Reyniviður / Ilmreynir / Reynir – Sorbus aucuparia
Harðgert, íslenskt, lágvaxið – meðalhátt tré (5 – 12 m). Stundum runni. Ýmist ein- eða margstofna. Börkur sléttur. Brumin hærð. Laufið stakfjaðrað. Pör smáblaða 4 – 9 talsins. Smáblöðin eru lensulaga, tennt og hærð í fyrstu. Gulir – rauðir haustlitir í september og fram í október. Laufgast í maí. Blómin hvít, ilmandi í sveipum fyrri part sumars. Reyniberin sem þroskast að hausti eru rauð / rauðgul í stórum klösum. Berin þroskast í lok ágúst eða byrjun september. Þau eru yfirleitt étin upp af fuglum í október. Vex víða villtur í íslenskri náttúru. Mjög algengt og vinsælt garðtré. Fer vel stakstæður eða fleiri saman í röðum eða þyrpingum. Lágmarks-millibil á milli trjáa 3 m. Mjög breytileg tegund. Talsvert skuggþolinn sérstaklega í æsku. Reyniáta getur verið vandamál. Klippið og snyrtið reyni á sumrin til að forðast smit af reyniátu. Þrífst í öllum sæmileg frjóum, framræstum jarðvegi. Sáir sér víða út, sérstaklega í kjarr- og skóglendi, í hraunum og giljum. Vinsæl beitarplanta og hverfur yfirleitt þar sem er sauðfjárbeit. Sama á við um svæði þar sem eru kanínur. Forðist að gras vaxi upp að ungum plöntum. Heimkynni: Stór hluti Evrópu og þar með talið Ísland og N-Asía. Lang útbreiddasta reynitegundin í heiminum. Rósaætt (Rosaceae).