Risamjaðjurt – Filipendula camtschatica
Harðgerð, stórvaxin jurt. Hæð 2 m eða meir á skjólgóðum stöðum. Stönglar uppréttir, þykkir og sterkir svo yfirleitt þarf risamjaðjurt ekki uppbindingu. Laufblöðin eru stór, handflipótt og tvísagtennt. Gulir haustlitir. Blómgast í ágúst á stöngulendana. Blómin eru smá, hvít, ilmandi, mörg saman í stórum blómskúfum. Verða bleik- eða bronslituð þegar líður að hausti.
Risamjaðjurt þrífst best í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Hentar stakstæð eða fleiri saman. Millibil við gróðursetningu 1 – 1,5 m. Jurtin breiðist smám saman út til hliðana. Fer vel aftast í blönduðum beðum. Hentar einnig við læki og tjarnir enda þolir hún vel rakan jarðveg. Heimkynni: Sakhalín, Kúrileyjar og Kamsjatka í Rússlandi auk Japan og Kóreu. Rósaætt (Rosaceae).