Piparmynta – Mentha x piperita
All harðgerð, fjölær jurt. Hæð um 35 – 60 sm. Ný lauf áberandi dökk-purpurarauð. Blómin lillablá. Birtast seint og stundum ekki. Ófrjór blendingur en skríður talsvert út með jarðrenglum. Ilmandi krydd- og tejurt. Þrífst best í frjósömum og rökum jarðvegi. Getur vaxið með rótarkerfið ofan í vatni við lækjarbakka. Þolir vel hálfskugga. Piparmynta er ómissandi hluti af matjurtagarðinum. Einnig tilvalinn til ræktunar í pottum. Þarf nægt vatn til að þrífast. Lauf og blóm eru nýtt fersk og þurrkuð.
Vöruflokkur: Fjölærar jurtir
Tengdar plöntur
Álfakollur – Betonica macrantha
Harðgerð, meðalhá, fjölær jurt. Hæð um 50 sm. Laufblöðin eru egglaga til hjartalaga og bogtennt. Blómin fjólublá í krönsum í júlí til ágúst. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Breiðir smám saman úr sér. Álfakollur fer vel í blönduðum beðum með öðrum fjölærum jurtum eða margir saman í breiðum. Millibil við gróðursetningu um 70 sm. Getur einnig vaxið hálfvilltur við litla umhirðu í frjóu landi. Eldra og þekktara fræðiheiti er Stachys macrantha. Heimkynni: Kákasus, NA-Tyrkland og NV-Íran.
Berghnoðri – Petrosedum rupestre
Harðgerð, lágvaxin, jarðlæg, sígræn jurt. Blaðbreiðan er aðeins nokkrir sm á hæð. Laufið smágert, um 1 sm á lengd, sívallt, blágrænt eða rauðleitt. Laufin sitja mjög þétt á blaðsprotum en gisnar og eru meira útsveigð á blómsprotum. Laufið minnir á barrnálar en mýkra. Blómsprotarnir vaxa upp í 15 - 20 sm hæð. Meðan blómstilkarnir eru að vaxa upp drjúpir blómskipunin en snýr svo upp þegar blómin opnast. Blómin eru skærgul, stjörnulaga, all stór í greinóttum, flötum eða svolítið hvelfdum hálfsveipum. Blómgast síðsumars og fram á haust.
Sólelskur. Þrífst best í þurrum, sendnum/grýttum jarðvegi. Hentar því best í steinhæðir, hleðslur, ker, lifandi þök o.þ.h. Hentar sem þekjuplanta þar sem er sólríkt, jarðvegur ekki of frjór og ekki ágengt illgresi fyrir. All hraðvaxta. Sagður ætur og notaður til manneldis sums staðar í Evrópu. Berghnoðri er betur þekktur undir fræðiheitunum Sedum reflexum og S. rupestre.
Heimkynni: Fjalllendi víða í Mið- og V-Evrópu. Hnoðraætt (Crassulaceae).
Fjallasveipur – Adenostyles alliariae
Harðgerð, stórvaxin jurt. Hæð í kringum 1,5 m. Blómin smá, lillablá, mörg saman í all stórum sveipum. Blómgast miðsumars (júlí og fram í ágúst). Þolir vel hálf skugga. Þrífst best í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Fjallasveipur hentar aftarlega í blómabeð. Þarf yfirleitt ekki uppbindingu. Millibil allt að 1 m. Heimkynni: Fjalllendi M-Evrópu.
Forlagabrúska ‘Hyacinthina’- Hosta fortunei ‘Hyacinthina’
Harðgerð, fjölær jurt. Stór, heilrennd, egglaga lauf. Gulir haustlitir. Ljóslilla blómklasar síðsumars. Hæð um 40 sm en blómklasar vaxa hærra upp. Skuggþolin. Breiðist rólega út. Þarf frjóa og jafnraka mold. Ein allra harðgerðasta brúskan. Talsvert þekjandi. Hentar sem undirgróður undir trjám, í skuggsæl horn og í blönduð blóma- og runnabeð. Millibil um 70 - 80 sm. Lauf og blaðstilkar á brúskum eru notuð í austurlenskri matargerð. Brúskur koma ekki upp úr jörðinni fyrr en í maílok eða í byrjun júní. Síðan vaxa þær hratt upp.
Silkibóndarós – Paeonia lactiflora
Fjölær jurt. Hæð: 75 - 90 sm. Laufið djúpskert, gljáandi. Lauf og stönglar áberandi rauð fyrst á vorin. Gróðursetjið silkibóndarós á sólríkan og skjólgóðan stað í frjóa, velframræsta garðmold. Færið ekki aftur eftir gróðursetningu. Það tekur bóndarósir nokkurn tíma að koma sér fyrir og byrja að blómstra, gjarnan 2 - 3 ár. Setjið moltu ofan á jarðveginn á vorin. Blómin eru stór, fyllt og ilmandi. Þau þurfa gjarnan stuðning. Blómin þykja góð til afskurðar. Blómgast í júlí. Svo plönturnar setji ekki orku í fræmyndun er mælt með því að blómhöfuðin séu skorin af að blómgun lokinni. Hlífið rótunum að vetri til með lagi af trjákurli ofan á moldina. Vorið 2021 bjóðum við upp á þrjú mismunandi yrki af silkibóndarós: 'Sara Bernhardt' með fölbleikum blómum, 'Karl Rosenfield' með rauðum, blómum og 'Shirley Temple' sem er bleik í knúpp en snjóhvít útsprungin. Bóndarósir eru ekki eiginlegar rósir heldur fjölærar jurtir af bóndarósaætt (Paeoniaceae).
Graslaukur – Allium schoenoprasum
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 35- 40 sm. Blöð og blóm má nota í mat. Blöð eru gjarnan notuð í eggjakökur, súpur og í fisk- og kartöflurétti. Hálfopnuð blómin henta í salat til að gefa bragð og til skrauts. Blómgast rauðfjólubláum, blómum í kúlulaga blómskipun í júní sem innihalda mikið af blómasafa og eru því hentug sem fæðulind fyrir humlur og aðrar býflugur. Graslaukur vex upp af litlum laukum. Graslaukur er auðræktaður í allri venjulegri garðmold á sólríkum stöðum. Blandið gjarnan gömlum búfjáráburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Einnig er tilvalið að setja moltu í kringum eldri plöntur að vori. Þó að graslaukur laði að hunangsflugur er hann almennt talinn fæla í burt ýmis skordýr sem sníkja á plöntum sökum brennisteinssambanda sem í honum eru. Er því gjarnan notaður t.d. inn á milli matjurta og annarra plantna til að fæla í burt sníkjudýr sem leggjast á mat- og skrautjurtir. Vex villtur víða í Evrópu, Asíu og N-Ameríku.