Rifs ‘Jonkheer van Tets’ – Ribes rubrum ‘Jonkheer van Tets’
Harðgerður berjarunni. Hæð: 1,0 – 1,5 m. Millibil: 80 – 100 sm. Uppskerumikið yrki. Ber þroskast í ágúst – byrjun september. Ber fremur sæt. Vinsæl í hlaup og þess háttar. Þolir vel hálfskugga en uppskerumest í fullri sól. Þrífst best í frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Venjulega plantað í raðir ásamt öðrum berjarunnum eða eitt og sér. Hollenskt yrki.
Vörunr.
dbbd1e5aba8c
Vöruflokkar: Ávaxtatré og berjarunnar, Skógarplöntu-bakkar
Tengdar plöntur
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’, ‘Haukur’ og ‘Súla’
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk.
'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd).
Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.
Gljávíðir – Salix pentandra
Harðgerður runni eða tré. Hæð 3 - 7 m. Laufblöð sporöskjulaga, gljáandi, fíntennt, ljósgræn, 5 - 12 sm á lengd og 2 - 5 sm á breidd. Laufgast í júníbyrjun. Gulir haustlitir eða frýs grænn. Reklar myndast samhliða laufgun. Sérbýll. Við framleiðum og seljum nú yrki sem er kvk og myndar rekla og þroskar fræ með áberandi hvítri fræull á haustin sem er óvanalegt fyrir víði þar sem aðrar víðitegundir hérlendis þroska fræ fyrir eða um mitt sumar (júní - júlí).
Þetta yrki virðist laust við gljávíðiryð sem hefur leikið gljávíði illa síðastliðna þrjá áratugi en fram að því var gljávíðir 'Schierbeck' með allra vinsælustu runnum í limgerði hér á landi. Eftir að gljávíðiryðið breiddist út var framleiðslu á gljávíði hætt og flestum gljávíðilimgerðum skipt út fyrir eitthvað annað.
Gljávíðir er eins og annar víðir sólelskur og þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Í limgerði mælum við með 3 stk/m. Hentar einnig í þyrpingar með 1 - 1,5 m millibili. Gljávíðir hentar ekki á mjög vindasömum stöðum t.d. úti við ströndina. Þar henta jörfa- og alaskavíðir betur. Það var Jóhann Pálsson grasafræðingur og fyrrverandi garðyrkjustjóri Rvk sem kom með gljávíði þennan til landsins. Heimkynni gljávíðis eru N-Evrópa ekki þó Ísland og N-Asía. Í heimkynnum sínum vex gljávíðir aðallega í deigum og jafnvel blautum jarðvegi. Víðisætt (Salicaceae).
Hafþyrnir – Hippophae rhamnoides
Harðgerður, þyrnóttur, lauffellandi, lágvaxinn - hávaxinn runni (1 - 3 m). Laufið lensulaga og grásilfrað. Blómin smá og lítið árberandi. Sérbýll. Kvenplöntur þroska rauðgul, æt ber séu karlplöntur í nágrenninu. Ein karlplanta dugar til að fræva nokkrar kvenplöntur. Vindfrævun. Berin hanga á runnunum langt fram á vetur þar sem fuglar virðast lítið sækja í þau. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur (Frankia) sem gerir honum kleift að vaxa í rýrum jarðvegi. Hafþyrnir hefur mjög skriðullt og kröftugt rótarkerfi.
Berin eru nýtt í sultur og þess háttar og eru sögð mjög holl og eru t.d. mjög C-vítamínrík. Laufið má nýta í te. Hentar sérlega vel við sjávarsíðuna, til að binda sendinn og malarborinn jarðveg og þess háttar. Þrífst í alls konar jarðvegi en þó ekki blautum. Hafþyrnir hentar í runnaþyrpingar og raðir t.d. á vindasömum stöðum og í villigarða og sumarhúsalóðir. Millibil við gróðursetningu um 1 m. Rótarskot geta verið til ama t.d. nálægt gangstéttum og þess háttar. Fer jafnvel í gegnum malbik!
Við höfum verið að prófa okkur áfram með mismunandi yrki og stofna. Finnsku yrkin 'Tytti' (kvk), 'Terhi' (kvk), 'Rudolf' (kk) og 'Tarmo' (kk), fást gjarnan hjá okkur og hafa reynst vel. Einnig eigum við stundum til kvk og kk yrki úr Hallargarðinum, Rvk. Höfum einnig framleitt og boðið upp á íslenskar fræplöntur af hafþyrni.
Heimkynni: Kaldtempruð svæði Evrasíu. Í heimkynnum sínum vex hafþyrnir aðallega með ströndum fram og til fjalla. Silfurblaðsætt (Elaeagnaceae)
Alaskavíðir – Salix alaxensis – ‘Gústa’, ‘Oddur Guli’, ‘Töggur’ o.fl. yrki
Mjög harðgerður, vind- og saltþolinn, hraðvaxta, hávaxinn runni/lágvaxið tré (3-7 m). Greinar í fyrstu uppréttar en síðar útvaxnar og jafnvel drjúpandi. Það er þó talsvert mismunandi eftir yrkjum. Laufblöð sporbaugótt - öfugegglaga með hvítu lóhærðu neðra borði, allt að 11 sm löng. Sérbýll. Blómgast í apríl en silfurgráir reklar birtast gjarnan í mars. Humlur sækja í reklana á vorin.
'Gústa' sem einnig gengur undir nafninu "tröllavíðir" og "brúnn alaskavíðir" hefur dökkbrúna sprota, hvíthærða í endana. 'Oddur Guli' hefur gulgræna sprota og 'Töggur' skærgræna. Greinar 'Sunnu' eru óvenju mikið slútandi. 'Máni' hefur brúna til græna sprota sem eru ekki mikið hærðir í endana. 'Hríma' hefur þykka, hvíthærða sprota alla leið.
Alaskavíðir er aðallega gróðursettur í skjólbelti og limgerði. Gróðursettar eru 2-3 plöntur/m. Þarf frjóan, steinefnaríkan og rakaheldinn jarðveg til að þrífast. Sólelskur. Klippið reglulega til að halda í góðu formi. Gulir haustlitir í október. Laus við asparglyttu og ryð. Gamall (25 - 30 ára) óklipptur alaskavíðir fellur gjarnan um koll en stofnskot vaxa jafn harðan upp aftur. Sáir sér út í raskað land þar sem aðstæður leyfa. Heimkynni: Alaska og NV-Kanada. Víðisætt (Salicaceae).
Hesli – Corylus avellana – kvæmi: frönsku Alparnir
Sumargrænn runni. Óvíst er hversu hávaxið hesli getur orðið hérlendis en nú þegar eru til um 2 m háir runnar á höfuðborgarsvæðinu og ef til vill víðar. Hesli blómgast snemma vors. Blómin minn á rekla birkis (Betula spp.) og elris (Alnus spp.) enda er hesli af bjarkætt (Betulaceae). Hesli er tvíkynja en vissara er að hafa fleiri runna saman til að tryggja frævun og síðan frjóvgun. Óvíst er hvort heslihnetur nái að þroskast hérlendis þó það sé ekki ósennilegt í góðu árferði á hlýjum stöðum. Hesli þrífst best í rakaheldnum og steinefnaríkum jarðvegi. Þolir hálfskugga.
