Kasmírreynir – Sorbus cashmiriana
Hávaxinn runni (3 – 4 m). Stundum hærri. Yfirleitt margstofna. Laufblöð stakfjöðruð, samsett úr 15 – 21 smáblöðum. Blómin fölbleik í stórum, gisnum sveip fyrri part sumars. Reyniberin hvít í klösum, fremur stór og mjúk viðkomu fullþroska. Gulir – rauðgulir haustlitir. Kasmírreynir sómir sér vel stakstæður, í þyrpingum nokkrir saman eða í bland með öðrum gróðri. Einstaka sinnum notaður í limgerði. Vaknar fremur snemma af dvala á vorin (apríl). Er því nokkuð hætt við vorkali. Annars harðgerður. Reyniáta getur þó verið vandamál. Klippið og snyrtið kasmírreyni eingöngu að sumri til (júlí – ágúst) til að forðast smit reyniátu í gegnum skurðfleti. Hæfilegt bil milli plantna um 2 m. Í limgerði um 1 m. Þrífst best í vel framræstum, sæmilega frjóum jarðvegi í sól eða hálfskugga. Heimkynni: Vestanverð Himalajafjöll þar með talið Kasmírhérað.