Meyjarós / Hæðarós ‘Highdownensis’ – Rosa moyesii ‘Highdownensis’
Fremur harðgerð, hávaxin runnarós. Hæð: 3 – 4 m. Greinar fyrst uppréttar. Síðan útsveigðar. Laufin stakfjöðruð. 9 – 11 smáblöð. Dökkgræn og mött á efra borði. Blaðstilkar þyrnóttir. Greinar og sprotar þyrnótt. Blómin all stór, einföld, rauðbleik. Daufur ilmur. Blómgast í júlí – ágúst. Krónublöðin ljósari neðst. Gulir fræflar. Þroskar rauðgular, flöskulaga nýpur á haustin sem standa fram á vetur. Sólelsk.
Meyjarós ‘Highdownensis’ fer vel stakstæð eða aftarlega í runna- og blómabeðum. Plássfrek. Mætti nota sem klifurrós á vegg. Getur einnig prílað upp tré. Þrífst í sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Má gjarna vera sand- og malarborinn.
‘Highdownensis’ er ættuð frá F.C. Stern frá árinu 1928 og kennd við garð hans, Highdownensis, Sussex, Englandi. ‘Highdownensis’ er ýmist talin vera meyjarós eða meyjarósarblendingur (R. x highdownensis) þar sem hitt foreldrið er óþekkt. Náttúruleg heimkynni meyjarrósar eru í V-Kína. Rósaætt (Rosaceae).