Rós ‘Örträsk’ – Rosa ‘Örträsk’ / ‘Örtelius’
Harðgerð, meðalhá runnarós (1,5 – 2,0 m). Talin blendingur ígulrósar (R. rugosa) og kanelrósar (R. majalis). Dreifir sér nokkuð út með rótarskotum. Blómin stór, hálffyllt, bleik og ilmandi. Blómgast frá miðju sumri og fram í frost. Þroskar rauðar nýpur sem má nýta til manneldis.
Sólelsk en þolir vel hálfskugga. Millibil 1 m. Hentar stakstæð, í blönduð beð, raðir og þyrpingar. Ættuð frá Lapplandi. Rósaætt (Rosaceae).
Vörunr.
141f25817bab
Vöruflokkur: Rósir
Tengdar plöntur
Ígulrós ‘Logafold’ – Rosa rugosa ‘Logafold’
Rósin 'Logafold' er afrakstur rósakynbóta Jóhanns Pálssonar fyrrverandi garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar. 'Logafold' er harðgerð og þétt runnarós. Vind- og saltþolin enda af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin eru stór, léttfyllt, fallega skálformuð, rauðfjólublá - bleik og ilmandi. Langur blómgunartími. Rauðar nýpur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Hæð um 1,5 m. Framleidd og seld í Þöll á eigin rót. Hentar í blönduð beð, raðir og þyrpingar með um 80 sm millibili. Getur einnig vaxið "villt" í sumarhúsalöndum og þess háttar. 'Logafold' er úr smiðju Jóhanns Pálssonar grasafræðings. Hún er afkomandi R. 'Charles Albanel x ?.
Rós ‘George Will’ – Rosa rugosa ‘George Will’
Harðgerð, meðalstór runnarós af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin stór, fagurbleik, hálffyllt og ilmandi. Ekki mikið um nýpur. Rauðgulir haustlitir. Sólelsk. 'George Will' hentar í blönduð runna- og blómabeð, raðir, þyrpingar, sumarhúsalóðir og villigarða. Millibil um 80 sm. Sérlega blómviljug og snotur rós.
Skáldarós ‘Frankfurt’ – Rosa x francofurtana ‘Frankfurt’
Fremur harðgerð runnarós. Þyrnalítil. Hæð 1 - 1,5 m. Sólelsk en þolir hálfskugga. Laufið matt. Blómin fremur stór, rauðbleik - purpurarauð, tvöfölld með gulum fræflum. Enginn eða lítill ilmur. Blómgast í nokkrar vikur síðsumars og jafnvel fram á haust. Rauðar perulaga nýpur þroskast á haustin.
Þrífst vel í allri sæmilega frjósamri og vel framræstri ræktunarmold. Blandið moltu eða gömlu hrossataði við moldina við gróðursetningu. Ef jarðvegur er leirkenndur/þéttur blandið þá sandi eða fínnri möl við jarðveginn. Skríður eitthvað út með rótarskótum en ekki til ama. Klippið í burt kalnar greinar og krosslægjur seinni part vetrar eða snemma vors.
Skáldarós 'Frankfurt' hentar í blönduð rósa- og runnabeð. Einnig tilvalin í raðir og þyrpingar. Millibil tæpur 1 m. Gamalt yrki sem er þekkt frá Þýskalandi frá því á 16. öld. Talin blendingur gallarósar (R. gallica) og kanelrósar (R. majalis).
Rós ‘Hilda’ – Rosa ‘Hilda’
Rósin 'Hilda' er harðgerð, þéttvaxin runnarós sem verður um 1,5 m á hæð. Gisþyrnótt. Laufið stakfjaðrað og matt. Blómin eru meðalstór, tvöföld, bleik og ilmandi. Gulir frævlar. Blómgast í júlí - ágúst. Blómsæl. Rauðgular, nánast hnöttóttar nýpur þroskast í september - október. Hún hefur talsvert skriðult rótarkerfi.'Hilda' er vind- og saltþolin. Hentar í limgerði, þyrpingar, í brekkur og á opin svæði. Einnig þrífst hún í sumarhúsalóðum við litla umhirðu. Eins og aðrar rósir er hún sólelsk en þolir hálfskugga. 'Hilda' er framleidd og seld í Þöll á eigin rót. 'Hilda' er ein af rósum Jóhanns Pálssonar grasafræðings og fyrrverandi garðyrkjustjóra Reykjavíkur. 'Hilda' er blendingur milli ígulrósar 'Hadda' (R. rugosa 'Hadda') og fjallarósar (R. pendulina).
