Rós ‘Agnes’ – Rosa ‘Agnes’
All harðgerð runnarós. Ígulrósablendingur. Laufin stakfjöðruð og áberandi krumpuð. Talsvert þyrnótt. Hæð allt að 1,5 m. Vill stundum kala. Blómstrar illa í rigningarsumrum. Blómin ljósgul, hálffyllt og ilmandi. Blómgast síðsumars.
Gróðursetjið í þokkalegu skjóli á móti sól í sæmilega frjóan, vel framræstan jarðveg. Úr smiðju Dr. W. Saunders, Kanada frá árinu 1922. Rósaætt (Rosaceae).
Vöruflokkar: Rósir, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Kínareynir ‘Bjartur’ – Sorbus vilmorinii ‘Bjartur’
Lítið tré eða stór runni (3 - 5 m). Virðist harðgerður. Vaxinn upp af fræi sem Ólafur Njálsson í Nátthaga, Ölfusi safnaði af reynirunna í N-Wales haustið 1989. 'Bjartur' var valinn til áframhaldandi ræktunar af þeim 5 plöntum sem komu upp. Virðist fræekta (apomixis). Hvítir blómsveipir birtast snemmsumars. Bleik ber þroskast á haustin. Rauðir haustlitir. Berin hanga á trjánum fram á vetur þar sem fuglar eru ekki sólgnir í þau. Þolir hálfskugga. Óvíst er hvort að um ekta kínareyni sé að ræða. 'Bjartur' hentar sem garðtré í t.d. litla garða. Þrífst í venjulegri, vel framræstri garðmold sem gjarnan má vera sand- og/eða malarborin.
Bergreynir – Sorbus x ambigua
Harðgert lítið tré eða all stór runni (2 - 5 m). Ýmist ein- eða margstofna. Lauf sporöskjulaga og sagtennt. Blómin eru rauðbleik í hálfsveip fyrri part sumars. Rauð ber í klösum í september. Rauðgulir haustlitir. Minnir mjög á úlfareyni (S. x hostii). Blöð bergreynis eru minna hærð og meira gljáandi samanborið við úlfareyni, einnig á neðra borði. Vindþolinn og trúlega saltþolinn einnig. Bergreyni sómir sér stakstæður, í beðum með öðrum gróðri, í raðir og þyrpingar. Mætti jafnvel nota í klippt limgerði. Tilvalinn í sumarhúsalóðina. Millibil 1,5 - 2 m. Í limgerði 50 - 100 sm. Byrjar ungur að blómgast og þroska ber, fyrr samanborið við úlfareyni. Bergreynir er náttúrulegur blendingur seljureynis (Sorbus aria) og blikreynis (S. chamaemespilus). Vex villtur í fjalllendi Mið - S-Evrópu. Íslenski stofninn er líklega allur kominn af tré/trjám í Grasagarði Rvk sem uxu upp af fræi frá Haute-Savoie í frönsku Ölpunum og sáð var til árið 1989.
Bjarmasýrena ‘Valkyrja’ – Syringa wolfii ‘Valkyrja’
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Blómin lillableik, ilmandi í klösum. Lágvaxnari en aðrar sýrenur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Nýtur sín vel stakstæð eða fleiri saman í þyrpingu með um 120 sm millibili. Hentar einnig í stóra potta. Kettir sækja talsvert í Bjarmasýrenu 'Valkyrju' og geta eyðilagt hana meðan hún er ung. Því borgar sig að setja girðingu/net utan um nýgróðursettar plöntur og hafa það í kring fyrstu árin þar sem mikið er um ketti. 'Valkyrja' er úrval úr Grasagarði Reykjavíkur.
Blóðbeyki – Fagus sylvatica ‘Purpurea’
Sæmilega harðgert, þétt, fremur hægvaxta tré. Hæstu blóðbeyki hérlendis eru hátt í 9 m há. Getur sjálfsagt náð 12 m á hæð eða meir á bestu stöðum. Laufin áberandi purpurarauð/vínrauð. Dökkgræn/blágræn í skugga. Laufgast um mánaðarmótin maí/júní. Laufin sitja visin, ljósbrún á greinum yngri trjáa og á neðstu greinum á eldri trjám allan veturinn. Sólelskt. Almennt heilbrigt.
