Körfuvíðir ‘Katrín’ – Salix viminalis ‘Katrín’
Harðgerður, hávaxinn runni (3 – 5 m). Laufið er áberandi mjólensulaga. Græn að ofan en silkihærð á neðra borði. Gulir haustlitir. Sólelskur. Þolir vel klippingu. Til að körfuvíðir þrífist þarf jarðvegurinn að vera frjór og sæmilega rakur. Sprotar og ungar greinar eru gulgrænar eða gulbrúnar. Fer sérlega vel við tjarnir og læki. All plássfrekur. Millibil þarf að minnsta kosti að vera 150 sm. Körfuvíðir ‘Katrín’ er hingað kominn frá grasagarðinum í Uppsölum, Svíþjóð. Jóhann Pálsson grasafræðingur tók þar græðlinga og flutti til landsins. Líklega kom víðirinn frá Pétursborg í Rússlandi til Uppsala. Því þótti Jóhanni við hæfi að skíra þennan kvenkyns klón ‘Katrínu’ í höfuðuð á Katrínu miklu keisaraynju.
Vörunr.
60fe5519bc0b
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Hélurifs ‘Lukka’ – Ribes laxiflorum ‘Lukka’
Harðgerður, lágvaxinn (30 - 50 sm), jarðlægur runni. Laufið handflipótt. Laufgast í apríl. Rauðir haustlitir birtast strax í ágúst. Rauðbrún blóm í klasa í maí. Blá, héluð, , hærð, æt ber þroskast í lok júlí eða í ágúst. Má nýta í sultu og fleira.
Hélurifs 'Lukka' þrífst í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Skuggþolið en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Hentar sem undirgróður undir trjám, í kanta, jaðra og þess háttar. Nóg er að planta 1 - 2 plöntum á fermetra. 'Lukka' er úrvalsyrki úr Lystigarði Akureyrar. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).
Sýrena ‘Villa Nova’ – Syringa ‘Villa Nova’
Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Blómin fjólubleik, mörg saman í stórum klasa, ilmandi. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Ein allra besta sýrenan. Fer vel stakstæð, aftarlega í blönduðum runna- og blómabeðum eða fleiri saman í þyrpingum eða röðum. Millibil 2 m. Ekki er nákvæmlega vitað um uppruna þessa yrkis. Sýrenan mun vera kennd við Vilhjálm Sigtryggsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Demantsvíðir ‘Flesja’ – S. pulchra ‘Flesja’
Harðgerður, alveg jarðlægur runni. Litlir gráloðnir reklar birtast seinni part vetrar. Laufið ljósgrænt, heilrennt og gljáandi. Axlablöð áberandi. Gulir haustlitir í september - október. Visin lauf sitja gjarnan á greinunum fram á vetur.
Hentar í hleðslur, kanta, ker o.þ.h. Sólelskur. Hentar því ekki sem undirgróður. Nægjusamur hvað varðar jarðveg. Úrvalsyrki úr Alaskaferð Óla Vals og félaga 1985.
Heimkynni tegundarinnar eru auk Alaska í Kanada og Rússlandi. Víðisætt (Salicaceae).
Þorrarunni ‘Dawn’ – Viburnum x bodnantense ‘Dawn’
Sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Ung lauf bronslituð. Þorrarunni blómgast að vetri til eða réttara sagt hann getur blómgast frá hausti og fram á vor. Blómin eru rauð í knúpp en bleik útsprungin mörg saman í sveip, ilmandi. Þolir vel hálfskugga. Þorrarunni er glæsilegur stakstæður en einnig fleiri saman í þyrpingu með um 1 m millibili. Þorrarunni virðist harðgerður á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fremur sjaldgæfur í ræktun enn sem komið er.
Skógarkvistur / Kóreukvistur ‘Finndís’ – Spiraea miyabei ‘Finndís’
Harðgerður, fremur lágvaxinn (0,5 - 0,8), þéttur runni. Stórir bleikir blómsveipir birtast síðsumars (ágúst - september) 'Finndís' blómstrar á enda árssprotans. Rauðgulir haustlitir. Þrífst vel í sæmilega frjórri, ekki of blautri garðmold. Skógarkvistur 'Finndís' hentar í ker, blönduð beð, raðir og þyrpingar. Millibil um 80 sm. Sólelskur en þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa skógarkvistinn niður um alla vega helming seinni part vetrar. Kenndur við Finndísi, Dilksnesi, Höfn. Ekki er óhugsandi að hér sé í raun um yrki af japanskvist (Spiraea japonica) að ræða. Vinsæll og talsvert útbreiddur skrautrunni hérlendis.
Þingvíðir – Salix viminalis ‘Þingvíðir’
All harðgerður stórvaxinn, hraðvaxta runni eða lítið tré. Hæð: 3 - 8 m. Greinar ólívugrænar. Sprotar rauðbrúnir. Blöð 10 - 15 sm og 2 - 3 sm á breidd og íbjúg. Silkihærð á neðra borði. Gulir haustlitir. Sólelskur. Reklar fremur smáir. Birtast snemma (feb. - mars). Þingvíðir þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Þingvíðir hentar stakstæður og í raðir og þyrpingar. Millibil 1 - 2 m. Þolir vel klippingu. Sagt er að um aldamótin 1900 hafi Tryggvi Gunnarsson (1835 - 1917) plantað þingvíði í garðinn við Alþingishúsið en Tryggvi bjó þann garð til og sinnti honum einkar vel á efri árum. Ekki er vitað hvaðan eða hvernig þingvíðirinn barst til landsins. Í páskahretinu 1963 dó mikið af þingvíði á sunnan og vestanverðu landinu en á þeim tíma var hann algengur í ræktun. Í dag finnast stöku runnar hér og þar í görðum og skógarreitum um mest allt land. Jóhann Pálsson grasafræðingur telur þennan körfuvíðiklón ættaðan frá norðanverðum Úralfjöllum eða N-Síberíu.