Rós ‘Ritausma’ – Rosa ‘Ritausma’
Harðgerð runnarós af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin eru stór, fyllt, ilmandi, skærbleik nær miðju en nánast hvít yst. Blómsæl. Byrjar að blómgast í júlí og heldur áfram fram á haust. Þroskar ekki nýpur. Heilbrigð. Hæð um 1,5 m. Mjög þyrnótt. Sólelsk. Gulir haustlitir.
Þrífst best í sæmilega frjóum, vel framræstum jarðvegi. Má gjarnan vera malar- og/eða sandborinn. Hentar í raðir og þyrpingar með um 1 m millibili. Einnig í blönduð runnabeð og blómabeð og jafnvel stakstæð.
‘Ritausma’ er úr smiðju Dr. Dz. Rieksta frá Lettlandi frá árinu 1963. ‘Ritausma’ hefur náð talsverðum vinsældum hérlendis hin síðari ár. Gengur einnig undir nafninu ‘Polar Ice’ eða ‘Polareis’. Rósaætt (Rosaceae).
Vöruflokkar: Rósir, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Blárifs ‘Perla’ – Ribes bracteosum ‘Perla’
Fremur harðgerður, sumargrænn, gisgreinóttur runni. Hæð: 1,5 - 2 m. Laufin fremur stór, handflipótt, 5 til 7 - flipótt með egglaga - egglensulaga, ydda og tennta flipa. Lauf gljáandi á löngum blaðstilk. Gulir haustlitir. Blómin græn-brúnleit í útstæðum klösum. Blómgast í júní. Berin bláhéluð, áberandi í löngum útstæðum klösum. Þroskast í lok ágúst og fram í september. Henta í sultur og þess háttar en sæmileg til átu beint af runnanum.
Blárifs 'Perla' þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Blandið gömlum húdýraáburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Gott er að setja álíka lífrænt efni í kringum runnana á fárra ára fresti. Blárifs er all skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Þrífst betur við ströndina en inn til landsins. Hentar í raðir, þyrpingar, í berjagarðinn og sem undirgróður undir trjám. Millibil um 1 m eða meir.
'Perla' er úrvalsyrki valið af Ólafi S. Njálssyni úr Alaskasafni því er barst til landsins með Óla Val og félögum árið 1985. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá S-Alaska í norðri suður til N-Kaliforníu. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).
Alaskayllir / Rauðyllir – Sambucus racemosa ssp. arborescens
Harðgerður, stórvaxinn, grófur runni. Hæð: 3-5 m. Blómin mörg saman í kremuðum klasa í maí - júní. Berin eldrauð í ágúst. Fuglar sækja mjög í berin. Brumin gagnstæð. Laufblöðin stór, stakfjöðruð. Laufgast snemma á vorin. Gulir - brúnir haustlitir. Hraðvaxta. Mjög skuggþolinn. Þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Góður til uppfyllingar í skuggsæl horn o.þ.h. Getur hæglega vaxið yfir aðrar plöntur og skyggt þær út. Virðist nokkuð saltþolinn. Þolir vel klippingu. Millibil 1,5 - 2,0 m. Berin má nýta í sultur, vín og fleira séu þau soðin og fræið, sem er eitrað, sigtað frá. Alaskayllir er sá yllir sem er algengastur hérlendis. Sú deilitegund (S. racemosa ssp. arborescens) eða afbrigði (S. racemosa var. racemosa) er ættað frá vestanverðri N-Ameríku.
Hafþyrnir – Hippophae rhamnoides
Harðgerður, þyrnóttur, lauffellandi, lágvaxinn - hávaxinn runni (1 - 3 m). Laufið lensulaga og grásilfrað. Blómin smá og lítið árberandi. Sérbýll. Kvenplöntur þroska rauðgul, æt ber séu karlplöntur í nágrenninu. Ein karlplanta dugar til að fræva nokkrar kvenplöntur. Vindfrævun. Berin hanga á runnunum langt fram á vetur þar sem fuglar virðast lítið sækja í þau. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur (Frankia) sem gerir honum kleift að vaxa í rýrum jarðvegi. Hafþyrnir hefur mjög skriðullt og kröftugt rótarkerfi.
