Lyngrós ‘Cunningham’s White’ – Rhododendron ‘Cunningham’s White’
Yfirleitt fremur lágvaxinn runni (1 – 1,5 m). Laufin fremur stór, sígræn, heilrennd. Blómin stór, trektlaga í krans í lok maí – júní. Bleik í knúpp en hvít útsprungin með ljósum dröfnum. Þrífst best í skógarskjóli og grónum görðum. Gerir ekki sérstakar kröfur til sýrustigs jarðvegs. Þrífst vel í mómold. Blandið furunálum og veðruðu hrossataði í holuna við gróðursetningu. Skýlið afmarkað fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Berið smávegis af tilbúnum áburði árlega á vorin. Gott er að raka laufi að lyngrósum að hausti. Þolir vel hálfskugga. Ein auðveldasta lyngrósin í ræktun og tilvalin fyrir byrjendur í lyngrósaræktun. Ranabjalla getur verið vandamál.
Vörunr.
2722d3594d07
Vöruflokkar: Lyngrósir, Sígrænir runnar og sígræn smátré
Tengdar plöntur
Fjallaþöll – Tsuga mertensiana – Íslensk kvæmi
Lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Stundum aðeins runni. Gjarnan runnkennd framan af ævinni. Barrið dökk-blágrænt. Aðeins ljósara að neðan. Könglar meðalstórir, tunnulaga, rauðbrúnir - brúnir. Skuggþolin. Hægvaxta og talsvert hægvaxnari samanborið við marþöll (T. heterophylla). Þrífst vel á Hallormsstað og í Skorradal. Þroskar reglulega fræ þar. Ágætis eintök af fjallaþöll finnast á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fjallaþöll er falleg í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri. Einnig gróðursett undir skerm í skógi. Heimkynni fjallaþallar eru vesturströnd N-Ameríku allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex hún aðallega til fjalla á svölum, úrkomusömum stöðum. Vel aðlöguð snjóþyngslum.
Einir ‘Holger’ – Juniperus ‘Holger’
All harðgerður, sígrænn, lágvaxinn, hægvaxta, þekjandi runni (50 sm á hæð). Barrið á nýjum sprotum ljósgult síðan gráblátt. Sólelskur. Hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Ekki eins harðgerður og himalajaeinir 'Meyeri'. Yrkið 'Holger' mun vera blendingur garðaeinis (J. x media 'Pfitzeriana Aurea') og himalajaeinis (J. squamata 'Meyeri'). Úr smiðju Holger Jensen, Svíþjóð frá árinu 1946.
Hélubroddur ‘Jytte’ – Berberis candidula ‘Jytte’
All harðgerður, þéttur, sígrænn, hægvaxta, lágvaxinn skrautrunni (50 - 100 sm). Greinar mikið þyrnóttar. Laufið oddbaugótt, dökkgrænt og gljándi á efra borði. Laufið er aftur á móti "hvíthélað" að neðan. Gjarnan ber á roða í laufinu yfir vetrarmánuðina. Blómin gul, smágerð, drjúpandi og ilmandi fyrri part sumars. Aldinið svarblátt ber. Þolir hálfskugga. Þarf þokkalegt skjól. Þrífst í fullri sól og hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri og jafnvel í ker í góðu skjóli. Gæti hentað í lágvaxin limgerði í grónum görðum. Millibil um 80 sm en allt niður í 50 sm í limgerðum. Náttúruleg heimkynni hélubrodds eru í Kína. Mítursætt (Berberidaceae).
Fjallafura / Dvergfura – Pinus mugo
Mjög harðgerður, lágvaxinn - meðalhár, sígrænn runni. Nálar dökkgrænar, 2 saman í búnti. Karlblóm ljósrauð, mörg saman neðst á árssprotum. Síðar rauðbrún. Könglar fremur smáir. Getur orðið talsvert breið. Til að halda fjallafuru þéttri borgar sig að brjóta til hálfs framan af brumun á greinaendum í kringum jónsmessuleytið. Fjallafura gerir litlar kröfur til jarðvegs. Fjallafura er sólelsk og hentar ekki sem undirgróður undir trjám. Fjallafura fer vel í blönduð beð með öðrum gróðri, nokkrar saman í þyrpingu með um 80 - 90 sm millibili. Einnig í stórgerðar hleðslur, ker og á opin svæði. Skýlið fjallafura alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög opnum og skjóllausum stöðum eins og í kringum háar byggingar o.þ.h. Smávaxin/fínleg fjallafura er gjarnan kölluð "dvergfura". Í raun er um stömu tegund að ræða. Fjallafura/dvergfura er mjög vinsæl og útbreidd í görðum og útivistarskógum. Fjallafuran okkar í Þöll er öll vaxin upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis eins og t.d. í Rauðvatnsstöðinni í Rvk, Gráhelluhrauni í Hfj og víðar. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og SA-Evrópu. Myndar blendinga með bergfuru (P. uncinata) þar sem útbreiðslusvæði tegundanna skarast í vestanverðum Ölpunum.
Fagurlim / Búxus – Buxus sempervirens
Þéttur, sígrænn, hægvaxta, lágvaxinn runni hérlendis (50 - 150 sm). Laufið heilrennt, smágert. Skuggþolið. Þrífst í grónum hverfum í venjulegri garðmold. Tæplega ræktanlegt inn til landsins. Vinsælt í ker og blönduð beð með sígrænum gróðri. Þolir mjög vel klippingu og gjarnan mótað til í kúlur, keilur og fleiri form. Fremur viðkvæmt. Með allra hægvöxnustu runnum hérlendis!
Kanadalífviður ‘Brabant’ – Thuja occidentalis ‘Brabant’
Sæmilega harðgert, hægvaxta, þétt, upprétt, sígrænt tré. Hæð 3 - 4 m eftir 15 ár. Getur sjálfsagt náð 5 - 7 m hæð á bestu stöðum með tímanum. Breidd 1 - 1,5 m fyrstu 15 árin. Barrið hreisturkennt, grænt en gjarnan brúnleitara sérstaklega á greinaendum á veturna. Barrið ilmar sé það klippt eða nuddað. Könglar smáir, aflangir. Börkur rauðbrúnn og flagnar með tímanum af í strimlum.
'Brabant' er talið eitt harðgerðasta yrkið af lífvið til ræktunar hérlendis. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Hentar í gróna, skjólgóða garða. Kanadalífviður 'Brabant' hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig fyrir innan skjólgirðingar og þess háttar. Hentar í ker/potta þar sem er gott skjól annars sviðnar barrið illa og plantan veslast upp.
Erlendis er 'Brabant' hvað mest gróðursettur í limgerði. Þrífst í allri sæmilega frjórri, vel framræstri garðmold. Hollenskt yrki frá níunda áratug síðustu aldar. 'Brabant' er af sumum talinn vera blendingur kanada- og risalífviðar (T. plicata).