„Purpurabroddur“ ‘Silver Miles’ – Berberis x ottawensis ‘Silver Miles’
Þyrnóttur runni. Laufið purpurarautt með ljósari skellum. Sólelskur. Hæð allt að 2 m. Þolir vel klippingu. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold sem ekki er of blaut. Þarf eitthvert skjól til að þrífast. Blómin eru gul í klösum og aldinin aflöng, dökkrauð ber. Nýlegur í ræktun og er reynsla því takmörkuð. Hið rétta heiti þessa tegundablendings milli sólbrodds (B. thunbergii) annars vegar og ryðbrodds hins vegar (B. vulgaris) er sunnubroddur (B. x ottawensis).
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Sólbroddur ‘Laugardalur’ – Berberis thunbergii ‘Laugardalur’
Fremur harðgerður, þéttur, þyrnóttur, meðalstór runni. Hæð: 1,5 - 2,5 m. Nýtt lauf rauðleitt. Annars grænt - gulgrænt með rauðum jöðrum. Smá gul blóm, nokkur saman fyrri part sumars. Sólelskur. Þolir vel klippingu. Skærrauðir haustlitir í október - nóvember. Þrífst best í venjulegri garðmold. Hentar í raðir, þyrpingar, í limgerði og stakstæður. Í limgerði er hæfilegt millibil 60 - 70 sm. Annars 1 m. Yrkið er fræplanta af B. thunbergii 'Golden Ring' að talið er sem sáð var til í Grasagarði Reykjavíkur, Laugardal. Vegna þess hve sólbroddur 'Laugardalur' heldur laufinu lengi fram eftir hausti hefur hann stundum ranglega verið talinn sígrænn. Einn allra útbreiddasti broddurinn (Berberis spp.) hérlendis. Heimkynni tegundarinnar eru A-Asía þar á meðal Japan.
Bjarkeyjarkvistur – Spiraea chamaedryfolia
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 m). Laufið matt, óreglulega tennt. greinar ljósbrúnar, áberandi hlykkjóttar. Blómin hvít í sveip. Fræflar skaga upp fyrir krónublöðin. Blómgast miðsumars eða fyrir mitt sumar í lok júní og fram í júlí. Gulir og rauðir haustlitir. Bjarkeyjarkvistur hefur aðeins skriðullt rótarkerfi. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í runnaþyrpingar, raðir og undir stórum trjám. Millibil um 80 sm.
Skógarkvistur / Kóreukvistur ‘Finndís’ – Spiraea miyabei ‘Finndís’
Harðgerður, fremur lágvaxinn (0,5 - 0,8), þéttur runni. Stórir bleikir blómsveipir birtast síðsumars (ágúst - september) 'Finndís' blómstrar á enda árssprotans. Rauðgulir haustlitir. Þrífst vel í sæmilega frjórri, ekki of blautri garðmold. Skógarkvistur 'Finndís' hentar í ker, blönduð beð, raðir og þyrpingar. Millibil um 80 sm. Sólelskur en þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa skógarkvistinn niður um alla vega helming seinni part vetrar. Kenndur við Finndísi, Dilksnesi, Höfn. Ekki er óhugsandi að hér sé í raun um yrki af japanskvist (Spiraea japonica) að ræða. Vinsæll og talsvert útbreiddur skrautrunni hérlendis.
Bogsýrena – S. komarowii ssp. reflexa ‘Hólmfríður’
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 4 m). Blómin fyrst lillableik en síðan bleik í drjúpandi klösum, ilmandi. Blómgast miðsumars (júlí). Móðurtréið stendur í garðinum að Skúlaskeiði 32, Hafnarfirði þar sem Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson bjuggu lengst af. Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar ehf.
Mánaklungur – Rubus parviflorus
All harðgerður, meðalhár runni (1 - 2 m). Blöðin stór, flipótt. Blómin hvít, með 5 krónublöðum og gulum fræflum. Aldinið rautt, ætt ber, ekki ósvipað hindberi um 1 sm í þvermál.
Þolir vel hálfskugga. Þrífst í venjulegri garðmold. Dreifir sér með rótarskotum. Hentar sem þekjandi planta undir trjám og þess háttar. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka.
Sýrena ‘Villa Nova’ – Syringa ‘Villa Nova’
Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Blómin fjólubleik, mörg saman í stórum klasa, ilmandi. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Ein allra besta sýrenan. Fer vel stakstæð, aftarlega í blönduðum runna- og blómabeðum eða fleiri saman í þyrpingum eða röðum. Millibil 2 m. Ekki er nákvæmlega vitað um uppruna þessa yrkis. Sýrenan mun vera kennd við Vilhjálm Sigtryggsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur.