan. Sprotar hærðir. Blómgast fyrir laufgun í apríl. Gulir haustlitir. Sérbýll. Sólelskur. Fallegir karlreklar skreyta ‘Gáska’ á vorin. ‘Gáski’ hentar því einstaklega vel afskorinn í vorskreytingar. Jörfavíðir er sérlega hentugur í limgerði og skjólbelti á vindasömum stöðum og þar sem gætir saltákomu af hafi. 2-3 plöntur eru gróðursettar á hvern m. Jörfavíðir hentar almennt best í lágsveitum. Getur orðið fyrir haustkali inn til landsins. Klippið jörfavíði-limgerði/skjólbelti seinni part vetrar til að halda þeim í formi. Einnig getur þurft að klippa að sumri. ‘Katla’ er grófust og mest upprétt. ‘Taða’ er eins og nafnið gefur til kynna hálfkúlulaga hvað vaxtarlag varðar. ‘Töðu’ þarf ekki að klippa þar sem pláss er nægt til að halda henni þéttri niður við jörðu.