Myrtuvíðir ‘Vala’ – Salix myrsinites ‘Vala’
Mjög harðgerður, þéttur, lágvaxinn (100 sm stundum hærri) runni. Laufið, smágert, dökkgrænt og gljáandi. Gullinbrúnt, visið laufið hangir á greinunum fram á vor. Vínrauðir reklar birtast á vorin. Sólelskur en annars nægjusamur. Vind- og saltþolinn. Myrtuvíðir hentar sérstaklega vel í þyrpingar, raðir, til klæða brekkur og þess háttar. Fer sérlega vel með loðvíði (S. lanata). Asparglytta sækir nokkuð í myrtuvíði. Asparglytta er síður vandamál á vindasömum stöðum. Vinsæll og útbreiddur hérlendis.
Vörunr. 3becafe470ff
Vöruflokkar: Runnar, Skógarplöntu-bakkar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Gullrifs – Ribes aureum
Meðalstór, fremur gisgreinóttur, all harðgerður runni. Laufið ljósgrænt, handflipótt. Rauðir haustlitir. Blómin gul í klösum, ilmandi. Berin æt en þroskast sjaldan hérlendis. Þolir hálfskugga. Sjaldgæft.
Bogsýrena – S. komarowii ssp. reflexa ‘Hólmfríður’
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 4 m). Blómin fyrst lillableik en síðan bleik í drjúpandi klösum, ilmandi. Blómgast miðsumars (júlí). Móðurtréið stendur í garðinum að Skúlaskeiði 32, Hafnarfirði þar sem Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson bjuggu lengst af. Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar ehf.
Sólbroddur ‘Laugardalur’ – Berberis thunbergii ‘Laugardalur’
Fremur harðgerður, þéttur, þyrnóttur, meðalstór runni. Hæð: 1,5 - 2,5 m. Nýtt lauf rauðleitt. Smá gul blóm. Sólelskur. Þolir vel klippingu. Skærrauðir haustlitir í október - nóvember. Þrífst best í venjulegri garðmold. Hentar í raðir, þyrpingar, í limgerði og stakstæður. Yrkið er fræplanta af B. thunbergii 'Golden Ring' að talið er sem sáð var til í Grasagarði Reykjavíkur, Laugardal. Vegna þess hve sólbroddur 'Laugardalur' heldur laufinu lengi fram eftir hausti hefur hann stundum ranglega verið talinn sígrænn. Einn allra útbreiddasti broddurinn (Berberis spp.) hérlendis.
Loðvíðir – Salix lanata – jarðlægur
Mjög harðgerður, íslenskur, lágvaxinn/jarðlægur runni. Lauf og sprotar eru gráloðin. Karlreklar eru fallega gulir og birtast í apríl - maí. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Vex villtur um land allt. Loðvíðir hentar í hleðslur, kanta, steinhæðir, ker og þess háttar. Jarðlægi loðvíðirinn okkar er karlkyns og seldur í stykkjatali í pottum.
Bogkvistur – Spiraea veitchii – Kristinn Guðsteinsson
Stórvaxinn (3 m) , þokkalega harðgerður runni. Blómin hvít í stórum sveipum. Blómgast síðsumars. Greinarnar vaxa í sveig. Þolir hálfskugga. Fer best stakstæður en hentar einnig í raðir, þyrpingar og blönduð beð. Gulir - rauðgulir haustlitir.
Þorrarunni ‘Dawn’ – Viburnum x bodnantense ‘Dawn’
Sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Ung lauf bronslituð. Þorrarunni blómgast að vetri til eða réttara sagt hann getur blómgast frá hausti og fram á vor. Blómin eru rauð í knúpp en bleik útsprungin mörg saman í sveip, ilmandi. Þolir vel hálfskugga. Þorrarunni er glæsilegur stakstæður en einnig fleiri saman í þyrpingu með um 1 m millibili. Þorrarunni virðist harðgerður á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fremur sjaldgæfur í ræktun enn sem komið er.
Ígulrós ‘Rosa Zwerg’ – Rosa rugosa ‘Rosa Zwerg / ‘Dwarf Pavement’
Harðgerð, fremur lágvaxin runnarós (100 - 130 sm). Blómin stór, tvöfölld, bleik og ilmandi. Rauðar stórar nýpur. Sólelsk. Rótarkerfið aðeins skriðullt. Vind- og saltþolin. Hentar í blönduð beð, raðir og þyrpingar með um 80 sm millibili. Þýskt yrki frá 1984 úr smiðju Karl Baum.
Bjarkeyjarkvistur – Spiraea chamaedryfolia
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 m). Laufið matt, óreglulega tennt. greinar ljósbrúnar, áberandi hlykkjóttar. Blómin hvít í sveip. Fræflar skaga upp fyrir krónublöðin. Blómgast miðsumars eða fyrir mitt sumar í lok júní og fram í júlí. Gulir haustlitir. Bjarkeyjarkvistur hefur aðeins skriðullt rótarkerfi. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í runnaþyrpingar, raðir og undir stórum trjám.