Kristsþyrnir ‘Alaska’ – Ilex aquifolium ‘Alaska’
Sæmilega harðgerður, sígrænn, þéttur, hægvaxta runni eða lítið tré. Vaxtarlagið breiðkeilulaga. Hefur náð um 3 m hæð hérlendis. Getur sjálfsagt orðið hærri með tímanum á góðum stöðum. Laufin eru stíf viðkomu, dökkgræn að ofanverðu með bylgjaðan og þyrnóttan blaðjaðar. Blómin smá, hvít, ilmandi, mörg saman fyrri part sumars. Aldinið rautt, óætt ber eða réttara sagt steinaldin.
‘Alaska’ er sjálffrjóvgandi þýskt yrki frá því um 1960. Sé karlplanta í grennd getur það þó aukið aldinmyndun. Einn harðgerðasti kristsþyrnirinn. Kristsþyrnir þrífst aðeins í skjólgóðum görðum. Þolir vel að vaxa í hálfskugga t.d. í skógarskjóli hærri trjáa og runna. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Þrífst í allri venjulegri, rakaheldinni garðmold, þó ekki í blautum jarðvegi. Gerar engar sérstakar kröfur til sýrustigs jarðvegs. Þolir ágætlega klippingu. Klippið helst síðvetrar ef þörf er á. Tegundin kristsþyrnir (I. aquifolium) vex villt víða í Evrópu, NV-Afríku og Litlu-Asíu. Kristþyrnisætt (Aquifoliaceae).