Rós ‘Ristinummi’ (járnbrautarrósin) – Rosa ‘Ristinummi’
Harðgerður, þéttur, meðalstór runni. Laufið stakfjaðrað. Blómin stór, einföld, fölbleik, daufur ilmur. Krónublöðin eru gulleit neðst. Blómgast í júlí og ágúst. Rauðar nýpur. Rauðgulir haustlitir. Vaxtarlagið hvelft. Sólelsk. Blómgast mest í sæmilega frjóum vel framræstum, aðeins sendnum eða grýttum jarðvegi í fullri sól. Járnbrautarrósin sómir sér vel í blönduðum runnabeðum, röðum og þyrpingum með tæplega 1 m millibili. Hentar í villigarða og sumarhúsalóðir. Talin vind- og saltþolin. Skríður ekki mikið út með rótarskotum. ‘Ristinummi’ er að öllum líkindum blendingur ígulrósar (R. rugosa) og þyrnirósar (R. pimpinellifolia). Kennd við bæinn Ristinummi í Finnlandi þar sem Peter Joy fann hana við járnbrautarstöðina í bænum í kringum árið 1996.
Vörunr.
5e4b311cce10
Vöruflokkar: Rósir, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Birki / Ilmbjörk – Betula pubescens
Harðgert íslenskt tré. Hæð breytileg. Sólelskt. Í meðallagi hraðvaxið. Þrífst best í frjóum jarðvegi en annars nægjusamt. Getur lifað í all blautum jarðvegi. Lauf ilmar, sérstaklega á vorin í röku veðri. Haustlitur á ekta ilmbjörk er gulur. Eina trjátegundin sem myndað hefur skóga hérlendis frá því að síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Myndar gjarnan blendinga með fjalldrapa (B. nana). Blendingurinn kallast skógviðarbróðir og er misstór runni en ekki tré og mjög algengur í íslenskri náttúru, sérstaklega vestanlands. Skógviðarbróðir hefur yfirleitt dökkan / svartan börk, smágert lauf og rauðgulan haustlit. Birki hentar sem stakstætt tré eða fleiri saman í þyrpingum og röðum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Einnig notað til skógræktar og uppgræðslu. Vex þó hægt í ófrjóu landi. Birki hentar einnig í klippt limgerði á sólríkum stöðum. Upp á síðkastið hafa nýjar tegundir skordýra sem herja á birki numið land. Birkið okkar í Þöll er af Bæjarstaða-uppruna. Móðurtréin eru af yrkinu 'Embla'. Því fá tréin venjulega ljósan börk með aldrinum. Náttúruleg heimkynni imbjarkar eru auk Íslands mestur hluti Evrópu nema syðst, Norður og Mið-Asía og S-Grænland.
Alaskaepli – Malus fusca
Harðgert, fremur hægvaxta, lágvaxið tré eða runni (3 - 6 m). Laufin eru 5 - 8 sm á lengd egglaga eða sporöskjulaga. Óreglulega flipótt og sagtennt. Blómin hvít, ilmandi í sveipum fyrri part sumars. Aldinið lítið gulgrænt - rauðleitt, ætt epli á stærð við vínber. Þroskar yfirleitt aldin á hverju ári. Rauðir haustlitir. Þolir vel klippingu. Stundum ber á rótarskotum. Þrífst í allri venjulegri, rakaheldinni garðmold. Blandið moltu eða gömlum búfjáráburði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Alaskaepli fer vel stakstætt eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Alaskaepli hentar vel í klippt limgerði. Í limgerði er hæfilegt millibil um 70 sm. Greinar alaskaeplis eru harðar/stífar og dvergsprotar áberandi hvassir. Alaskaepli er harðgerðasta skrauteplið fyrir íslenskar aðstæður sem völ er á. Við framleiðum eingöngu alaskaepli af íslensku fræi. Aldin alaskaeplis má nýta í sultu- og hlaupgerð en þau eru rík af pektíni. Ekki er ósennilegt að alaskaepli nýtist sem frjógjafi fyrir matarepli (M. domestica) en erlendis er það þekkt að þar sem þessar tegundir vaxa saman mynda þær stundum blendinga (M. x dawsoniana). Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex það gjarnan í deiglendi og nálægt ströndinni.
Flosvíðir – Salix × dasyclados
Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Laufið lensulaga. Minnir á körfuvíði (Salix viminalis) en grófgerðari. Sprotar áberandi loðnir. Karlkynsklónn með fallegum silfurloðnum reklum strax í febrúar/mars með bleikum blæ. Gulir frjóhnappar birtast í mars / apríl. Þrífst best í frjóum, rökum jarðvegi t.d. við læki og tjarnir. Einnig góður í runnaþyrpingar og jafnvel skjólbelti. Fallegastur sé hann klipptur / sagaður niður reglulega.
Birkikvistur – Spiraea betulifolia
Mjög harðgerður, fremur lágvaxinn (1 m), þéttur runni. Blómin hvít í sveipum miðsumars. Rauðir haustlitir. Þolir hálfskugga. Vind- og saltþolinn. Hentar í potta, raðir og þyrpingar. Þolir vel klippingu. Klipptir birkikvistar blómstra minna en ella. Bil milli plantna ætti ekki að vera minna en 60 sm. Mjög algengur og vinsæll hérlendis. Þetta yrki gengur undir heitunum 'Birkikvistur', 'Ísland' og 'Island' og er fáanlegt víða í Evrópu.