Sitkagreni – Picea sitchensis
Mjög harðgert, stórvaxið, langlíft, sígrænt barrtré. Hraðvaxta. Vind- og saltþolið. Þolir vel klippingu. Þrífst best í brekkum þar sem er að finna ferskan jarðraka og jarðvegur er nokkuð frjór. Nálar dökkgrænar að ofanverðu en ljós-bláleitar að neðanverðu. Mjög stingandi. Könglar í fyrstu rauðleitir, seinna ljósbrúnir, pappírskenndir og meðalstórir. Þroskar köngla á nokkurra ára fresti eftir að 30 - 40 ára aldri er náð. Sum tré mynda þó köngla fyrr á æviskeiðinu. Börkur er fremur þunnur og er því sitkagreni ekki sérlega eldþolið tré. Viðurinn er léttur og hlutfallslega sterkur. Hann er m.a. notaður í hljóðfæri, flugvélar og báta. Útsprungin brum ná nota í greni-bjór og sýróp. Forðist að planta í frostpolla. Sumt af því sem kallað er sitkagreni kann að vera sitkabastarður / hvítsitkagreni (Picea x lutzii). Sitkagreni / sitkabastarður er lang algengasta grenið hérlendis. Sitkagreni er glæsilegt stakstætt, fer vel í röðum og þyrpingum. Einnig kjörið í skjólbelti og jafnvel klippt limgerði. Þó eru ekki öll sveitarfélög sem leyfa gróðursetningu sitkagrenis á lóðarmörkum (sjá byggingareglugerð) enda verður sitkagreni mjög stórvaxið með tímanum. Eitt mest notaða tré í skógrækt hérlendis enda harðgert og gott timburtré. Stundum nýtt sem jólatré enda ágætlega barrheldið. Lang besta sígræna tréið til ræktunar við sjávarsíðuna eins og t.d. á Reykjanesi. Sitkagreni gerir kröfur um frjósemi jarðvegs svo setjið vel af moltu eða búfjáráburði við gróðursetningu. Þegar skógarplöntur eru gróðursettar skal setja nokkur korn af tilbúnum áburði með. Hæstu tré hérlendis eru sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri, um 30 m á hæð (2022). Millibil við gróðursetningu að lágmarki 3 m. Stundum 2 m í skógrækt. Til frambúðar að lágmarki 4 - 5 m. Við framleiðum eingöngu sitkagreni af íslensku fræi. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Vex yfirleitt ekki langt frá ströndinni í heimkynnum sínum.
Rjúpuvíðir ‘Þórhalla’ – Salix glauca ‘Þórhalla’
Mjög harðgerður, meðalstór runni. Hæð um 1 - 1,3 m. Lauf og sprotar gráloðin. Gulir haustlitir. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Minnir á loðvíði (S. lanata) en laufið á rjúpuvíði er að jafnaði smærra. Engin axlarblöð eru á rjúpuvíði eins og eru á loðvíði. Rjúpuvíðir 'Þórhalla' sómir sér vel í blönduðum beðum með öðrum gróðri en einnig í röðum og þyrpingum. Millibil um 80 sm. Þolir vel klippingu. Yrkið er kennt við Þórhall Jónsson kaupmann en hann var m.a. mikilvirkur í Dalíuklúbbnum. Rjúpuvíðir 'Þórhalla' mun upphaflega hafa komið hingað til lands frá Grænlandi en þar vex rjúpuvíðir villtur. Auk Grænlands er rjúpuvíðir villtur víða í N-Ameríku, N-Evrópu og í N-Asíu. Mjög breytileg tegund.
Loðvíðir ‘Laugabrekka’ – Salix lanata ‘Laugabrekka’
Mjög harðgerður, íslenskur runni. Upprétt yrki. Hæð: 1 - 2 m. Laufið grágrænt og loðið. Kvenkyns yrki. Sólelskur. Loðvíðir 'Laugabrekka' laufgast ekki fyrr en um miðjan júní. En fyrir vikið sækja pöddur ekki í þetta yrki ólíkt öðrum loðvíði. Þrífst í alls konar jarðvegi. Vind- og saltþolinn. Hefur lengi verið framleiddur í Þöll og reynst vel. Hentar í raðir, þyrpingar, lágvaxin limgerði, brekkur, opin svæði og sumarhúsalóðir. Millibil 50 - 80 sm. Einnig nefndur grávíðir.