Lindifura – Pinus sibirica – Mörkin, Hallormsstað
Harðgert, sígrænt, hægvaxta, meðalstórt – stórvaxið tré. Hefur náð um 15 m hæð hérlendis á 80 árum. Nálar 5 saman í knippi, grágrænar, mjúkar. Sprotar þétt hærðir af mjúkum rauðgulum hárum. Stórir könglar sem eru í fyrstu dökk-fjólubláir. Sólelsk en þolir hálfskugga. Þarf nokkurt skjól. Þroskar stóra köngla með ætum fræjum þegar hún hefur aldur til. Lindifura þrífst best inn til landsins og inn til dala en síður nálægt ströndinni. Þrífst best í sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Virðist annars ekki gera sérstakar kröfur til jarðvegs. Finnst aðallega hérlendis í skógarreitum og trjálundum. Eftirsótt sem jólatré og jólagreinar en framboð er takmarkað enn sem komið er. Lindifura er fallegust stakstæð eða nokkrar saman með að minnsta kosti 3 m millibili. Ungar plöntur má setja mun þéttar t.d. saman með öðrum sígrænum gróðri í blönduð beð og færa svo seinna meir eða brjóta brumin í júní og rækta áfram sem runna eða smátré. Lindifuran okkar er öll vaxin upp af fræi af gömlu lindifurunum í Mörkinni á Hallormsstað. Sáir sér þar út af sjálfsdáðum. Líkist mjög sembrafuru (Pinus cembra) sem vex í Ölpunum og Karpatafjöllum. Heimkynni lindifura eru í Síberíu og Mongólíu.