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’, ‘Haukur’ og ‘Súla’
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk.
'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd).
Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.
Hafþyrnir – Hippophae rhamnoides
Harðgerður, þyrnóttur, lauffellandi, lágvaxinn - hávaxinn runni (1 - 3 m). Laufið lensulaga og grásilfrað. Blómin smá og lítið árberandi. Sérbýll. Kvenplöntur þroska rauðgul, æt ber séu karlplöntur í nágrenninu. Ein karlplanta dugar til að fræva nokkrar kvenplöntur. Vindfrævun. Berin hanga á runnunum langt fram á vetur þar sem fuglar virðast lítið sækja í þau. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur (Frankia) sem gerir honum kleift að vaxa í rýrum jarðvegi. Hafþyrnir hefur mjög skriðullt og kröftugt rótarkerfi.
Berin eru nýtt í sultur og þess háttar og eru sögð mjög holl og eru t.d. mjög C-vítamínrík. Laufið má nýta í te. Hentar sérlega vel við sjávarsíðuna, til að binda sendinn og malarborinn jarðveg og þess háttar. Þrífst í alls konar jarðvegi en þó ekki blautum. Hafþyrnir hentar í runnaþyrpingar og raðir t.d. á vindasömum stöðum og í villigarða og sumarhúsalóðir. Millibil við gróðursetningu um 1 m. Rótarskot geta verið til ama t.d. nálægt gangstéttum og þess háttar. Fer jafnvel í gegnum malbik!
Við höfum verið að prófa okkur áfram með mismunandi yrki og stofna. Finnsku yrkin 'Tytti' (kvk), 'Terhi' (kvk), 'Rudolf' (kk) og 'Tarmo' (kk), fást gjarnan hjá okkur og hafa reynst vel. Einnig eigum við stundum til kvk og kk yrki úr Hallargarðinum, Rvk. Höfum einnig framleitt og boðið upp á íslenskar fræplöntur af hafþyrni.
Heimkynni: Kaldtempruð svæði Evrasíu. Í heimkynnum sínum vex hafþyrnir aðallega með ströndum fram og til fjalla. Silfurblaðsætt (Elaeagnaceae)
Alaskasýprus – Cupressus nootkatensis
Lágvaxið, sígrænt tré. Gjarnan líkari runna fyrstu árin. Toppurinn og smágreinar áberandi drjúpandi. Barrið hreisturlaga, blágrænt - gulgrænt. Könglar kúlulaga á stærð við bláber. Dökkbláir fullþroska. Þokkafullur og jafnvel draugalegur að sjá. Þarf nokkurt skjól. Fremur skuggþolinn. Þolir vel klippingu. Almennt talinn harðgerðasti sýprusinn.
Óvíst er hveru hár alaskasýprus getur orðið hérlendis. Reikna má með 6 - 7 m hæð á bestu stöðum í skógarskjóli. Getur orðið talsvert breiður. Alaskasýprus þrífst í skjólgóðum görðum og trjálundum. Hentar í beð og þyrpingar með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig framan við og jafnvel undir stærri trjám. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Framleiðum eingöngu alaskasýprus af íslensku fræi. Einnig nefndur Callitropsis nootkatensis. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku. Allt frá Alaska suður til N-Kaliforníu. Grátviðarætt (Cupressaceae).
Alaskavíðir – Salix alaxensis – ‘Gústa’, ‘Oddur Guli’, ‘Töggur’ o.fl. yrki
Mjög harðgerður, vind- og saltþolinn, hraðvaxta, hávaxinn runni/lágvaxið tré (3-7 m). Greinar í fyrstu uppréttar en síðar útvaxnar og jafnvel drjúpandi. Það er þó talsvert mismunandi eftir yrkjum. Laufblöð sporbaugótt - öfugegglaga með hvítu lóhærðu neðra borði, allt að 11 sm löng. Sérbýll. Blómgast í apríl en silfurgráir reklar birtast gjarnan í mars. Humlur sækja í reklana á vorin.
'Gústa' sem einnig gengur undir nafninu "tröllavíðir" og "brúnn alaskavíðir" hefur dökkbrúna sprota, hvíthærða í endana. 'Oddur Guli' hefur gulgræna sprota og 'Töggur' skærgræna. Greinar 'Sunnu' eru óvenju mikið slútandi. 'Máni' hefur brúna til græna sprota sem eru ekki mikið hærðir í endana. 'Hríma' hefur þykka, hvíthærða sprota alla leið.
Alaskavíðir er aðallega gróðursettur í skjólbelti og limgerði. Gróðursettar eru 2-3 plöntur/m. Þarf frjóan, steinefnaríkan og rakaheldinn jarðveg til að þrífast. Sólelskur. Klippið reglulega til að halda í góðu formi. Gulir haustlitir í október. Laus við asparglyttu og ryð. Gamall (25 - 30 ára) óklipptur alaskavíðir fellur gjarnan um koll en stofnskot vaxa jafn harðan upp aftur. Sáir sér út í raskað land þar sem aðstæður leyfa. Heimkynni: Alaska og NV-Kanada. Víðisætt (Salicaceae).