Kínareynir ‘Bjartur’ – Sorbus vilmorinii ‘Bjartur’
Lítið tré eða stór runni (3 – 5 m). Virðist harðgerður. Vaxinn upp af fræi sem Ólafur Njálsson í Nátthaga, Ölfusi safnaði af reynirunna í N-Wales haustið 1989. ‘Bjartur’ var valinn til áframhaldandi ræktunar af þeim 5 plöntum sem komu upp. Virðist fræekta (apomixis). Hvítir blómsveipir birtast snemmsumars. Bleik ber þroskast á haustin. Rauðir haustlitir. Berin hanga á trjánum fram á vetur þar sem fuglar eru ekki sólgnir í þau. Þolir hálfskugga. Óvíst er hvort að um ekta kínareyni sé að ræða. ‘Bjartur’ hentar sem garðtré í t.d. litla garða. Þrífst í venjulegri, vel framræstri garðmold sem gjarnan má vera sand- og/eða malarborin.
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Heggur ‘Laila’ – Prunus padus ssp. borealis ‘Laila’
Harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð 5 - 8 m. Blómin hvít, ilmandi í uppréttum klösum fyrri part sumars. Stundum sjást svört steinaldin/ber á haustin. Gulir haustlitir. Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Heggur 'Laila' hentar stakstæður, í trjá- og runnaþyrpingar og í sumarhúsalóðina. Millibil: 2 - 3 m. 'Laila' er sænskt, blómsælt úrvalsyrki ættað frá Kukkola við Torne-ánna í N-Svíþjóð.
Lensuvíðir ‘Ljómi’ – Salix lasiandra ‘Ljómi’
All harðgerður stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 6 m). Árssprotar rauðbrúnir og gljáandi. Laufið lensulaga - egglaga, bogtennt og langydd. Meira og minna hárlaus. áberandi glansandi. Gulir haustlitir. Reklarnir birtast á sama tíma og laufgun á sér stað í maí. Þeir eru smáir og ekki sérstaklega áberandi. Minnir í útliti nokkuð á bambus.
Lensuvíðir þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Í meðallagi hraðvaxta. sólelskur. Hentar stakstæður, í raðir, þyrpingar, í bland með öðrum gróðri og í klippt limgerði. Fremur hraðvaxta. Getur orðið fyrir kali við erfiðar aðstæður. Stundum ber aðeins á skemmdum af völdum asparglyttu en þær eru yfirleitt ekki miklar. Annars heilbrigður. Karlkyns yrki valið úr efnivið úr Alaska-leiðangi Óla Vals Hanssonar og félaga árið 1985.
Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Víðisætt (Salicaceae).
Súlueik – Quercus robur ‘Fastigiata’
Fremur viðkvæmt tré hérlendis. Krónan mjóslegin. Laufgast upp úr miðjum júní. Frýs yfirleitt græn en stundum sjást gulir/gulbrúnir haustlitir. Fremur hægvaxta. Þrífst eingöngu í grónum görðum þar sem er skjólsælt. Sólelsk en þolir hálfskugga. Jarðvegurinn þarf að vera frjór og rakaheldinn. Óvíst er hversu hávaxin súleikin getur orðið hérlendis en reikna má með 6 - 7 m á allra bestu stöðum á löngum tíma.
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.
Virginíuheggur ‘Canada Red’ – Prunus virginiana ‘Canada Red’
Lítið til meðalstórt (5- 7,5 m), all harðgert tré eða stórvaxinn runni. Gjarnan margstofna enda hefur virginíuheggur tilhneigingu til að skjóta upp stofnskotum. Hægt að forma með klippingu í einstofna tré. Fremur harðgerður. Grænt lauf fyrri part sumars. Dökk-purpurarautt lauf upp úr miðju sumri (júlí). Skærrautt lauf á haustin. Ljósir blómklasar, svört ber. Hefur þó lítið blómstrað hérlendis hingað til. Þolir hálfskugga en litsterkastur í fullri sól. Fallegur stakstæður eða innan um og framan við grænan og ljósari gróður. Virðist þola klippingu vel. Millibil 2,5/3 m eða meir. Heimkynni: Stór svæði í N-Ameríku. Aðallega S-Kanada og norðanverð Bandaríkin. Dæmigerður villtur virginíuheggur hefur ekki purpurarauð laufblöð yfir sumartímann. Yrkið 'Canada Red' er upprunið frá Minnesota í Bandaríkjunum frá því fyrir árið 1985.
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Gömul tré hérlendis þroska stundum köngla. Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 3 m millibili. Úrvals jólatré enda barrheldið. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands. Blágreni þykir all gott timburtré og viðurinn sagður léttur en fremur sterkur. M.a. nýtt í ýmis hljóðfæri. Blágreni er fyrst og fremst háfjallatré. Heimkynni blágrenis eru aðallega í Klettafjöllum og Fossafjöllum (Cascade Range) N-Ameríku. Vex þar víða upp að skógarmörkum. Myndar blendinga með hvít- (P. glauca) og sitkagreni (P. sitchensis) í heimkynnum sínum þar sem útbreiðslusvæði þessara tegunda skarast.
Sumareik – Quercus robur
Sumargrænt tré. Óvíst er hversu há sumareikin getur orðið hérlendis en sjálfsagt mun hún vaxa upp fyrir 12 m hæð með tímanum á góðum vaxtarstöðum. Gulir haustlitir. Visin lauf sitja gjarnan á ungum trjám fram á vor. Þarf nokkurt skjól í uppvextinum. Þolir hálfskugga. Þrífst best í þokkalega frjóum jarðvegi. Má vera grýttur. Gott er að stýra vexti með klippingu annars vilja sumar eikur verða runnavaxnar. Almennt talið harðgerðasta eikin hérlendis og sú sem mesta hefur verið gróðursett. Samt er sumareik ennþá fremur sjaldgæf í ræktun. Sumareik hentar helst stakstæð í grónum görðum og í rjóður í skógarreitum og sumarhúsalóðum. Þrífst ekki á köldum og vindasömum stöðum. Sumareik laufgast seint eða ekki fyrr en um miðjan júní.
Fjallaþinur – Abies lasiocarpa
Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga. Heimkynni: Fjalllendi í vestanverðri N-Ameríku.