Kínaeinir ‘Blue Alps’ – Juniperus chinensis ‘Blue Alps’
Lágvaxinn runni (um 1 m). Barrið blágrænt – grágrænt. Gjarnan koparlitaður á veturna. Greinar vaxa upp og til hliðar með ögn drjúpandi toppum. Sólelskur en þolir hálfskugga. Þarf eitthvert skjól. Skýlið fyrsta veturinn hið minnsta eftir gróðursetningu. Minnir á himalajaeini (Juniperus squamata) í útliti. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Þolir þó illa blautan jarðveg. Hentar í beð með öðrum sígrænum gróðri, ker í skjóli og stærri hleðslur.
Vörunr.
f2a8693d4939
Vöruflokkur: Sígrænir runnar og sígræn smátré
Tengdar plöntur
Kanadalífviður ‘Brabant’ – Thuja occidentalis ‘Brabant’
Sæmilega harðgert, hægvaxta, þétt, upprétt, sígrænt tré. Hæð 3 - 4 m eftir 15 ár. Getur sjálfsagt náð 5 - 7 m hæð á bestu stöðum með tímanum. Breidd 1 - 1,5 m fyrstu 15 árin. Barrið hreisturkennt, grænt en gjarnan brúnleitara sérstaklega á greinaendum á veturna. Barrið ilmar sé það klippt eða nuddað. Könglar smáir, aflangir. Börkur rauðbrúnn og flagnar með tímanum af í strimlum.
'Brabant' er talið eitt harðgerðasta yrkið af lífvið til ræktunar hérlendis. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Hentar í gróna, skjólgóða garða. Kanadalífviður 'Brabant' hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig fyrir innan skjólgirðingar og þess háttar. Hentar í ker/potta þar sem er gott skjól annars sviðnar barrið illa og plantan veslast upp.
Erlendis er 'Brabant' hvað mest gróðursettur í limgerði. Þrífst í allri sæmilega frjórri, vel framræstri garðmold. Hollenskt yrki frá níunda áratug síðustu aldar. 'Brabant' er af sumum talinn vera blendingur kanada- og risalífviðar (T. plicata).
Lyngrós ‘Rabatz’ – Rhododendron ‘Rabatz’
Sígrænn runni. Hæð 1 - 1,5 m. Blómin stór, rauð, trektlaga, mörg saman á greinarendum í júní eða fram að mánaðarmótum júní/júlí. Skjólþurfi. Gróðursetjið í mómold blandaðri gömlu hrossataði og furunálum. Varist að planta lyngrósum of djúpt. Vökvið vel eftir gróðursetningu og næstu daga á eftir. Rakið laufi að lyngrósum að hausti. Mælt er með kurli í lyngrósabeð. Setjið moltu yfir lyngrósabeð að vori eða berið sem svarar einni matskeið af blönduðum garðáburði á hverja lyngrós í maí. Ekki meira en það árlega! Dreifið áburðinum vel. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Mælt er með skýli úr striga sem nær aðeins uppfyrir plöntuna, er opið að ofan og snertir ekki blöðin. Þolir hálfskugga. Lyngrósin 'Rabatz' þrífst eingöngu í góðu skjóli í vel grónum hverfum. Reynsla hérlendis er ennþá takmörkuð. Þessi lyngrósarblendingur er úr smiðju H. Hachmann, Þýskalandi 1984.
Fjallafura / Dvergfura – Pinus mugo
Mjög harðgerður, lágvaxinn - meðalhár, sígrænn runni. Nálar dökkgrænar, 2 saman í búnti. Karlblóm ljósrauð, mörg saman neðst á árssprotum. Síðar rauðbrún. Könglar fremur smáir. Getur orðið talsvert breið. Til að halda fjallafuru þéttri borgar sig að brjóta til hálfs framan af brumun á greinaendum í kringum jónsmessuleytið. Fjallafura gerir litlar kröfur til jarðvegs. Fjallafura er sólelsk og hentar ekki sem undirgróður undir trjám. Fjallafura fer vel í blönduð beð með öðrum gróðri, nokkrar saman í þyrpingu með um 80 - 90 sm millibili. Einnig í stórgerðar hleðslur, ker og á opin svæði. Skýlið fjallafura alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög opnum og skjóllausum stöðum eins og í kringum háar byggingar o.þ.h. Smávaxin/fínleg fjallafura er gjarnan kölluð "dvergfura". Í raun er um stömu tegund að ræða. Fjallafura/dvergfura er mjög vinsæl og útbreidd í görðum og útivistarskógum. Fjallafuran okkar í Þöll er öll vaxin upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis eins og t.d. í Rauðvatnsstöðinni í Rvk, Gráhelluhrauni í Hfj og víðar. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og SA-Evrópu. Myndar blendinga með bergfuru (P. uncinata) þar sem útbreiðslusvæði tegundanna skarast í vestanverðum Ölpunum.
Kanadalífviður ‘Tiny Tim’ – Thuja occidentalis ‘Tiny Tim’
Sígrænn, þéttur, kúlulaga, lágvaxinn runni (1 m). Barrið er hreisturkennt og ilmandi. Þrífst í skjóli. Þolir vel hálfskugga. Kanadalífviður 'Tiny Tim' fer vel í beðum með öðrum lágvöxnum gróðri framan við hús og við dvalarsvæði. Getur lifað í pottum í góðu skjóli. Hægvaxta. Vex í kúlu eins og hann sé klipptur til.
Þráðsýprus / Ertusýprus ‘Filifera’ – Chamaecyparis pisifera ‘Filifera’
Sígrænn hægvaxta breiðkeilulaga runni eða smátré. Hæð 1,5 m hérlendis. Getur hugsanlega orðið hærri með tímanum í skjólgóðum görðum. Barrið hreisturkennt og gulgrænt á lit. Greinarendar slútandi, þráðmjóir. Þráðsýprus hentar í skjólgóða garða í sæmilega frjóum, rakaheldnum, framræstum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Hefur reynst ágætlega í pottum í skjóli. Tegundin er ættuð frá Japan.