Berin eru nýtt í sultur og þess háttar og eru sögð mjög holl og eru t.d. mjög C-vítamínrík. Laufið má nýta í te. Hentar sérlega vel við sjávarsíðuna, til að binda sendinn og malarborinn jarðveg og þess háttar. Þrífst í alls konar jarðvegi en þó ekki blautum. Hafþyrnir hentar í runnaþyrpingar og raðir t.d. á vindasömum stöðum og í villigarða og sumarhúsalóðir. Millibil við gróðursetningu um 1 m. Rótarskot geta verið til ama t.d. nálægt gangstéttum og þess háttar. Fer jafnvel í gegnum malbik!
Við höfum verið að prófa okkur áfram með mismunandi yrki og stofna. Finnsku yrkin 'Tytti' (kvk), 'Terhi' (kvk), 'Rudolf' (kk) og 'Tarmo' (kk), fást gjarnan hjá okkur og hafa reynst vel. Einnig eigum við stundum til kvk og kk yrki úr Hallargarðinum, Rvk. Höfum einnig framleitt og boðið upp á íslenskar fræplöntur af hafþyrni.
Heimkynni: Kaldtempruð svæði Evrasíu. Í heimkynnum sínum vex hafþyrnir aðallega með ströndum fram og til fjalla. Silfurblaðsætt (Elaeagnaceae)
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.
Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Sæland’, ‘Pinni’, ‘Haukur’ og ‘Súla’
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt og rótarkambar því áberandi. Ljóselsk.
'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Einstöku sinnum ræktuð sem klippt limgerði (sjá mynd).
Þrífst best í rakaheldnum, næringarríkum/steinefnaríkum jarðvegi. Þolir all vel bleytu hluta úr ári. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Allt frá Alaska til Baja Kalifornía í Mexíkó. Íslenski stofninn er allur eða nær allur ættaður frá Alaska.
Flosvíðir – Salix × dasyclados
Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Laufið lensulaga. Minnir á körfuvíði (Salix viminalis) en grófgerðari. Sprotar áberandi loðnir. Karlkynsklónn með fallegum silfurloðnum reklum strax í febrúar/mars með bleikum blæ. Gulir frjóhnappar birtast í mars / apríl. Þrífst best í frjóum, rökum jarðvegi t.d. við læki og tjarnir. Einnig góður í runnaþyrpingar og jafnvel skjólbelti. Fallegastur sé hann klipptur / sagaður niður reglulega.
Blóðbeyki – Fagus sylvatica ‘Purpurea’
Sæmilega harðgert, þétt, fremur hægvaxta tré. Hæstu blóðbeyki hérlendis eru hátt í 9 m há. Getur sjálfsagt náð 12 m á hæð eða meir á bestu stöðum. Laufin áberandi purpurarauð/vínrauð. Dökkgræn/blágræn í skugga. Laufgast um mánaðarmótin maí/júní. Laufin sitja visin, ljósbrún á greinum yngri trjáa og á neðstu greinum á eldri trjám allan veturinn. Sólelskt. Almennt heilbrigt.
Blóðbeyki þarf sæmilega djúpan, frjóan og vel framræstan jarðveg. Hentar aðeins til ræktunar í sæmilega grónum hverfum og í skógarskjóla ekki of langt inn til landsins. Aðallega gróðursett stakstætt. Millibil 3 m eða meir. Blóðbeyki er stökkbreyting af venjulegu beyki (F. sylvatica) sem hefur óvenju mikið af "anthocyanin" litarefni. Blóðbeyki er fyrst talið hafa fundist í skógi við bæinn Sondershausen í Thuringia í Þýskalandi árið 1690. Talið er að stærstur hluti blóðbeykitrjáa í dag reki uppruna sinn til þessa trés. Beykiætt (Fagaceae).
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Gömul tré hérlendis þroska stundum köngla. Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 3 m millibili. Úrvals jólatré enda barrheldið. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands. Blágreni þykir all gott timburtré og viðurinn sagður léttur en fremur sterkur. M.a. nýtt í ýmis hljóðfæri. Blágreni er fyrst og fremst háfjallatré. Heimkynni blágrenis eru aðallega í Klettafjöllum og Fossafjöllum (Cascade Range) N-Ameríku. Vex þar víða upp að skógarmörkum. Myndar blendinga með hvít- (P. glauca) og sitkagreni (P. sitchensis) í heimkynnum sínum þar sem útbreiðslusvæði þessara tegunda skarast.