Hesli – Corylus avellana – kvæmi: frönsku Alparnir
Sumargrænn runni. Óvíst er hversu hávaxið hesli getur orðið hérlendis en nú þegar eru til um 2 m háir runnar á höfuðborgarsvæðinu og ef til vill víðar. Hesli blómgast snemma vors. Blómin minn á rekla birkis (Betula spp.) og elris (Alnus spp.) enda er hesli af bjarkætt (Betulaceae). Hesli er tvíkynja en vissara er að hafa fleiri runna saman til að tryggja frævun og síðan frjóvgun. Óvíst er hvort heslihnetur nái að þroskast hérlendis þó það sé ekki ósennilegt í góðu árferði á hlýjum stöðum. Hesli þrífst best í rakaheldnum og steinefnaríkum jarðvegi. Þolir hálfskugga.
Vöruflokkar: Ávaxtatré og berjarunnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Flosvíðir – Salix × dasyclados
Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Laufið lensulaga. Minnir á körfuvíði (Salix viminalis) en grófgerðari. Sprotar áberandi loðnir. Karlkynsklónn með fallegum silfurloðnum reklum strax í febrúar/mars með bleikum blæ. Gulir frjóhnappar birtast í mars / apríl. Þrífst best í frjóum, rökum jarðvegi t.d. við læki og tjarnir. Einnig góður í runnaþyrpingar og jafnvel skjólbelti. Fallegastur sé hann klipptur / sagaður niður reglulega.
Bersarunni – Viburnum edule
Harðgerður, meðalhár, sumargrænn runni (1,5 - 2,5 m). Laufin sitja gagnstætt á greinunum og eru gjarnan þrí-sepótt. Óreglulega tennt. Brum áberandi rauð. Rauðir og bleikir haustlitir. Blómin hvít - bleik í litlum sveipum. Rauðgul, æt ber (steinaldin) þroskast að hausti. Hægvaxta eða í meðallagi hraðvaxta.
Skuggþolinn en fallegastir haustlitir og mest berjauppskera í fullri sól. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Bersarunni fer vel í blönduðum runnabeðum, röðum og þyrpingum. Millibil um 80 sm. Berin má nýta í sultur og þess háttar. Þau eru sögð rík af andoxunarefnum. Okkar bersarunnar eru allir vaxnir upp af fræi sem tínt er hérlendis. Íslenski efniviðurinn af bersarunna er trúlega allur frá Alaska. Heimkynni: Norðanverð N-Ameríka. Desjurtaætt (Adoxaceae).
Blátoppur ‘Þokki’ – Lonicera caerulea ‘Þokki’
Mjög harðgerður, þéttur, fremur hægvaxta runni. Laufið blágrænt, gagnstætt. Blómin smá, gulgræn og lítið áberandi. Aldinið blátt ber. Ekki talin góð til átu. Blátoppur 'Þokki' er skuggþolinn. Hentar í raðir, þyrpingar, limgerði og til uppfyllingar í skuggsæl horn og undir trjám. Lokar sér vel niður að jörð og heldur þannig niðri illgresi. Almennt heilbrigður. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Millibil í limgerði um 50 sm eða meir.
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’, ‘Haukur’ og ‘Súla’
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk.
'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd).
Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Gömul tré hérlendis þroska stundum köngla. Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 3 m millibili. Úrvals jólatré enda barrheldið. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands. Blágreni þykir all gott timburtré og viðurinn sagður léttur en fremur sterkur. M.a. nýtt í ýmis hljóðfæri. Blágreni er fyrst og fremst háfjallatré. Heimkynni blágrenis eru aðallega í Klettafjöllum og Fossafjöllum (Cascade Range) N-Ameríku. Vex þar víða upp að skógarmörkum. Myndar blendinga með hvít- (P. glauca) og sitkagreni (P. sitchensis) í heimkynnum sínum þar sem útbreiðslusvæði þessara tegunda skarast.
Alaskaepli – Malus fusca
Harðgert, fremur hægvaxta, lágvaxið tré eða runni (3 - 6 m). Laufin eru 5 - 8 sm á lengd egglaga eða sporöskjulaga. Óreglulega flipótt og sagtennt. Blómin hvít, ilmandi í sveipum fyrri part sumars. Aldinið lítið gulgrænt - rauðleitt, ætt epli á stærð við vínber. Þroskar yfirleitt aldin á hverju ári. Rauðir haustlitir. Þolir vel klippingu. Stundum ber á rótarskotum. Þrífst í allri venjulegri, rakaheldinni garðmold. Blandið moltu eða gömlum búfjáráburði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Alaskaepli fer vel stakstætt eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Alaskaepli hentar vel í klippt limgerði. Í limgerði er hæfilegt millibil um 70 sm. Greinar alaskaeplis eru harðar/stífar og dvergsprotar áberandi hvassir. Alaskaepli er harðgerðasta skrauteplið fyrir íslenskar aðstæður sem völ er á. Við framleiðum eingöngu alaskaepli af íslensku fræi. Aldin alaskaeplis má nýta í sultu- og hlaupgerð en þau eru rík af pektíni. Ekki er ósennilegt að alaskaepli nýtist sem frjógjafi fyrir matarepli (M. domestica) en erlendis er það þekkt að þar sem þessar tegundir vaxa saman mynda þær stundum blendinga (M. x dawsoniana). Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex það gjarnan í deiglendi og nálægt ströndinni.