Krosshnappur – Glechoma hederacea
Harðgerð, jarðlæg fjölær, sígræn, þekjandi jurt. Laufið gjarnan rauðbrúnleitt. Laufið er ætt. Blómin fjólublá miðsumars. Þolir hálfskugga. Ilmandi. Þrífst best í frjóum, niturríkum, sæmilega rökum jarðvegi. Hentar sem þekjuplanta t.d. undir trjám, í ker og potta og þess háttar. Dreifir sér með jarðstönglum. Heimkynni: Evrasía.
Vöruflokkar: Fjölærar jurtir, Þekjuplöntur
Tengdar plöntur
Postulínsblóm / Skuggasteinbrjótur – Saxifraga x urbium
Harðgerð, lágvaxin fjölær jurt. Hæð 15 - 30 sm. Laufblöðin sitja í jarðlægum hvirfingum sem smám saman bætist við. Blöðin leðurkennd, hálfsígræn, stilkuð, spaðalaga eða öfugegglaga og bogtennt. Blómin smá, stjörnulaga, fölbleik, mörg saman í uppréttum, gisnum klösum. Blómstilkar rauðleitir.
Postulínsblóm er skuggþolið. Hentar í hleðslur, steinhæðir og ker. Prýðis þekju- og kantplanta. Þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Þarf ekki djúpan jarðveg. Vinsælt og algengt í görðum hérlendis.
Yrkið 'Aureopunctata' hefur gulflekkótt laufblöð. Eigum það gjarnan til og er það ekki síður harðgert.
Postulínsblóm er talið vera garðablendingur á milli hins eiginlega skuggasteinbrjóts (Saxifraga umbrosa) og spaðasteinbrjóts (S. spathularis). Steinbrjótsætt (Saxifragaceae).
Regnhlífarblóm / Skjaldsteinbrjótur – Darmera peltata
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 1,5 m. Blómgast fyrir laufgun í maí. Blómin eru ljósrauð í hvelfdum sveip á allt að 1,5 m háum blómstöngli. Blöðin eru fremur stór, gljáandi, skjaldlaga og birtast eftir blómgun í júní. Rauðir haustlitir. Þrífst best í rökum og frjóum jarðvegi t.d. við læki og tjarnir. Skuggþolið. Dreifir sér rólega út með neðanjarðarrenglum. Regnhlífarblóm er ættað frá Óregon og Kaliforníu. Fremur sjaldgæft hérlendis.
Skessujurt – Levisticum officinale
Harðgerð, hávaxin, fjölær jurt. Hæð: 1,5 - 2 m. Laufblöð þrífjöðruð. Skessujurt hefur lengið verið nýtt sem mat- og lækningajurt. Blómin eru gulgræn í sveip í júlí - ágúst. Þrífst best í rakaheldnum, frjósömum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Náttúruleg heimkynni eru ekki nákvæmlega þekkt. Skessujurt vex í dag víða villt í Evrópu og Asíu. Ilmur og bragð minna á sellerí og steinselju en skessujurt er bragðmeiri. Blöð og unga stöngla má nota í salat og súpur. Einnig má nýta rótina sem grænmeti. Fræ skessujurtar má nota sem krydd. Bragðið heldur sér vel við þurrkun. Skessujurt er góð í kryddsmjör og með bökuðum kartöflum. Skessujurt gengur stundum undir nafninu "maggijurt" samanber "maggiurt" á dönsku og "Maggikraut" á þýsku þar sem bragð minnir á frægar pakkasúpur og súputeninga. Skessujurt hentar til gróðursetningar aftarlega í beð, í skógarjaðra eða í horn til uppfyllingar t.d. í hálfskugga. Frekar nytjajurt en skrautjurt.
Álfakollur – Betonica macrantha
Harðgerð, meðalhá, fjölær jurt. Hæð um 50 sm. Laufblöðin eru egglaga til hjartalaga og bogtennt. Blómin fjólublá í krönsum í júlí til ágúst. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Breiðir smám saman úr sér. Álfakollur fer vel í blönduðum beðum með öðrum fjölærum jurtum eða margir saman í breiðum. Millibil við gróðursetningu um 70 sm. Getur einnig vaxið hálfvilltur við litla umhirðu í frjóu landi. Eldra og þekktara fræðiheiti er Stachys macrantha. Heimkynni: Kákasus, NA-Tyrkland og NV-Íran.
Graslaukur – Allium schoenoprasum
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 35- 40 sm. Blöð og blóm má nota í mat. Blöð eru gjarnan notuð í eggjakökur, súpur og í fisk- og kartöflurétti. Hálfopnuð blómin henta í salat til að gefa bragð og til skrauts. Blómgast rauðfjólubláum, blómum í kúlulaga blómskipun í júní sem innihalda mikið af blómasafa og eru því hentug sem fæðulind fyrir humlur og aðrar býflugur. Graslaukur vex upp af litlum laukum. Graslaukur er auðræktaður í allri venjulegri garðmold á sólríkum stöðum. Blandið gjarnan gömlum búfjáráburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Einnig er tilvalið að setja moltu í kringum eldri plöntur að vori. Þó að graslaukur laði að hunangsflugur er hann almennt talinn fæla í burt ýmis skordýr sem sníkja á plöntum sökum brennisteinssambanda sem í honum eru. Er því gjarnan notaður t.d. inn á milli matjurta og annarra plantna til að fæla í burt sníkjudýr sem leggjast á mat- og skrautjurtir. Vex villtur víða í Evrópu, Asíu og N-Ameríku.
Randagras – Phalaris arundinacea var picta
Harðgert skrautgras. Hæð: 1,5 m eða meir. Blöð áberandi hvítröndótt. Ögn fjólublár punturinn vex upp fyrir grasið síðsumars. Mjög skriðullt. Vex best í frjóum og rökum jarðvegi. Fer vel í þyrpingum og röðum t.d. á opnum svæðum, við tjarnir o.þ.h. Einnig kjörið í stóra potta/ker. Vökvið reglulega. Þolir hálfskugga. Heimkynnir: Evrasía og víðar.