Möndluvíðir – Salix triandra
All harðgerður runni. Hæð 2 – 4 m. Lauf 5 – 10 sm á lengd, lensulaga, hárlaus, sagtennt, græn að ofan, ljósgræn að neðan. Axlarblöð áberandi, langæ. Laufblöðin gjarnan áberandi hangandi á sprotunum. Gulur haustlitir. Sprotar nánast hárlausir og fremur grannir. Greinar gjarnan samofnar og hlykkjóttar. Henta til skreytinga. Blómgast um það leyti sem hann laufgast seinni part maí eða í byrjun júní. Sólelskur.
Möndluvíðir hentar í raðir, þyrpingar og blönduð runnabeð. Millibil um 1 – 1,5 m. Vex best í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Þolir jafnvel blautan jarðveg. Sjaldgæfur hérlendis.
Erum gjarnan með kk og kvk yrki. Kk yrkið er ættað frá Haparanda, Svíþjóð sem stendur við Helsingjabotn. Það var Jóhann Pálsson fyrrverandi garðyrkjustjóri Rvk sem kom með græðlinga af því yrki til landsins á sínum tíma. Möndluvíðirinn okkar gæti verið af undirtegundinni S. triandra var. hoffmanniana en sú undirtegund er lágvaxnari, með áberandi samofnar greinar og með laufum sem eru ekki blá- eða gráleit á neðra borði samanborið við dæmigerðan möndluvíði sem er almennt hávaxnari og með beina sprota sem mikið eru notaðir til körfugerðar erlendis. Heimkynni: Evrópa, vestur og M-Asía. Víðisætt (Salicaceae).