Rifs ‘Rautt Hollenskt’ – Ribes rubrum ‘Rautt Hollenskt’
Mjög harðgerður, meðalhár runni (1,5 m eða meir). Laufið handsepótt á löngum blaðstilk. Berin rauð, í klösum, súrsæt og æt. Rifs ‘Rautt Hollenskt’ er aðallega ræktað vegna berjanna. Hæfilegt bil á milli rifsrunna er um 1 m. ‘Rautt Hollenskt’ er algengasta „rauð-rifsið“ hérlendis og hefur verið lengi. Rifslús og rifsþéla eru gjarnan til ama. Rifs ‘Rautt Hollenskt’ er all vind- og saltþolið. Þrífst best í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Venjulega gróðursett í raðir t.d. utan um matjurtagarða og þess háttar.
Vörunr. 754e648e02a2
Vöruflokkar: Ávaxtatré og berjarunnar, Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Demantsvíðir ‘Flesja’ – S. pulchra ‘Flesja’
Harðgerður, alveg jarðlægur runni. Litlir gráloðnir reklar birtast jafnvel á miðjum vetri. Laufið ljósgrænt, heilrennt og gljáandi. Axlarblöð áberandi. Visin lauf sitja gjarnan á greinunum fram á vetur. Hentar í hleðslur, kanta, ker o.þ.h. Sólelskur. Úrvalsyrki úr Alaskaferð Óla Vals og félaga 1985.
Skógarkvistur / Kóreukvistur ‘Finndís’ – Spiraea miyabei ‘Finndís’
Harðgerður, fremur lágvaxinn (0,5 - 0,8), þéttur runni. Stórir bleikir blómsveipir birtast síðsumars (ágúst - september). Rauðgulir haustlitir. Líkist japanskvist (Spiraea japonica). Skógarkvistur 'Finndís' hentar í ker, blönduð beð, raðir og þyrpingar. Blómgast á árssprotann. Best fer á því að klippa skógarkvistinn niður um alla vega helming seinni part vetrar. Kenndur við Finndísi, Dilksnesi, Höfn.
Þorrarunni ‘Dawn’ – Viburnum x bodnantense ‘Dawn’
Sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Ung lauf bronslituð. Þorrarunni blómgast að vetri til eða réttara sagt hann getur blómgast frá hausti og fram á vor. Blómin eru rauð í knúpp en bleik útsprungin mörg saman í sveip, ilmandi. Þolir vel hálfskugga. Þorrarunni er glæsilegur stakstæður en einnig fleiri saman í þyrpingu með um 1 m millibili. Þorrarunni virðist harðgerður á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fremur sjaldgæfur í ræktun enn sem komið er.
Þingvíðir – Salix viminalis ‘Þingvíðir’
All harðgerður stórvaxinn, hraðvaxta runni eða lítið tré. Hæð: 3 - 8 m. Greinar ólívugrænar. Sprotar rauðbrúnir. Blöð 10 - 15 sm og 2 - 3 sm á breidd og íbjúg. Silkihærð á neðra borði. Gulir haustlitir. Sólelskur. Reklar fremur smáir. Birtast snemma (feb. - mars). Þingvíðir þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Þingvíðir hentar stakstæður og í raðir og þyrpingar. Millibil 1 - 2 m. Þolir vel klippingu. Sagt er að um aldamótin 1900 hafi Tryggvi Gunnarsson (1835 - 1917) plantað þingvíði í garðinn við Alþingishúsið en Tryggvi bjó þann garð til og sinnti honum einkar vel á efri árum. Jóhann Pálsson grasafræðingur telur þennan körfuvíðiklón ættaðan frá norðanverðum Úralfjöllum eða N-Síberíu.
Hélurifs ‘Lukka’ – Ribes laxiflorum ‘Lukka’
Harðgerður, lágvaxinn (30 - 50 sm), jarðlægur runni. Laufið handsepótt. Laufgast í apríl. Rauðir haustlitir birtast strax í ágúst. Rauðbrún blóm í klasa í maí. Blá, héluð, æt ber þroskast í ágúst. Skuggþolið en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Hentar sem undirgróður undir trjám, í kanta, jaðra og þess háttar. Nóg er að planta 1 - 2 plöntum á fermetra. 'Lukka' er úrvalsyrki úr Lystigarði Akureyrar.