Lækjavíðir ‘Blika’ – Salix arbusculoides ‘Blika’
Harðgerður, fremur hraðvaxta, hávaxinn runni eða margstofna tré. Hæð 3 – 6 m. Sprotar grannir, dökkrauðbrúnir og gljáandi. Laufblöð lensulaga – mjósporbaugótt, ydd í báða enda og gljándi á efra borði. Ljósari og gjarnan aðeins hærð að neðan. Laufin eru allt að 7,5 sm löng og kirtiltennt. Er með axlarblöð sem falla fljótt. Haustlitur gulur.
Sólelskur. Þolir vel klippingu. Laus við asparglyttu og ryð. Þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi sem má gjarnan vera sand- og malarborinn. Lækjavíðir ‘Blika’ hentar vel í klippt limgerði. Einnig fer hann vel í þyrpingar og við læki og tjarnir. 2 – 3 stk/m henta í limgerði. Meira bil þarf að gefa þegar lækjavíðir er gróðursettur í þyrpingar eða stakur eða um 1,5 m. Lækjavíðir ‘Blika’ hentar ekki á mjög vindasama staði t.d. úti við ströndina. Þá henta jörfavíðir (S. hookeriana) og alaskavíðir (S. alaxensis) betur.
‘Blika’ er úrvalsyrki valin úr efniviði úr Alaskaferð Óla Vals og félaga árið 1985. Henni var safnað nálægt Port Alsworth við Clark stöðuvatnið sunnarlega í vesturhluta Alaska. Heimkynni lækjarvíðis eru annars auk Alaska, stærstur hluti Kanada. Lækjavíðir vex aðallega inn til landsins meðfram ám og lækjum. Víðisætt (Salicaceae).