Kákasusþinur / Nordmannsþinur – Abies nordmanniana
All hávaxið, sígrænt, hægvaxta, breið-keilulaga tré. Barrið fremur mjúkt viðkomu, dökkgrænt og gljáandi á efra borði. Áberandi ljóst á neðra borði. Könglar meðalstórir og sitja uppréttir á greinunum. Sjást sjaldan hérlendis. Nordmannsþinur er skjólþurfi en skuggþolinn. Hentar aðeins í skógarskjól og í grónum görðum. Viðkvæmur fyrir haustkali. Nordmannsþinur er vinsælt jólatré hér og erlendis. Öll nordmannsþin-jólatré sem seld eru hérlendis eru innflutt frá Danmörku en Danir framleiða yfir 10.000.000 nordmanns-jólatrjáa á ári hverju. Nordmannsþinur er kenndur við finnska líffræðinginn Alexander von Nordmann (1803 – 1866). Heimkynni nordmannsþins eru fjalllendi suður og austur af Svartahafi í Georgíu, Tyrklandi og Rússlandi í 900 – 2.200 m.h.y.s. þar sem ársúrkoman er meiri en 1000 mm.