Rós ‘Flammentanz’ – Rosa ‘Flammentanz’
Klifurrós. Blómin stór, rauð, hálffyllt. Ilmur daufur eða enginn. Þrífst eingöngu í skjóli á móti sól í vel framræstum jarðvegi blönduðum sandi/möl og lífrænu efni (búfjáráburði/moltu). Yrki frá 6. áratug síðustu aldar frá „W. Kordes’ Söhne“ í Þýskalandi.
Vörunr.
e6dedff60dff
Vöruflokkar: Klifurplöntur, Rósir
Tengdar plöntur
„Hansarós“ – Rosa rugosa ‘Hansa’
Harðgerð, meðalstór runnarós af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin stór, vel fyllt, rauðfjólblá og ilmandi. Blómgast frá því í júlí og eitthvað fram á haustið. Blómviljug. Þroskar lítið sem ekkert af nýpum. Rauðgulir haustlitir. Mjög algeng hérlendis. Mest notuð í raðir og þyrpingar. Hentar vel í limgerði sem ekki eru "stífklippt". Millibil um 80 sm. Vind- og saltþolin. Skríður eitthvað út sé hún á eigin rót. Stundum kölluð "Vestmannaeyjarós". Tvímælalaust algengasta rósin í íslenskum görðum. Ekki er óalgengt að ígulrósir (R. rugosa) séu í daglegu tali kallaðar "hansarósir" þó að í raun eigi það aðeins við um þetta tiltekna yrki af ígulrós. Gamalt hollenskt yrki.
Skógartoppur ‘Belgica’ – Lonicera periclymenum ‘Belgica’
Fremur harðgerður, heilbrigður klifurrunni/vafningsviður. Laufblöðin eru gagnstæð og heilrennd. Getur vafið sig upp nokkra metra upp klifurgrindur, snúrur, pergólur og tré. Blómgast síðsumars. Blómin sitja í krönsum. Rauð að utanverðu en gulleit að innanverðu. Ilma vel. Rauð ber þroskast seint á haustin ef tíð er góð. Óæt. Fremur hraðvaxinn. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegum, sæmilega frjóum, meðalrökum garðajarðvegi. Þrífst vel upp við veggi þar sem sólar nýtur. Fremur algengur og vinsæll klifurrunni hérlendis. Náttúruleg heimkynni skógartopps eru um stóran hluta Evrópu þó ekki hérlendis, N-Afríka, Tyrkland og Kákasus.
Írabergflétta – Hedera hibernica
All harðgerður, sígrænn klifurrunni. Blöðin er talsvert stærri en á bergfléttu (H. helix), fagurgræn, gljáandi, heilrennd, egglaga og þrísepótt. Laufblöð á blómstrandi greinum eru frábrugðin. Þau eru smærri og yfirleitt oddbaugótt (sjá mynd). Blómgast á haustin. Blóm gulgræn í kollum, aldinið svart ber sem þroskast að vori. Blóm og ber sjást ekki oft hérlendis. Öll plantan ásamt berjunum eru vægt eitruð.
Festir sig á undirlagið með sérstökum heftirótum. Getur vaxið marga metra upp veggi og trjástofna. Skuggþolin. Þrífst best í mildu úthafsloftslagi í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Getur einnig vaxið með jörðinni og þakið yfirborðið þar sem aðstæður leyfa. Hentar tæplega til rækunar inn til landsins. Sviðnar oft talsvert af salti og sólfari útmánaðanna en nær sér yfirleitt fljótt aftur. Þolir vel klippingu. Heimkynni: Atlantshafsströnd Evrópu. Bergfléttuætt (Araliaceae).
Ígulrós ‘Logafold’ – Rosa rugosa ‘Logafold’
Rósin 'Logafold' er afrakstur rósakynbóta Jóhanns Pálssonar fyrrverandi garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar. 'Logafold' er harðgerð og þétt runnarós. Vind- og saltþolin enda af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin eru stór, léttfyllt, fallega skálformuð, rauðfjólublá - bleik og ilmandi. Langur blómgunartími. Rauðar nýpur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Hæð um 1,5 m. Framleidd og seld í Þöll á eigin rót. Hentar í blönduð beð, raðir og þyrpingar með um 80 sm millibili. Getur einnig vaxið "villt" í sumarhúsalöndum og þess háttar. 'Logafold' er úr smiðju Jóhanns Pálssonar grasafræðings. Hún er afkomandi R. 'Charles Albanel x ?.
Hurdalsrós – Rosa ‘Hurdalsrose’
Meðalstór til stórvaxinn runni, 1,5 - 2,5 m á hæð. All harðgerð. Blómin fagurbleik, meðalstór, hálffyllt. Ilma lítið sem ekkert. Rauðgular, þyrnóttar nýpur. Rauðgulir haustlitir. Fer vel stakstæð, í blönduð beð og upp við vegg, jafnvel á grind sem klifurrós. Skríður ekki út með rótarskotum. Getur sýkst af ryðsvepp.
Fjallarós ‘Hellisgerði’ – R. pendulina ‘Hellisgerði’
Harðgerð, meðalhá runnarós. Blómin fremur smá, einföld, rauðbleik, ljósari nær miðju. Blómgast yfirleitt fyrst rósa hérlendis, gjarnan seinni part júní. Stundum aftur snemma hausts. Daufur ilmur. Rauðgulir haustlitir. Sólelsk en þolir hálfskugga. Fjallarós 'Hellisgerði' hentar stakstæð, fleiri saman eða í bland með öðrum gróðri.
Meyjarós / Hæðarós ‘Highdownensis’ – Rosa moyesii ‘Highdownensis’
Fremur harðgerð, hávaxin runnarós. Hæð: 3 - 4 m. Greinar fyrst uppréttar. Síðan útsveigðar. Laufin stakfjöðruð. 9 - 11 smáblöð. Dökkgræn og mött á efra borði. Blaðstilkar þyrnóttir. Greinar og sprotar þyrnótt. Blómin all stór, einföld, rauðbleik. Daufur ilmur. Blómgast í júlí - ágúst. Krónublöðin ljósari neðst. Gulir fræflar. Þroskar rauðgular, flöskulaga nýpur á haustin sem standa fram á vetur. Sólelsk.
Meyjarós 'Highdownensis' fer vel stakstæð eða aftarlega í runna- og blómabeðum. Plássfrek. Mætti nota sem klifurrós á vegg. Getur einnig prílað upp tré. Þrífst í sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Má gjarna vera sand- og malarborinn.
'Highdownensis' er ættuð frá F.C. Stern frá árinu 1928 og kennd við garð hans, Highdownensis, Sussex, Englandi. 'Highdownensis' er ýmist talin vera meyjarós eða meyjarósarblendingur (R. x highdownensis) þar sem hitt foreldrið er óþekkt. Náttúruleg heimkynni meyjarrósar eru í V-Kína. Rósaætt (Rosaceae).
Bergflétta – Hedera helix
Sígrænn klifurrunni. Fetar sig upp veggi og trjástofna með heftirótum. Þrífst víða vel nálægt sjávarsíðunni en helst í einhverju skjóli. Skuggþolin. Getur einnig vaxið sem þekjandi runni á jörðu niðri á skjólsömum og mildum stöðum. Á áveðursömum stöðum t.d. þar sem gætir salts af hafi sviðnar laufið gjarnan mikið yfir veturinn en nær sér svo aftur sumarið á eftir.