Kirtilrifs – Ribes glandulosum
Harðgerður, jarðlægur, þekjandi runni. Hæð yfirleitt aðeins 30 – 40 sm. Stundum hærra ef það nær að fikra sig upp girðingar eða upp með öðrum gróðri. Brum rauð. Laufblöð handflipótt með yfirleitt 5 flipum. Allt að 8 (10) sm á breidd, um 6,5 sm á lengd og tvísagtennt. Hárlaus á efra borði en hærð á æðastrengjum á neðra borði. Blaðstilkur álíka langur og blaðkan og kirtilhærður neðst. Laufið er yfirleitt smærra en á hélurifsi og meira gljáandi. Laufgast í lok apríl – maí. Rauðir haustlitir. Blómin smá, fölgræn eða ljósbleik í klösum. Lítt áberandi. Rauð, kirtilhærð, æt ber þroskast strax í ágúst. Ögn smærri eða álíka stór og venjuleg rifsber.
Skuggþolið. Þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Blandið moltu eða gömlu taði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Getur þakið 1 fermeter á fáum árum. Hentar sem undirgróður undir trjám og runnum. Þrífst illa í of þurrum og ófrjóum jarðvegi. Millibil allt að 1 m. Má setja þéttar ef óskað er eftir því að það loki yfirborðinu sem allra fyrst.
Heimkynni: Alaska, Kanada, norðanverð Bandaríkin ásamt Appalasíufjöllum. Garðaberjaætt (Grossulariaceae)