Kjarrelri / Alpagrænelri – Alnus viridis subsp. viridis
Harðgerður, stór- og breiðvaxinn runni. Lágvaxnari í skriðum og áveðurs. Hæð 1 – 4 m. Álíka á breidd. Niturbindandi. Ljóselskt. Gerir litlar kröfur til jarðvegs enda dæmigerður frumherji. Forðist frostpolla. Hentar í raðir, þyrpingar, blönduð runnabeð og til uppgræðslu. Millibil 1,5 – 2 m. Hentar í skjólbelti og lítið klippt limgerði. Drjúpandi karlreklar birtast á vorin (maí). Kvenreklar minna á litla köngla. Kvenreklarnir sitja á greinunum allan veturinn. Blöð minni, kringlóttari og sléttari samanborið við blöð sitkaelris (A. sinuata). Einnig þéttvaxnara og með smágerðari rekla samanborið við sitkaelri. Grænt fram á haust og haustlitir lítið áberandi. Gerir engar sérstakar kröfur til jarðvegs. Kjarrelrið okkar er allt vaxið upp af íslensku fræi. Fræmæðurnar eru ættaðar frá Graubünden í Sviss. Heimkynni þessarar undirtegundar eru fjalllendi M-Evrópu ofan eiginlegra skógarmarka.