Lárheggur ‘Herbergii’ – Prunus laurocerasus ‘Herbergii’
Fremur viðkvæmur, , þéttur, sígrænn, lágvaxinn runni. Laufið heilrennt, dökkgrænt og gljáandi. Blómin hvít í klösum fyrri part sumars. Þrífst aðeins í góðu skjóli í frjóum rakaheldum, gjarnan aðeins súrum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Mjög hægvaxta. Hentar í blönduð beð með t.d. lyngrósum og öðrum sígrænum runnum. Sjaldgæfur hérlendis enda ekki öruggur í ræktun.
Vöruflokkur: Sígrænir runnar og sígræn smátré
Tengdar plöntur
Sabínueinir – Juniperus sabina
All harðgerður, sígrænn, þéttur, lágvaxinn runni. Hæð: 40 - 80 sm. Barrið smágert, blásilfrað. Sólelskur en þolir hálfskugga. Þrífst í vel framræstri, venjulegri garðmold. Sæmilega þekjandi. Yfirleitt sérbýll. Hentar fremst í beð með sígrænum gróðri, í hleðslur, steinhæðir og ker. Þrífst ekki á algerum berangri. Eitraður sé hans neytt. Heimkynni: Fjalllendi mið- og S-Evrópu og í NV-Asía.
Fjallafura / Dvergfura – Pinus mugo
Mjög harðgerður, lágvaxinn - meðalhár, sígrænn runni. Nálar dökkgrænar, 2 saman í búnti. Karlblóm ljósrauð, mörg saman neðst á árssprotum. Síðar rauðbrún. Könglar fremur smáir. Getur orðið talsvert breið. Til að halda fjallafuru þéttri borgar sig að brjóta til hálfs framan af brumun á greinaendum í kringum jónsmessuleytið. Fjallafura gerir litlar kröfur til jarðvegs. Fjallafura er sólelsk og hentar ekki sem undirgróður undir trjám. Fjallafura fer vel í blönduð beð með öðrum gróðri, nokkrar saman í þyrpingu með um 80 - 90 sm millibili. Einnig í stórgerðar hleðslur, ker og á opin svæði. Skýlið fjallafura alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög opnum og skjóllausum stöðum eins og í kringum háar byggingar o.þ.h. Smávaxin/fínleg fjallafura er gjarnan kölluð "dvergfura". Í raun er um stömu tegund að ræða. Fjallafura/dvergfura er mjög vinsæl og útbreidd í görðum og útivistarskógum. Fjallafuran okkar í Þöll er öll vaxin upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis eins og t.d. í Rauðvatnsstöðinni í Rvk, Gráhelluhrauni í Hfj og víðar. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og SA-Evrópu. Myndar blendinga með bergfuru (P. uncinata) þar sem útbreiðslusvæði tegundanna skarast í vestanverðum Ölpunum.
Tindalyngrós ‘Colibri’ – Rhododendron yakushimanum ‘Colibri’
Lágvaxinn, sígrænn, þéttur, hægvaxta, hálfkúlulega runni. Hæð 50 - 100 sm. Blómin rauðbleik í knúpp en fagurbleik útsprungin. Blómgast í lok maí og fram í júní. Skjólþurfi. Þolir hálfskugga.
Gróðursetjið í mómold blandaðri gömlu hrossataði og furunálum. Vökvið vel eftir gróðursetningu og næstu daga á eftir. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Gott er að þekja lyngrósabeð með trjákurli. Berið á um eina teskeið af blönduðum garðáburði í kringum plöntuna í maí en ekki meira það árið.
Hentar framarlega í beði með öðrum lyngrósum, lyngi og öðrum sígrænum runnum. Tindalyngrósir (R. degronianum ssp. yakushimanum) eru almennt talið harðgerðari en flestar aðrar lyngrósir. Heimkynni þeirra eru á japönsku eyjunni Yakushima.
Einir – Juniperus communis – Undirhlíðar-Hfj
Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (30 - 120 sm). Ýmist jarðlægur eða hálfuppréttur. Sérbýll. Kvenplöntur þroska einiber á tveimur árum. Þau má nýta í matargerð. Sólelskur. Hægvaxta. Einir hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Einnig í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum. Jarðlæg yrki nokkuð þekjandi. Vex villtur víða um land.
Kanadalífviður ‘Brabant’ – Thuja occidentalis ‘Brabant’
Sæmilega harðgert, hægvaxta, þétt, upprétt, sígrænt tré. Hæð 3 - 4 m eftir 15 ár. Getur sjálfsagt náð 5 - 7 m hæð á bestu stöðum með tímanum. Breidd 1 - 1,5 m fyrstu 15 árin. Barrið hreisturkennt, grænt en gjarnan brúnleitara sérstaklega á greinaendum á veturna. Barrið ilmar sé það klippt eða nuddað. Könglar smáir, aflangir. Börkur rauðbrúnn og flagnar með tímanum af í strimlum.
'Brabant' er talið eitt harðgerðasta yrkið af lífvið til ræktunar hérlendis. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Hentar í gróna, skjólgóða garða. Kanadalífviður 'Brabant' hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig fyrir innan skjólgirðingar og þess háttar. Hentar í ker/potta þar sem er gott skjól annars sviðnar barrið illa og plantan veslast upp.
Erlendis er 'Brabant' hvað mest gróðursettur í limgerði. Þrífst í allri sæmilega frjórri, vel framræstri garðmold. Hollenskt yrki frá níunda áratug síðustu aldar. 'Brabant' er af sumum talinn vera blendingur kanada- og risalífviðar (T. plicata).
Ljósalyng ‘Compacta’ – Andromeda polifolia ‘Compacta’
Fremur harðgerður, lágvaxinn dvergrunni. Laufin eru smá, mjó og þykk. Blaðjaðrar eru niðurorpnir. Neðra borð blaða hvítloðið. Blómin eru smá, klukkulaga, nokkur saman á stöngulendum, hvít eða bleik. Ljósalyng vex villt í mosa-mýrum/deiglendi í fremur súrum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Hentar í rakan eða jafnvel blautan jarðveg. Þrífst þó í framræstum en rakaheldnum jarðvegi. Hentar sem kantplanta eða milligróður innan um lyngrósir og lágvaxna barrviði í lífrænum, ögn súrum jarðvegi. Gott er að dreifa trjákurli í kring um ljósalyng til að halda jöfnum raka. Skýlið fyrsta veturinn eftir gróðursetningu nema að staðurinn sé skjólsæll. Ljósalyng finnst villt á örfáum stöðum á Austurlandi. Fannst fyrst hérlendis árið 1985. Annars eru heimkynni ljósalyngs víða á norðurhveli. Ljósalyng er eitrað sé þess neitt. Vísbendingar eru um að ljósalyng geti þrifist í jarðvegi sem ekki er sélega súr nú rakur!