Blóðbeyki þarf sæmilega djúpan, frjóan og vel framræstan jarðveg. Hentar aðeins til ræktunar í sæmilega grónum hverfum og í skógarskjóla ekki of langt inn til landsins. Aðallega gróðursett stakstætt. Millibil 3 m eða meir. Blóðbeyki er stökkbreyting af venjulegu beyki (F. sylvatica) sem hefur óvenju mikið af "anthocyanin" litarefni. Blóðbeyki er fyrst talið hafa fundist í skógi við bæinn Sondershausen í Thuringia í Þýskalandi árið 1690. Talið er að stærstur hluti blóðbeykitrjáa í dag reki uppruna sinn til þessa trés. Beykiætt (Fagaceae).
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.
Bersarunni – Viburnum edule
Harðgerður, meðalhár, sumargrænn runni (1,5 - 2,5 m). Laufin sitja gagnstætt á greinunum og eru gjarnan þrí-sepótt. Óreglulega tennt. Brum áberandi rauð. Rauðir og bleikir haustlitir. Blómin hvít - bleik í litlum sveipum. Rauðgul, æt ber (steinaldin) þroskast að hausti. Hægvaxta eða í meðallagi hraðvaxta.
Skuggþolinn en fallegastir haustlitir og mest berjauppskera í fullri sól. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Bersarunni fer vel í blönduðum runnabeðum, röðum og þyrpingum. Millibil um 80 sm. Berin má nýta í sultur og þess háttar. Þau eru sögð rík af andoxunarefnum. Okkar bersarunnar eru allir vaxnir upp af fræi sem tínt er hérlendis. Íslenski efniviðurinn af bersarunna er trúlega allur frá Alaska. Heimkynni: Norðanverð N-Ameríka. Desjurtaætt (Adoxaceae).
Hafþyrnir – Hippophae rhamnoides
Harðgerður, þyrnóttur, lauffellandi, lágvaxinn - hávaxinn runni (1 - 3 m). Laufið lensulaga og grásilfrað. Blómin smá og lítið árberandi. Sérbýll. Kvenplöntur þroska rauðgul, æt ber séu karlplöntur í nágrenninu. Ein karlplanta dugar til að fræva nokkrar kvenplöntur. Vindfrævun. Berin hanga á runnunum langt fram á vetur þar sem fuglar virðast lítið sækja í þau. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur (Frankia) sem gerir honum kleift að vaxa í rýrum jarðvegi. Hafþyrnir hefur mjög skriðullt og kröftugt rótarkerfi.
Berin eru nýtt í sultur og þess háttar og eru sögð mjög holl og eru t.d. mjög C-vítamínrík. Laufið má nýta í te. Hentar sérlega vel við sjávarsíðuna, til að binda sendinn og malarborinn jarðveg og þess háttar. Þrífst í alls konar jarðvegi en þó ekki blautum. Hafþyrnir hentar í runnaþyrpingar og raðir t.d. á vindasömum stöðum og í villigarða og sumarhúsalóðir. Millibil við gróðursetningu um 1 m. Rótarskot geta verið til ama t.d. nálægt gangstéttum og þess háttar. Fer jafnvel í gegnum malbik!
Við höfum verið að prófa okkur áfram með mismunandi yrki og stofna. Finnsku yrkin 'Tytti' (kvk), 'Terhi' (kvk), 'Rudolf' (kk) og 'Tarmo' (kk), fást gjarnan hjá okkur og hafa reynst vel. Einnig eigum við stundum til kvk og kk yrki úr Hallargarðinum, Rvk. Höfum einnig framleitt og boðið upp á íslenskar fræplöntur af hafþyrni.
Heimkynni: Kaldtempruð svæði Evrasíu. Í heimkynnum sínum vex hafþyrnir aðallega með ströndum fram og til fjalla. Silfurblaðsætt (Elaeagnaceae)