Reyniblaðka ‘Pia’- Sorbaria sorbifolia ‘Pia’
Harðgerður meðalhár – hávaxinn runni (2 – 2,5 m). Blöðin minna á lauf reyniviðar (Sorbus aucuparia). Laufgast áberandi snemma eða gjarnan í apríl. Verður því stundum fyrir einhverju vorkali. Gulir haustlitir eða frýs græn. Stórir, hvítir, keilulaga blómklasar birtast síðsumars (ágúst). Fremur skuggþolin. Hraðvaxta. Reyniblaðka ‘Pia’ skríður eitthvað út með rótarskotum. Þrífst best í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Tilvalin undir stórum trjám, í skuggsæl horn, í raðir, þyrpingar og limgerði. Einnig á umferðaeyjar og við bílastæði þar sem hún þolir vel að brotna t.d. vegna snjóruðnings. Millibil um 1 m. Ögn þéttar sé hún gróðursett í limgerði. Það er tilvalið að klippa reyniblöðku niður á nokkurra ára fresti eða grisja hana vel. ‘Pia’ er norskt úrvalsyrki frá Vadsø í N-Noregi. Sögð skríða minna út en reyniblaðka almennt. Náttúruleg heimkynni tegundarinnar eru í Asíu það er tempraða hluta Síberíu, N-Kína, Japan og Kóreu.