Mánakvistur – Spiraea ‘Máni’
Harðgerður, þéttur, meðalhár, all hraðvaxta runni. Hæð 1,5 – 2,0 m. Blómin hvít í sveip miðsumars. Rauðgulir haustlitir. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Minnir talsvert á sunnukvist (Spiraea nipponica) en greinar mánakvists eru ekki eins bogsveigðar og á sunnukvist. Mánakvistur sómir sér vel í blönduðum runna- og blómabeðum og í röðum/limgerðum og þyrpingum. Millibil um 80 – 100sm. Mánakvistur er all algengur á opnum svæðum í Rvk og í görðum á höfuðborgarsvæðinu og sjálfsagt víðar. Mánakvisturinn sem hér er í ræktun kom frá Grasagarðinum í Rvk. Hann óx upp af fræi frá háskólagrasagarðinum í Rostock í Þýskalandi á áttunda áratug síðustu aldar. Fræið kom undir heitinu Spiraea uratensis. Mánakvisturinn virðist ekki vera ekta S. uratensis og er hann því skráður sem Spiraea ‘Máni’ enda líklega um blendingstegund að ræða.