Rauðgreni – Picea abies
Sígrænt, frekar hægvaxta, með tímanum hávaxið tré. Krónan frekar mjóslegin samanborið við sitkagreni (P. sitchensis). Smágreinar gjarnan drjúpandi. Nálar fremur stuttar og ekki eins stingandi og á sitkagreni. Nálar eru ferhyrndar í þversniðinu og fagurgrænar – gulgrænar á öllum hliðum. Skuggþolið. Þarf nokkuð gott skjól. Könglar aflangir, all stórir. Rauðir í fyrstu. Myndar yfirleitt ekki köngla fyrr en eftir nokkra áratugi.
Þarf sæmilega frjóan jarðveg. Vex mjög lítið og verður gult á litin í ófrjóu landi. Rauðgreni sómir sér vel stakstætt en einnig í þyrpingum fleiri saman. Þolir klippingu. Bil þarf að lágmarki að vera 3 m þegar fram í sækir. Má þó gróðursetja þéttar í upphafi og í görðum. Ekki algengt í görðum en víða í eldri skógræktar-reitum um land allt. Rauðgrenið sem við framleiðum er aðallega af fræi sem safnað hefur verið hérlendis þ.e.a.s. af íslenskum kvæmum. Rauðgreni er nýtt til timbur- og pappírsframleiðslu víða í heiminum. Prýðis jólatré. Heimkynni: Norður-, Mið- og A-Evrópa. Þallarætt (Pinaceae).