Rauðtoppur ‘Rosea’ – Lonicera tatarica ‘Rosea’
All harðgerður, sumargrænn runni. Hæð um 1,5 til 2 m hérlendis. Laufin sitja gagnstætt. Þau eru egglaga, heilrennd og mött. Blómin eru bleik, ilmandi og birtast um mitt sumar. Aldinið er rauðgult, óætt ber sem þroskast á haustin.
Rauðtoppur ‘Rosea’ vex best í sæmilega frjóum rakaheldnum jarðvegi. Hentar í blönduð beð með öðrum skrautrunnum og/eða fjölæringum. Þolir vel hálfskugga. Millibil um 80 – 100 sm. Þolir vel klippingu en sé rauðtoppur ‘Rosea’ klipptur mikið blómstrar hann minna fyrir vikið. Náttúruleg heimkynni rauðtopps eru í M-Asíu. Geitblaðsætt (Caprifoliaceae).
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Bogsýrena – S. komarowii ssp. reflexa ‘Hólmfríður’
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 4 m). Blómin fyrst lillableik en síðan bleik í drjúpandi klösum, ilmandi. Blómgast miðsumars (júlí). Móðurtréið stendur í garðinum að Skúlaskeiði 32, Hafnarfirði þar sem Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson bjuggu lengst af. Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar ehf.
Mánaklungur – Rubus parviflorus
All harðgerður, meðalhár runni (1 - 2 m). Blöðin stór, flipótt. Blómin hvít, með 5 krónublöðum og gulum fræflum. Aldinið rautt, ætt ber, ekki ósvipað hindberi um 1 sm í þvermál.
Þolir vel hálfskugga. Þrífst í venjulegri garðmold. Dreifir sér með rótarskotum. Hentar sem þekjandi planta undir trjám og þess háttar. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka.
Skógarkvistur / Kóreukvistur ‘Finndís’ – Spiraea miyabei ‘Finndís’
Harðgerður, fremur lágvaxinn (0,5 - 0,8), þéttur runni. Stórir bleikir blómsveipir birtast síðsumars (ágúst - september) 'Finndís' blómstrar á enda árssprotans. Rauðgulir haustlitir. Þrífst vel í sæmilega frjórri, ekki of blautri garðmold. Skógarkvistur 'Finndís' hentar í ker, blönduð beð, raðir og þyrpingar. Millibil um 80 sm. Sólelskur en þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa skógarkvistinn niður um alla vega helming seinni part vetrar. Kenndur við Finndísi, Dilksnesi, Höfn. Ekki er óhugsandi að hér sé í raun um yrki af japanskvist (Spiraea japonica) að ræða. Vinsæll og talsvert útbreiddur skrautrunni hérlendis.
Loðvíðir – Salix lanata – jarðlægur
Mjög harðgerður, íslenskur, lágvaxinn/jarðlægur runni. Lauf og sprotar eru gráloðin. Karlreklar eru fallega gulir og birtast í apríl - maí. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Vex villtur um land allt. Loðvíðir hentar í hleðslur, kanta, steinhæðir, ker og þess háttar. Jarðlægi loðvíðirinn okkar er karlkyns og seldur í stykkjatali í pottum.
Þingvíðir – Salix viminalis ‘Þingvíðir’
All harðgerður stórvaxinn, hraðvaxta runni eða lítið tré. Hæð: 3 - 8 m. Greinar ólívugrænar. Sprotar rauðbrúnir. Blöð 10 - 15 sm og 2 - 3 sm á breidd og íbjúg. Silkihærð á neðra borði. Gulir haustlitir. Sólelskur. Reklar fremur smáir. Birtast snemma (feb. - mars). Þingvíðir þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Þingvíðir hentar stakstæður og í raðir og þyrpingar. Millibil 1 - 2 m. Þolir vel klippingu. Sagt er að um aldamótin 1900 hafi Tryggvi Gunnarsson (1835 - 1917) plantað þingvíði í garðinn við Alþingishúsið en Tryggvi bjó þann garð til og sinnti honum einkar vel á efri árum. Ekki er vitað hvaðan eða hvernig þingvíðirinn barst til landsins. Í páskahretinu 1963 dó mikið af þingvíði á sunnan og vestanverðu landinu en á þeim tíma var hann algengur í ræktun. Í dag finnast stöku runnar hér og þar í görðum og skógarreitum um mest allt land. Jóhann Pálsson grasafræðingur telur þennan körfuvíðiklón ættaðan frá norðanverðum Úralfjöllum eða N-Síberíu.
Svartyllir ‘Black Lace’ – Sambucus nigra ‘Black Lace’
Frekar viðkvæmur runni. Hæð: 1,5 - 3,0 m. Laufið tvífjaðrað, dökk-purpurarautt. Blómin ljósbleik í sveip síðsumars. Þroskar ekki aldin hérlendis. Þrífst best í sól en þolir hálfskugga. Verður yfirleitt fyrir haustkali. Þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Hentar aftarlega í blönduð beð innan um ljósari gróður. Einnig sem stakstæður. Millibil um 1 m eða meir.