Rós ‘Guðbjörg’ – Rosa ‘Guðbjörg’
Harðgerð, lágvaxin - meðahá runnarós (1,5 m). Laufið dökkgrænt, stakfjaðrað. Rauðir blaðstilkar. Rauð brum. Blómin tvöfölld, dökkrauðfjólublá með ljósari æðum. Ilma. Rauðar nýpur þroskast að hausti. Skriðullt rótarkerfi. Sólelsk. Hentar í runnaþykkni, brekkur (til að binda jarðveg), villigarða og sumarhúsalóðir. Yrkið er upprunið frá Jóhanni Pálssyni fyrrverandi garðyrkjustjóra Reykjavíkur. 'Guðbjörg' er samkvæmt Jóhanni afkvæmi ígulrósarinnar 'Logafold' og R. x kamtschatica.
Rós ‘John Cabot’ – Rosa ‘John Cabot’
Sæmilega harðger runnarós. Hæð: Allt að 2 m. Laufin eru stökfjöðruð og gljáandi. Blómin meðalstór, skærbleik, hálffyllt og með meðalsterkum ilm. Þau sitja nokkur saman á stöngulendum. Blómstrar síðsumar og fram á haust.
Þrífst best í frjóum, vel framræstum jarðvegi. 'John Cabot' er seld ágrædd. Gróðursetjið rósina þannig að ágræðslan fari 10 sm undir jarðvegsyfirborðið. 'John Cabot' þarf sólríkan og þokkalega skjólgóðan vaxtarstað til að þrífast. Hægt er að gróðuretja 'John Cabot' við grind upp við vegg og rækta sem klifurrós.
Úr smiðju Dr. Felicitas Svejda, Kanada frá árinu 1969. Markaðssett í Kanada árið 1978. Fjölbastarður (R. x kordesii) x (R. 'Masquerade' x R. laxa). 'John Cabot' er úr svokallaðri "Explorer rósa seríu". Rósir í þessari vörulínu voru ræktaðar fram af Svejda í "Central Experimental Farm" í Ottawa, Ontario með það í huga að þola kalda vetur og stutt sumur á meginlandi Kanada. Rósir þessar voru skírðar í höfuðið á landkönnuðum sem komu við sögu í sögu Kanada. John Cabot (1450 - 1500) var ítalskur stýrimaður sem fyrstur kannaði Norðvesturleiðina svokölluðu. Rósaætt (Rosaceae).
Ígulrós ‘Krístin’ – Rosa rugosa ‘Kristín’
Harðgerð, fremur lágvaxinn (1,5) runnarós. Blómin tvöfölld, rauðbleik, fremur stór, ilmandi og gjarnan nokkur saman í klasa. Rauðar nýpur þroskast að hausti. Rauðgulir - gulir haustlitir. Sólelsk. Skríður nokkuð út með rótarskotum. Vind- og saltþolin. Hentar í raðir, þyrpingar, brekkur og villigarða. Millibil: 80 - 100 sm. 'Kristín' er ein af rósum Jóhanns Pálssonar. Hún mun vera afkomandi R. rugosa 'Logafold' og (R. kamtschatica x ?).
„Páfarós“ – Rosa ‘Poppius’
Mjög harðgerð, meðalstór runnarós. Þyrnirósablendingur. Blómin fremur smá, hálffyllt, lillableik. Daufur ilmur. Smágerðar, dökkar nýpur. Rauðgulir haustlitir. Sólelsk. Ekki svo skriðul. Fer vel í blönduð runnabeð, í raðir, þyrpingar og í sumarhúsalandið. Ein allra harðgerðasta rósin sem völ er á. 'Poppius' er sögð blendingur fjallarósar (R. pendulina) og þyrnirósar (R. pimpinellifolia). Úr smiðju Carl Stenberg, Svíþjóð frá árinu 1838. Hann skýrði yrkið í höfuðið á vini sínum Dr Gabriel Poppius sem var finnskur grasafræðingur og stjórnaði sænsku Konunglegu landbúnaðarakademíunni. Millibil 70 - 80 sm.