Rauðeik – Quercus rubra
Viðkvæmt tré hérlendis. Sérlega blaðfalleg. Gulir – rauðir haustlitir. Rauðeik er aðeins hægt að rækta í skjóli og þar sem sólar nýtur í frjóum jarðvegi. Sumareik (Quercus robur) er harðgerðari.
Vörunr. bb1c01966e86
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Kínareynir ‘Bjartur’ – Sorbus vilmorinii ‘Bjartur’
Lítið tré eða stór runni (3 - 5 m). Virðist harðgerður. Vaxinn upp af fræi sem Ólafur Njálsson í Nátthaga, Ölfusi safnaði af reynirunna í N-Wales haustið 1989. 'Bjartur' var valinn til áframhaldandi ræktunar af þeim 5 plöntum sem komu upp. Virðist fræekta (apomixis). Hvítir blómsveipir birtast snemmsumars. Bleik ber þroskast á haustin. Rauðir haustlitir. Berin hanga á trjánum fram á vetur þar sem fuglar eru ekki sólgnir í þau. Þolir hálfskugga. Óvíst er hvort að um ekta kínareyni sé að ræða. 'Bjartur' hentar sem garðtré í t.d. litla garða. Þrífst í venjulegri, vel framræstri garðmold sem gjarnan má vera sand- og/eða malarborin.
Broddhlynur rauður /“Purpurahlynur“ – Acer platanoides f. purpurea
Sæmilega harðgert tré. Hæð 5 - 6 m eða meira hérlendis. Hætt við haustkali. Blöðin eru dökkpurpurarauð og þunn. Laufgast í byrjun júní. Haustlitur skærrauður - rauðgulur. Blómgast stundum fyrri part sumars ljósgulum blómum í sveipum. Stundum myndast aldin sem eru vængjaðar hnotir tvær og tvær saman nánast í beinni línu en mynda ekki horn eins og aldin garðahlyns (A. pseudoplatanus). Þarf frjóan, vel framræstan, ekki súran jarðveg. Sólelskur en getur staðið í hálfskugga. Hentar í grónar lóðir þar sem vaxtartími er ekki of stuttur. Millibil alla vega 2 m. Broddhlynirnir okkar eru af fræi og því ekki sérstök yrki.
Bolvíðir – Salix udensis – Ivashka, Kamsjatka
Harðgert, hraðvaxta tré / runni. Laufið er mjólensulaga. Gulir haustlitir. Virðist stöðugri og beinvaxnari en flestur annar víðir að selju (Salix caprea) undanskilinni. Sólelskur. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Um er að ræða klón frá Ivashka, Kamtsjatka, Rússlandi sem safnað var í Kamtsjatka-leiðangri Óla Vals Hanssonar og Brynjólfs Jónssonar árið 1993. Bolvíðir hentar sem stakstætt tré en einnig í raðir og þyrpingar með um 2 m millibili hið minnsta. Sjaldgæfur hérlendis. Kvenkyns klón.
Rúbínreynir – Sorbus bissetii
Stór runni eða lítið tré (3 - 5 m). Laufið stakfjaðrað, dökkgrænt og gljáandi. Rauðir haustlitir. Blómin hvít í sveip í júní. Berin vínrauð í ágúst en síðan bleik er líður að hausti. Virðist nokkuð harðgerður. Sérlega fallegt garðtré. Fremur nýlegur í ræktun hérlendis en lofar almennt góðu. Hentar stakstæður, í raðir og þyrpingar. Millibil alla vega 2 m. Heimkynni: Kína (Sichuan).
Bergfura – Pinus uncinata
Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta.
Fjallaþinur – Abies lasiocarpa – íslensk kvæmi
Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga.
Risalífviður – Thuja plicata – Jökullækur, Hallormsstað
Sígrænt, í meðallagi hraðvaxta tré. Óvíst er hversu hár risalífviður getur orðið hérlendis. Hefur þó náð afmarkað 10 m hæð við Jökullæk í Hallormsstaðaskógi. Barrið er hreisturkennt og ilmandi. Þarf skjól í uppvextinum. Þolir nokkurn skugga. Könglarnir eru litlir og aflangir en ekki kringlóttir eins og á sýprus (Chamaecyparis spp. og Cupressus spp.). Risalífviður þrífst helst í skógarskjóli eða í grónum görðum í frjóum, rakaheldnum en framræstum jarðvegi. Barrið verður gjarnan brúnleitara á vetrum en grænkar svo aftur ef plantan er óskemmd.Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu nema að skjólið sé þeim mun meira. Risalífviðirnir okkar eru afkomendur trjánna við Jökullæk.
Súlueik – Quercus robur ‘Fastigiata’
Fremur viðkvæmt tré hérlendis. Krónan mjóslegin. Laufgast upp úr miðjum júní. Frýs yfirleitt græn en stundum sjást gulir/gulbrúnir haustlitir. Fremur hægvaxta. Þrífst eingöngu í grónum görðum þar sem er skjólsælt. Sólelsk en þolir hálfskugga. Jarðvegurinn þarf að vera frjór og rakaheldinn. Óvíst er hversu hávaxin súleikin getur orðið hérlendis en reikna má með 6 - 7 m á allra bestu stöðum á löngum tíma.