Hesli – Corylus avellana – kvæmi: frönsku Alparnir
Sumargrænn runni. Óvíst er hversu hávaxið hesli getur orðið hérlendis en nú þegar eru til um 2 m háir runnar á höfuðborgarsvæðinu og ef til vill víðar. Hesli blómgast snemma vors. Blómin minn á rekla birkis (Betula spp.) og elris (Alnus spp.) enda er hesli af bjarkætt (Betulaceae). Hesli er tvíkynja en vissara er að hafa fleiri runna saman til að tryggja frævun og síðan frjóvgun. Óvíst er hvort heslihnetur nái að þroskast hérlendis þó það sé ekki ósennilegt í góðu árferði á hlýjum stöðum. Hesli þrífst best í rakaheldnum og steinefnaríkum jarðvegi. Þolir hálfskugga.
Vöruflokkar: Ávaxtatré og berjarunnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Þráðsýprus / Ertusýprus ‘Filifera’ – Chamaecyparis pisifera ‘Filifera’
Sígrænn hægvaxta breiðkeilulaga runni eða smátré. Hæð 1,5 m hérlendis. Getur hugsanlega orðið hærri með tímanum í skjólgóðum görðum. Barrið hreisturkennt og gulgrænt á lit. Greinarendar slútandi, þráðmjóir. Þráðsýprus hentar í skjólgóða garða í sæmilega frjóum, rakaheldnum, framræstum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Hefur reynst ágætlega í pottum í skjóli. Tegundin er ættuð frá Japan.
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Úrvals jólatré. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands.
Alaskaepli – Malus fusca
Harðgert, lágvaxið tré (3 - 6 m). Blómin hvít í sveipum fyrri part sumars. Aldinið lítið gulgrænt - rauðleitt, ætt epli á stærð við vínber. Þroskar yfirleitt aldin á hverju ári. Rauðir haustlitir. Þolir vel klippingu. Stundum ber á rótarskotum. Alaskaepli fer vel stakstætt eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Alaskaepli hentar vel í klippt limgerði. Greinar alaskaeplis eru áberandi harðar/stífar. Alaskaepli er harðgerðasta villiepli fyrir íslenskar aðstæður sem völ er á. Við framleiðum eingöngu alaskaepli af íslensku fræi.
Kanadalífviður ‘Brabant’ – Thuja occidentalis ‘Brabant’
Sæmilega harðgert, hægvaxta, þétt, upprétt, sígrænt tré. Hæð 3 - 4 m eftir 15 ár. Getur sjálfsagt náð 5 - 7 m hæð á bestu stöðum með tímanum. Breidd 1 - 1,5 m fyrstu 15 árin. Barrið hreisturkennt, grænt en gjarnan brúnleitara sérstaklega á greinaendum á veturna. Barrið ilmar sé það klippt eða nuddað. Könglar smáir, aflangir. Börkur rauðbrúnn og flagnar með tímanum af í strimlum. 'Brabant' er talið eitt harðgerðasta yrkið af lífvið til ræktunar hérlendis. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Hentar í gróna, skjólgóða garða. Kanadalífviður 'Brabant' hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig fyrir innan skjólgirðingar og þess háttar. Hentar í ker/potta þar sem er gott skjól annars sviðnar barrið illa og plantan veslast upp. Erlendis er 'Brabant' hvað mest gróðursettur í limgerði. Þrífst í allri vel framræstri garðmold. Hollenskt yrki frá níunda áratug síðustu aldar. 'Brabant' er af sumum talinn vera blendingur kanada- og risalífviðar (Thuja plicata).
Einir – Juniperus communis – Undirhlíðar-Hfj
Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (30 - 120 sm). Ýmist jarðlægur eða hálfuppréttur. Sérbýll. Kvenplöntur þroska einiber á tveimur árum. Þau má nýta í matargerð. Sólelskur. Hægvaxta. Einir hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Einnig í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum. Jarðlæg yrki nokkuð þekjandi. Vex villtur víða um land.
Bjarmasýrena ‘Valkyrja’ – Syringa wolfii ‘Valkyrja’
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Blómin lillableik, ilmandi í klösum. Lágvaxnari en aðrar sýrenur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Nýtur sín vel stakstæð eða fleiri saman í þyrpingu með um 120 sm millibili. Hentar einnig í stóra potta. Kettir sækja talsvert í Bjarmasýrenu 'Valkyrju' og geta eyðilagt hana meðan hún er ung. Því borgar sig að setja girðingu/net utan um nýgróðursettar plöntur og hafa það í kring fyrstu árin þar sem mikið er um ketti. 'Valkyrja' er úrval úr Grasagarði Reykjavíkur.
Bjarkeyjarkvistur – Spiraea chamaedryfolia
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 m). Laufið matt, óreglulega tennt. greinar ljósbrúnar, áberandi hlykkjóttar. Blómin hvít í sveip. Fræflar skaga upp fyrir krónublöðin. Blómgast miðsumars eða fyrir mitt sumar í lok júní og fram í júlí. Gulir og rauðir haustlitir. Bjarkeyjarkvistur hefur aðeins skriðullt rótarkerfi. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í runnaþyrpingar, raðir og undir stórum trjám. Millibil um 80 sm.