Rauðtoppur ‘Rosea’ – Lonicera tatarica ‘Rosea’
All harðgerður, sumargrænn runni. Hæð um 1,5 til 2 m hérlendis. Laufin sitja gagnstætt. Þau eru egglaga, heilrennd og mött. Þolir vel hálfskugga. Blómin eru bleik, ilmandi og birtast um mitt sumar. Aldinið er rauðgult, óætt ber sem þroskast á haustin.
Rauðtoppur ‘Rosea’ vex best í sæmilega frjóum rakaheldnum jarðvegi. Hentar í blönduð beð með öðrum skrautrunnum og/eða fjölæringum. Millibil um 80 – 100 sm. Þolir vel klippingu en sé rauðtoppur ‘Rosea’ klipptur mikið blómstrar hann minna fyrir vikið. Náttúruleg heimkynni rauðtopps eru í M-Asíu. Geitblaðsætt (Caprifoliaceae).
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Hélurifs ‘Lukka’ – Ribes laxiflorum ‘Lukka’
Harðgerður, lágvaxinn (30 - 50 sm), jarðlægur runni. Laufið handflipótt. Laufgast í apríl. Rauðir haustlitir birtast strax í ágúst. Rauðbrún blóm í klasa í maí. Blá, héluð, , hærð, æt ber þroskast í lok júlí eða í ágúst. Má nýta í sultu og fleira.
Hélurifs 'Lukka' þrífst í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Skuggþolið en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Hentar sem undirgróður undir trjám, í kanta, jaðra og þess háttar. Nóg er að planta 1 - 2 plöntum á fermetra. 'Lukka' er úrvalsyrki úr Lystigarði Akureyrar. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).
Bjarkeyjarkvistur – Spiraea chamaedryfolia
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 m). Laufið matt, óreglulega tennt. greinar ljósbrúnar, áberandi hlykkjóttar. Blómin hvít í sveip. Fræflar skaga upp fyrir krónublöðin. Blómgast miðsumars eða fyrir mitt sumar í lok júní og fram í júlí. Gulir og rauðir haustlitir. Bjarkeyjarkvistur hefur aðeins skriðullt rótarkerfi. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í runnaþyrpingar, raðir og undir stórum trjám. Millibil um 80 sm.
Þorrarunni ‘Dawn’ – Viburnum x bodnantense ‘Dawn’
Sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Ung lauf bronslituð. Þorrarunni blómgast að vetri til eða réttara sagt hann getur blómgast frá hausti og fram á vor. Blómin eru rauð í knúpp en bleik útsprungin mörg saman í sveip, ilmandi. Þolir vel hálfskugga. Þorrarunni er glæsilegur stakstæður en einnig fleiri saman í þyrpingu með um 1 m millibili. Þorrarunni virðist harðgerður á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fremur sjaldgæfur í ræktun enn sem komið er.
Skógarkvistur / Kóreukvistur ‘Finndís’ – Spiraea miyabei ‘Finndís’
Harðgerður, fremur lágvaxinn (0,5 - 0,8), þéttur runni. Stórir bleikir blómsveipir birtast síðsumars (ágúst - september) 'Finndís' blómstrar á enda árssprotans. Rauðgulir haustlitir. Þrífst vel í sæmilega frjórri, ekki of blautri garðmold. Skógarkvistur 'Finndís' hentar í ker, blönduð beð, raðir og þyrpingar. Millibil um 80 sm. Sólelskur en þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa skógarkvistinn niður um alla vega helming seinni part vetrar. Kenndur við Finndísi, Dilksnesi, Höfn. Ekki er óhugsandi að hér sé í raun um yrki af japanskvist (Spiraea japonica) að ræða. Vinsæll og talsvert útbreiddur skrautrunni hérlendis.